16.08.1913
Efri deild: 31. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í B-deild Alþingistíðinda. (1930)

3. mál, fjáraukalög 1912 og 1913

Steingrímur Jónsson, framsögumaður:

Háttv. þm. V.-Sk. ( S. E.) og háttv. 6. kgk. þm. (G. B.) hafa komið fram með athugasemdir viðvíkjandi pósthúsbyggingunni. Það lítur út fyrir, að þeir hafi hvorki tekið vel eftir orðum mínum nje lesið vandlega athugasemdir stjórnarinnar við fjáraukalagafrumvarpið. Það liggur hjer fyrir áætlun eins góð, eins og menn eiga að venjast, frá Rögnvaldi Ólafssyni húsameistara. Áætlun þessi, ásamt teikningum, liggur hjer á þinginu, og mundu háttv. þm. eflaust hafa getað fengið að sjá hana, og geta það enn. Ennfremur gat jeg þess áðan, að fyrir lægi yfirlýsing frá byggingarmeisturum hjer í Reykjavík um, að jafnstórt hús viðbótinni mætti byggja sjerstakt fyrir 65000 krónur; og gæti það orðið hagkvæmara pósthús, en það sem menn eiga við að búa. Lengra er þessu máli ekki komið enn. Komizt stjórnin að þeirri niðurstöðu, að rjettara sje að byggja sjerstakt hús, sem svo megi stækka eftir þörfum siðar, þá má vænta þess, að hægt verði að leggja fram tillögur um það og áætlanir fyrir þinglok, svo að þingmenn sjái hjer um bil, að hverju er að genga, en þurfi ekki að veita fje út í loftið eins og háttv. 6. kgk. (G. B.) komst að orði.

Jeg hjelt, að flestum háttv. þingmönnum væri það ljóst, að full þörf er á þessari byggingu. Þeir munu flestir hafa komið upp á landsímastöðina og sjeð, hve óforsvaranlega þröngt þar er. Þó er enn verra með sjálft pósthúsið. og skal jeg með leyfi háttv. forseta lesa upp katla úr brjefi frá póstmeistaranum um, hvernig þar er ástatt: í því segir svo: „Húsrúm það, sem afgreiðslan hefur til umráða, er af svo skornum skamti, að það hefur stundum orðið að flytja afgreiðslu á böglapósti út í bæ; og nú er orðið óhjákvæmilegt, að leigja húsnæði að staðaldri úti í bæ fyrir böglapóstinn, því að um langan tíma hefur verið ómögulegt sakir þrengsla að hafa gát á, hvort allar þær sendingar koma á pósthúsið, sem póstsendingaskrárnar segja, nje hafa nauðsynlega reglu á útsendingu þeirra.

Hið eina húsnæði, sem kostur er á til þessa, sem er Báruhúsið, neðri hæðin, mundi eigi fást leigð fyrir minna en 2400 kr. á ári.

Þegar póstafgreiðslan yrði þannig tvískift, yrði eigi komizt hjá að fjölga póstþjónunum, enda mundi vinna þeirra eigi notast jafnvel eins og að undanförnu, og svo þyrfti að hafa lokaðan vagn sífelt á ferðinni, til þess að skifta póstsendingum á milli pósthúsanna, bæði þeim, sem koma, og þeim, sem fara“.

Með öðrum orðum: Hjer þyrfti fyrst og fremst að leigja hús fyrir 2400 kr., og óvíst hvort það nægði. Í öðru lagi þyrfti að fjölga póstþjónum sökum óhentugs og ónógs húsrýmis, og loks hefur tvískifting

in það í för með sjer, að næga tryggingu vantar fyrir því, að póstsendingar geti ekki glatazt. Síðan 1907 hefur það vakað fyrir þinginu, að pósthúsið væri ófullnægjandi, og ekki yrði hjá því komizt, að bæta. það á einhvern hátt. Nú er það hugmyndin, að byrja á verkinu þegar í haust, með því einu móti er hægt að ljúka verkinu svo tímanlega, að flutt verði inn í nýju bygginguna haustið 1914. Þetta er meiningin með því, að setja nokkuð af byggingarkostnaðinum á fjáraukalög. Upphæðin, sem til er nefnd, 30000 kr., er sett nokkuð af handahófi, og sennilegt, að ekki verði alt fjeð notað fyrir nýár, en alt kemur í sama stað niður, og betra að taka heldur riflega til, en að verkið verði að stöðvast um stund vegna fjárskorts.

Jeg er á sama máli og háttv. 6. kgk. þm. (G. B.l, að nauðsyn sje á að auka húsnæði á Kleppi. Hús þar veit jeg að hafa reynzt ónóg síðan 1909 og verða margir sjúklingar stöðugt að bíða. En á slíkt að tefja fyrir pósthúsviðaukanum? Það mundi þvert á móti verða báðum málunum til hagnaðar, að pósthúsinu væri flýtt. Og jeg mun eigi leggjast móti því, að aukið sje við Klepp, en jeg veit eigi til, að farið sje að hreyfa því máli ennþá. En hins vegar vona jeg, að háttv. deild samþykki þessa fjárveitingu, og við umræður fjárlaganna getur það komið til nánari athugunar, hvort fylgja eigi þessari áætlun, sem þegar er gerð, eða breyta henni, og veita fje til að byggja pósthús.

Þá vill háttv. þm. V.-Sk. (S. E. ), að alt tillagið frá Rangárvallasýslu til Garðsaukasímans verði endurgoldið, og get jeg eigi fallizt á þetta, en vil, að fjárveitingarvaldið ráði, hvernig eftirgjöfunum er hagað, fordæmisins vegna, og legg áherzlu á, að þess sje gætt, að fara þá leið, sem nefndin stingur upp á, hvenær sem um eftir gjöf er að ræða. Landssjóð mundi muna það miklu, að borga út aftur allar þær upphæðir, sem farið mundi fram á að fá endurgreiddar, ef þessi leið væri ekki farin, en hjeruðin munar það minna, þótt þau eigi fái það endurgoldið, sem þau eru einusinni búin að leggja al mörkum.

Að því, er snertir kolatollinn, sem háttv. þm. V.-Sk. mintist líka á, þá getur varla komið til mála að neita að greiða fjeð, að minsta kosti til bráðabirgða, þangað til málið er útkljáð fyrir dómstólunum. Menn verða að gæta þess. að innanríkisráðherra Dana er aðalsemjandinn og Sameinaða fjelagið á aðganginn að honum. Því samkvæmt stöðulögunum á danska stjórnin að annast þetta, og er því eðlilegt, þó að hún verði að borga peningana, því annars bíður ríkissjóður Dana halla (Sig. Eggerz: Hvernig líður ríkissjóður Dana halla?). Á þann hátt að Sameinaða fjelagið segir upp samningunum, svo að semja þarf að nýju, og þá mundi fjelagið sennilega heimta hærra árgjald. Jeg segi ekki, að það ætti að gera það, en jeg segi, að það hafi rjett til að gera það. Annað er það, hvort innanríkisráðherrann hafi rjett til að ákveða, að borga fjelaginu þessar 5000 kr., en vita má, hvort það fje fæst ekki með málssókn aftur, þó að ekki sje vert að gera sjer of háar vonir um, að svo verði.

Viðvíkjandi því, er háttv. þm. Barðstr. (H. Kr.) vill fella burtu 400 kr. til ekkju Jóns sáluga frá Múla, þá getur verið, að að það mæli með því, að vissa er fyrir, að hún fær fyrst um sinn styrk frá fyrri húsbónda Jóns í Múla, en það er óviðkunnanlegt, að fella þessa upphæð burtu, sem þar að auki er veitt í eitt skifti fyrir öll, í viðurkenningarskyni frá vinum hans, og til að heiðra minning hans, og auk þess vissi stjórnin, að ekkjan var efnalítil og bágstödd, ef niður fjelli eftirlaunin frá Zöllner. Það væri ver farið en heima setið, ef þingið kipti nú að sjer hendinni.