16.08.1913
Efri deild: 31. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í B-deild Alþingistíðinda. (1935)

3. mál, fjáraukalög 1912 og 1913

Guðmundur Björnsson:

Háttv. frsm. (Stgr. J.) tók það greinilega fram, að það væri aðeins til áætlun um kostnað við að reisa viðbót við pósthúsið, en það er engin áætlun til um nýtt, stórt og vandað sjerstakt pósthús. Jeg er nefndinni hinsvegar algerlega samdóma um það, að að það sje hið mesta álitamál, hvort heldur eigi að byggja viðbót við pósthúsið eða nýtt pósthús, þar sem allir póstar hefðu nægilegt rúm. Og jeg er þess viss, ef það mál væri rannsakað, að það yrði ofan á, að langrjettast og hagkvæmast væri að reisa nýtt pósthús, stórt og vandað. Jeg geri mjer svo miklar vonir um framtíð og framfarir þessarar þjóðar, blómgun atvinnuvega og vöxt allra viðskifta í landinu, að þar komi, áður en langt um líður, að síminn þarfnist umráða yfir allri þeirri lóð, er nú heyrir pósthúsinu til, og að fá verði pósthúsinu nýjan stað. Af þessum ástæðum tel jeg hyggilegast, að reisa alveg nýtt pósthús, en enga viðbót við gamla pósthúsið. Og einkum lízt mjer mjög óráðlegt að reisa viðbótarhús á Arnarhólstúni. Við þekkjum allir þau óþægindi, er af því leiðir, að póststjórnin verður nú að leigja húsnæði út í bæ, t. d, í Bárubúð, og það verður ávalt dýrara að hafa póstinn í tveim póststofum en einni.

Þá sagði hv. frsm. (Stgr. J.), að ráða mætti bót á þessu vankvæði á þann hátt, að fá nýja áætlun fyrir þinglausn. Jeg hef nokkur kynni af húsagerð og reynslu fyrir mjer í þeim efnum, og get því fullyrt, að langan tíma þarf til að semja slíkar áætlanir. svo að þær sjeu ábyggilegar. Þær verða alls ekki samdar í einu vetfangi. Jeg hef því enga trú á, að nokkur tök sjeu á að fá nýtilega áætlun fyrir þinglausn. Ef menn því vilja ekki fallast á tillögur stjórnarinnar, en þykir hyggilegra að reisa nýtt pósthús, þá er ekki hægt að afgreiða málið frá þessu þingi, svo að í nokkru lagi sje.

Að síðustu skal jeg geta þess, til að gleðja hina hv. nefnd, að jeg mun greiða atkv. með öðrum till. hennar.