18.08.1913
Efri deild: 32. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í B-deild Alþingistíðinda. (1947)

109. mál, forðagæsla

Einar Jónsson:

Háttv. 3. kgk. (Stgr. J.) hefur tekið flest fram af því, sem jeg hef að athuga við frumvarpið. Jeg get tekið undir það, að mjer þykir of hart að orði komizt í nefndarálitinu um horfelli. Jeg hef ekki orðið hans var á síðari árum, þar sem jeg þekki til, svo teljandi sje. Jeg hef áður haldið því fram, þegar verið var forðum að semja horfellislögin, að það væri þýðingarmikið, að tvær skoðanir færu fram á fóðurpeningi á vetri, og er jeg sömu skoðunar enn, og hygg það betra en eina skoðun, og ætti það að geta orðið til að glæða áhuga manna á góðri meðferð búpenings. En jeg hef orðið þess var, að viða þótti mönnum lítið til þessara skoðana koma, og lögin urðu óvinsæl hjá mörgum mönnum. Þeir töldu þau aðeins til kostnaðar. Raunar voru skoðanir manna á þessu nokkuð skiftar, er almennara var, að menn álitu þær þýðingarlitlar í samanburði við kostnaðinn við þær. Með horfellislögunum 9. febrúar 1900 var fyrirskipuð að eins ein skoðun á vetri á fóðurpeningi, til að draga úr kostnaðinum. En það var eins, að mörgum hefur þótt jafnvel þessi eina skoðun þýðingarlítil. Jeg er þó ekki á því, þó jeg álíti tvær skoðanir gagnsmeiri. Þegar athugað er, hvernig menn hafa snúizt við fyrirskipunum laganna um skoðanir að undanförnu, þá er jeg hræddur um, að margir verði harla óánægðir með þessar þrjár skoðunarferðir á vetri; og jeg er samdóma háttv. 3. kgk. um, að þriðja skoðunarferðin sje ekki svo þýðingarmikil, og að vorskoðunin mundi að skaðlitlu mega falla burtu.

Þess er og að gæta, að mjög ólíkt hagar til víðsvegar á landinu. Sumstaðar er sauðfje slept á einmánuði eða fyr, ef vel viðrar, og gæti þar orðið erfitt að ná fje saman til skoðunar eftir það. Auðvitað getur verið gott og fróðlegt að vita, hvernig fje hefur gengið undan að vorinu, og um heyfyrningar. Þó álít jeg alveg rjett, að láta hina einstöku hreppa sjálfráða um það, hvort þeir vilja kosta til vorskoðunar eða ekki. Mætti þá kveða á um það í reglugerð fyrir forðagæzlumennina.

Jeg veit, að menn álíta viða, að kostnaðurinn við skoðunargerðirnar samsvari ekki gagninu af þeim, og hafa aðeins sætt sig við þær, af því það hefur verið lögskipað. Það má því búast við, að það mundi verða mjög óvinsælt, ef kostnaðurinn ætti að þrefaldast.

Jeg veit, að í þeim hrepp, sem jeg er einna kunnugastur, gekk vika í skoðunarferðirnar fyrir 2 menn, og kostnaðurinn varð um 30 kr. ; en þó ekki nema 22 bæir í hreppnum. Ef kostnaðurinn nú yrði 90 kr. eða meira, þá er það verulegur kostnaðarauki fyrir hreppinn, og alls ekki. ótilfinnanlegur. Hreppsmenn þyrftu því að geta sannfærzt um, að gagn sje að skoðununum; að öðrum kosti er hætt við, að kurr mundi vakna yfir útgjaldaaukanum.

Jeg vil skjóta því til hv. nefndar, og biðja hana að athuga, hvort ekki muni rjett að bæta við 7. gr. ákvæði eitthvað á þessa leið: „Semja má þó við forðagæzlumenn um ákveðna borgun fyrir veturinn“. Þá gætu þeir fremur hagað skoðununum eftir hentugleikum, væru ekki bundnir við að taka til þeirra heila daga í einu, og orðið starfið svo ekki eins tilfinnanlegt, gæti og hugsazt, að einhverjir vildu vinna verkið fyrir minna gjald, af því að þeir vildu vilna hrepp sínum í.

Brtill. verð jeg að telja til bóta allar, nema 2. brtill. Mjer finst fara vel á því eins og er í frv. Svo er annað hitt: ef fleiri forðagæzlumenn eru í hreppi, hver á þá að skifta störfum með þeim, ef þeir fylgjast ekki að ? Mega þeir ekki gera það sjálfir? Ef svo er ekki, þá yrði annaðhvort að gera það á hreppsfundi, eða fela hreppsnefnd að gera það. Það væri gott að fá að heyra álit hv. nefndar um það, hvernig hún hugsar sjer þetta. Einkum er nauðsynlegt, að fá að vita, hvað hún á við með orðinu „hreppurinn“ í brtill., hvort heldur þar er átt við hreppsmenn eða hreppsnefnd. Sjálfur hreppurinn getur það ekki verið, og þá er orðið of óákveðið. Í 1. málsgr. 3. gr. frv. stendur þrisvar sinnum orðið „sinni“, þar sem á að vera „sínu“.

Í síðustu málsgr. 2. gr. frv. er orðinu „að eins“ ofaukið. Brtill. við 2. málsgr. 6. gr. frv. „upp úr fardögum“ á ekki við greinina eins og hún er að öðru leyti orðuð. Þar stendur: „skulu þeir því næst senda sýslumanni fyrir fardaga skýrslu um það fardagaár, sem þá er að enda“. Sje „upp úr fardögum“ hjer sett. í stað „fyrir fardaga“, þá yrði einnig að breyta því, sem á eftir fer og segja: „skýrslu um það fardaga ár, sem þá er liðið.“

Í 10. gr. frumv. er talað um einn forðagæzlumann, og eintölunni haldið út alla greinina, og eins í viðaukatillögunni. Þetta á við, ef ekki er nema einn forðagæzlumaður í hreppi, annars ekki (Stgr. J.: Það er sjálfsagt búizt við, að ekki skoði nema einn á bæ). Jeg tel þó rjettara að halda fleirtölunni, ef fleiri en einn forðagæzlumaður eru í hreppi ; því jeg tel rjettara, að þar sem tveir eða þrír forðagæzlumenn eru í hreppi, þá komi þeir sjer saman um, hvort kæra skuli, eða ekki, en það sje ekki komið undir, aðeins einum þeirra. (G. B.: En ef þeir eru tveir og þeim kemur ekki saman um, hvort kæra skuli eða eigi, hvernig á þá að fara að ?) Jeg býst við, að sá muni kæra, sem kæra vill, ef honum er það kappsmál. Aðalatriðið er, að samvinna eigi sjer stað milli forðagæzlumannanna, þar sem um vafaatriði er að ræða.

Að öðru leyti hefur h. 3. kgk. (Stgr. J.) tekið fram, það sem jeg hef að athuga við málið, og ætla jeg ekki að vera að endurtaka það.