18.08.1913
Efri deild: 32. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í B-deild Alþingistíðinda. (1948)

109. mál, forðagæsla

Hákon Kristoffersson:

Jeg vil byrja mál mitt með því,að þakka h. nefnd fyrir, að hún hefur komið fram með frv. þetta, og nefndarálit sitt. Og þó jeg felli mig ekki allskostar við frv., eins og það er nú, þá álít jeg málið vera gott og nauðsynlegt; en það má ekki hrapa að því, þar sem það þarf nákvæma yfirvegun, og áríðandi að það sje skoðað frá ýmsum hliðum og af mörgum. H. frsm. (G. G.Í mintist í ræðu sinni á hroka viðskiftamannanna við kaupmenn. Jeg hef ekki orðið þess var, þar sem jeg þekki til, og leiði það mál því alveg hjá mjer. Þá hygg jeg það tæplega rjett, að skuldir við kaupmenn hafi aukizt. Þar sem jeg þekki til, eru þær nálega engar, og menn kosta kapps um að halda sjer skuldlausum við kaupmenn. Hins vegar skulda sumir nokkuð í bönkum og opinberum sjóðum. H. frsm. (G. G.) hjelt því fram, að miðsvetrarskoðunin væri nauðsynleg, og sjerstaklega ábyggileg skoðun. Jeg neita því ekki, að hún geti verið nauðsynleg, en einna minst ríður þó á henni. Jeg hef nú á síðastliðnum 9 árum haft nokkra reynslu í þessu efni, og mín reynsla er, að mest riði á vorskoðuninni, ef ekki er höfð því tryggilegri haustskoðun og ásetningur.

Þeir, sem kærulitlir eru, hugsa um það eitt, að fara nokkurnveginn vel með skepnur sínar, þangað til vorskoðuninni er lokið; en verða ef til vill, að henni lokinni, skeytingarminni. Þessvegna hefur sýslunefndin í Barðastrandarsýslu nú síðustu árin gefið bendingu um að fresta skoðuninni fram undir sumarmál, og hefur þeirri reglu verið fylgt hjá okkur í VesturBarðastrandasýslu og hún gefizt vel. Því ef eftirlitsmennirnir eru, eins og þeir eiga að vera, þá horfa þeir ekki í að beita ákvæðum horfellislaganna, þar sem þess þarf — jeg felli mig vel við það nafn á lögunum, það sker svo vel úr, og sýnir svo ljóslega, við hvað átt er. — Um miðjan vetur líta skoðunarmennirnir aðeins eftir hjá þeim, sem þeir geta búizt við að koma muni í heyþröng. Það getur verið nauðsynlegt að koma sem oftast til slíkra manna, og gera ráðstafanir hjá þeim, áður en í óefni er komið. Í mínum hreppi hefur þessi aðferð reynzt vel. Jeg legg ekki eins mikla áherzlu á heyfyrningarnar og h. nefnd þótt jeg játi, að þær geti verið góðar, og sjálfsagt sje að sjá sjer þannig farborða, að heldur sjeu fyrningar en hitt. Það sem mest er um vert, er að skepnurnar sjeu í góðu lagi. Jeg gef ekki svo mikið fyrir fyrningar hjá þeim mönnum, þar sem skepnurnar skreiðast fram horaðar að vorinu. Heyfyrningarnar eru mest til stuðnings við ásetning á haustin. Jeg felli mig ekki vel við það ákvæði, að sýslunefnd skuli fastákveða, hvað margir forðagæzlumenn eigi að vera í hverjum hreppi. Jeg hefði kunnað betur við, að í frv. sjálfu stæði einhver minsta og mesta tala forðagæzlumanna, að þar væri t. d. kveðið svo á, að þeir skyldu vera 2–4 í hreppi, og að hreppsbúar ákveði sjálfir á sveitarfundi, hvort þeir vildu hafa mennina 2, 3 eða 4 í einum hreppi. Í 1. gr. er sagt. að forðagæzlumenn eigi að hafa eftirlit með kornvörubirgðum hreppsbúa. Jeg geri ráð fyrir, að hjer sje átt við kornvörubirgðir til skepnufóðurs, en rjettara væri að taka það greinilegar fram.

Þessi staða er launuð með 2 kr. á dag, og er þó mjög svo erfið; þekki jeg það af eigin reynd, að í þessum skoðanaferðum getur verið 10 tíma vinna á dag og þar yfir, og get jeg ekki felt mig við, að skoðunarmennirnir hafi ekki meira kaup.

Frumv. gerir ráð fyrir, að hreppunum sje skift til eftirlits milli skoðunarmannanna, en jeg hygg, að afarasælla sje, að þeir fari um allan hreppinn, því að eftir því sem reynsla þeirra eykst, þá geta þeir leyst verk þetta betur af hendi, og meira samræmi verður í skýrslum þeirra. Þá vildi jeg láta ákveða í frv. sjálfu, hvenær vorskoðun eigi fram að fara, en þykir frv. sjálft sumstaðar leggja einum manni of mikið vald í hendur, þar sem forðagæzlumaðurinn er látinn gera hreppstjóra aðvart, ef honum er ekki hlýtt, og kynni jeg betur við, að fleiri menn ættu þá um málið að fjalla, og get jeg ekki betur sjeð, en að hreppstjóra sje með þessu ákvæði gefið dómsvald, og kemur þetta skýrt fram í 9. og 10. gr., og vil jeg heldur fela úrskurðinn tveimur mönnum.

Háttv. 3. kgk. hefur tekið ýmislegt fram víðvíkjandi 11. gr., sem jeg vildi sagt hafa, en aftur á móti get jeg ekki verið honum samdóma um skoðanirnar og álit, að mest ríði á vorskoðuninni. Vorskoðunin ætti að fara fram seint, helzt ekki fyrri en um sumarmál. Eins og kunnugt er, hef jeg haldið því fram, að mál þetta bæri að leggja fyrir sýslunefndir. Þeim eru falin ýms mikilsverð mál til undirbúnings og meðferðar, og svo ætti að vera um þetta mál.

Þá heldur nefndin því fram, að horfellislögunum hafi aldrei verið beitt, en jeg, sem veit nú svo fjarskalega lítið, veit þó, að maður var sektaður um 50 kr., af því að hann átti horaðan hest. Og mun lögum þessum beitt, þegar þörf þykir, að minsta kosti í sumum sveitum landsins.

Háttv. þm. N.-M. (E. J.) talaði um aukning kostnaðarins við fjölgun skoðunarferðanna. Jeg er honum samdóma, að spara beri bæði fje sveitarsjóðanna og einstakra manna, en erfitt mun verða um framkvæmdirnar, ef fjárframlögin eru engin, og álit jeg þeim peningum, sem til skoðananna fara, vel varið, ef þær koma að notum. Þær hafa nú þegar í mörgum hreppum haft góðar afleiðingar, eins og kunnugt er, og eiga einkunnagjafirnar mikinn þátt í því. Jeg er því sammála háttv, nefnd, að eins nauðsynlegt sje að gefa einkunnir fyrir meðferð heyja eins og holdafarið, því holdafarið getur verið gott, skepnur í góðu standi, þótt maðurinn eigi enga viðurkenningu skilið fyrir heyumganginn. Jeg hef eigi meira að segja að sinni, en þakka nefndinni starf hennar, sem er góðra gjalda vert.