16.08.1913
Efri deild: 31. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í B-deild Alþingistíðinda. (1931)

3. mál, fjáraukalög 1912 og 1913

Jón Jónatansson:

Það var fátt eitt, sem jeg vildi minnast á. Sjerstaklega er það þó 1. brtill. við 4. gr., sem jeg vildi víkja að nokkrum orðum. Hjer er í sjálfu sjer um smámuni að ræða, sem jeg geri ekki að miklu kappsmáli, og mjer finst, að nefndin hefði heldur ekki átt að gera það, en jeg get þó eigi felt mig við brtill. og ekki fallizt á ástæður háttv. framsögumans; þessi brtill. sem jeg á við, er um niðurfærslu á endurgreiðslu á tillagi Árnessýslu til símalínunnar frá Ölfusárbrú til Eyrarbakka og Stokkseyrar.

Jeg hafði búizt við, að heyra einhverjar góðar ástæður frá nefndinni fyrir þessu, en hef eigi orðið þeirra var, svo að mjer þyki fullnægjandi.

Fjáraukafagafrumvarpið, eins og það kom frá Nd., lagði til að endurgreiða helming tillagsins, alt að 3000 kr., en fjárlaganefndin leggur til, að það sje nú fært niður í 2500 kr. Ástæða nefndarinnar fyrir þessu er sú, að þessar endur greiðslur verði að byggjast á einhverjum föstum grundvelli. En jeg verð að álíta, að nefndin hefði þá átt að geta fundið annan grundvöll betri en þennan, sem hún nú byggir á, að endurborga ekki meira en nemur eftirstöðvunum af lánunum, hvort sem þær eru meiri eða minni, og láta svo vera happ sem hlýtur.

Háttv. framsm. (Stgr. J.) gat þess, að kostnaðaráætlunin við Patreksfjarðarsímann hefði verið alt of há, og því væri endurgreiðsla þar sjálfsögð, en þannig er líka einmitt ástatt hjer, að línan kostaði ekki eins mikið og áætlað var, eða litlu meira en tillagið nam, og þessvegna var þessi endurgreiðsla einnig rjettmæt og sjálfsögð. Þrátt fyrir tilraunir minar hef jeg aldrei getað fengið nákvæmar upplýsingar um kostnaðinn við þessa símalinu. Símastjórnin lagði að vísu fram reikninga, að verkinu loknu, um allan símann austanfjalls í heild sinni, en þeir reikningar sýndu ekki neitt, hvað þessi lína kostaði út af fyrir sig ; þegar jeg í fyrra gat þess opinberlega, að þessi lína hefði ekki kostað meira en tillaginu nam, svaraði símastjóri því atriði ekki, en bauðst til að gefa upplýsingar um símamálið, ef jeg vildi meira um það skrifa; jeg tók þessu boði hans og óskaði eftir að fá að sjá sundurliðaðan reikning yfir kostnaðiun við þessa línu, en hann er ókominn enn, og fyrirspurn í síma nú í vor frá sýslunefnd Árnessýslu svaraði landsímastjóri á þá leið, að síminn hefði kostað um 9000 kr., en þetta svar verð jeg að telja ófullnægjandi. Það, sem jeg hafði fyrir mig að bera um það, að þessi lína hefði kostað miklu minna, er eftir sem áður óhrakið. Það er einmitt út af tilboði landsímastjórans sjálfs um upplýsingar í málinu, að jeg beiddi um sundurliðaða kostnaðarreikninga, en það kom fyrir ekki, og jeg verð því að álita það enn óhrakið, að Árnessýsla ætti rjett á endurgreiðslu. Stjórnin, landsímastjórinn sjálfur, eftir því sem jeg hef heyrt, og háttv. neðri deild hefur nú fallizt á að endurgreiða 3000 kr. En svo tekur fjárlaganefndin sig til, og lækkar þetta um 500 kr., ojæja, hún getur lotið að litlu, og jeg ann henni ánægjunnar af þessu.

Mjer er ekki kappsmál um þessa smámuni, en jeg vil benda á ósamræmið hjá nefndinni, ef hún álítur, að hjer sje farið fram á of háa endurgreiðslu í samanburði við Patreksfjarðarsímann, og hygg jeg, að finna megi aðra hagfeldari endurgreiðsluleið, en nefndin er hjer komin inn á. Hjer er um litla fjárhæð að ræða, sem tæplega tók fyrir háttv. nefnd að færa niður.

Háttv. nefnd hefur farið vel af stað að spara, og verið í því efni nærfærin og nákvæm, og vona jeg, það verði þannig einnig á öðrum sviðum, og um ýmsa liði fjárlaganna, þegar nefndin fær þau til meðferðar. Hjer er vegið á netta vog, endurgreiðslan til Rangárvallasýslu reiknuð út upp á 3 aura, og þótt jeg geti ekki lagt svo mikið upp úr þessari 3 aura nákvæmni, eða 3 aura sanngirni nefndarinnar, þá getur verið hún þykist hafa þar talsvert til síns máls, en helzt hefði jeg óskað, að hún hefði ekki beitt henni á þessum lið, og að það hefði fengið að standa, sem Nd. hefur gert í þessu atriði.