18.08.1913
Efri deild: 32. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í B-deild Alþingistíðinda. (1949)

109. mál, forðagæsla

Guðjón Guðlaugsson, framsögumaður:

Jeg hef eigi mikið að segja, því allir háttv. deildarþingmenn virðast málinu hlyntir. Háttv. 1. kgk. kallaði frv. þetta 4. útgáfuna af horfellislögunum og háttv. 3. kgk. (Stgr. J.) studdi hans mál. Þetta er nú ekki ný bóla, þótt breyta þurfi lögum, og gerir hvorki til nje frá, hvaða nafn þeim er gefið, og jeg vil í sambandi við þetta minna á, að við erum nú með 4. útgáfu girðingarlaganna. Sami háttv. 1. kgk. (J. H.) sagði, að ákvæðin í 11. gr. væru alt of hörð. En þau eru ekki harðari en í öðrum lögum, og þar eð sektir eru ekki ákveðnar, eru miklar líkur til, að þær verði fremur vægar, þar sem þær eru komnar undir áliti dómarans, og að hjer verði aldrei um harða dóma að ræða. Rjettlátir dómarar munu gera sjer það að reglu, að dæma heldur of vægan en of harðan dóm, og til þess að fangelsisákvæðið í 11. gr. geti eigi misskilizt, ímynda jeg mjer, að nefndin vilji taka þá bending til greina, að þar eigi að standa: „einfalt fangelsi“. En benda má á, að þannig er t. d. ákveðið í lögum um varnir gegn næmum sjúkdómum, og eigi að því fundið; en það gerir eigi til, þótt þessu sje breytt.

Háttv. 3. kgk. (Stgr. J.), þm. N.-Múl. (E. J.) og þm. Barðstr. (H. Kr.) álitu, að 3 skoðanir væru eigi nauðsynlegar, og hv. 3. kgk. (Stgr. J.) áleit, að mest ylti á tveim fyrri skoðununum. Skal jeg fúslega játa, að þær hafa meira að segja en sú siðasta, sem jeg þó eigi get verið honum sammála um að fella megi í burtu, því hún á einmitt að vera til þess, að fá fulla vissu fyrir, að fjenaður sje eigi kvalinn eftir að miðsvetrarskoðunin fer fram, En bæði árferði og landskostir ráða miklu um, hvernig fjenaður gengur undan, og þarf því ætíð að taka tillit til þess. Þar sem landskostir eru góðir og sæmilega vorar, er fje oft slept um sumarmál, og kemur það eigi á hús eftir það um vorið, og þannig var á síðastliðnu vori fyrir vestan. Þegar nú þannig er ástatt, og fje í góðu lagi, er því er slept, þarf einungis að skoða fyrningar. Álít jeg markleysu, að hafa skýrslur um heybirgðir á haustum, ef ekki eru aðgættar fyrningar, og aftur á móti er fjarstæða, að senda skýrslur um hey á miðjum vetri, því þau geta alveg gefizt upp, ef hart er, þó mikil sjeu þá. En vorskoðun þarf jafnvel ekki að kosta neitt, ef rjett er að farið, því nota má ferðir til þess, að viða að efni í skýrslurnar. Háttv. þm. N.-Múl. (E. J.) gat þess, að hann vissi til, að ein skoðunar gerð hefði kostað 30 kr., og reiknaði eftir því, að þrjár skoðunargerðir mundu kosta 90 kr. Þetta þarf eigi alt af að vera svo, þótt komið hafi fyrir, og þriðja skoðunin þarf alls ekki að kosta neitt líkt þessu, eins og hef áður sýnt fram á. En til þess að lögin nái markmiði sínu, sje jeg eigi, að draga megi úr skoðanafjöldanum, Það er rjett hjá háttv. 3. kgk. þm. (Stgr. J.), að ónákvæmt sje ákvæðið um, að önnur skoðunin fari fram úr miðjum vetri, og jeg er þakklátur fyrir þá bendingu, sem aðrar góðar bendingar.

Það verða sjálfsagt skiftar skoðanir um það, sem háttv. 3. kgk. þm. sagði um upplestur skýrslnanna á þingum og fyrir sýslunefnd. Þar sem seint er þingað,. geta skýrslur þessar verið komnar, en það hagar eigi svo til alstaðar, að eigi sje þingað fyr en í júní eða júlí. Á sýslunefndarfundum eru fáir viðstaddir, og að skýrsluframlagning þar hafi haft nokkra. þýðingu, þekki jeg ekki.

Þá gat háttv. 3. kgk. þess, að honum þætti óviðkunnanlegt, að öll sektaákvæðin væru skorin eftir sömu línu, en það er dómarinn einn, sem sker úr því, eftir hvaða linu fara eigi í hverju einstöku tilfelli.

Jeg hef heyrt, að það hafi sært tilfinningar manna, að minst hefur verið á horfelli. Háttv. 3. kgk. þm. (Stgr. J.) kvað þurfa skilríki til að sanna, að hann hefði átt sjer stað, til að geta sagt slíkt, en jeg álít sjón sögn ríkari, að eigi þurfi meira en vita það sjálfur. Og bendir það ekki á horfelli, þegar lambadauði er mikill? og þegar svo er, mun það reynast, að einhver kindin er mögur. Oft er og talað um lungnasótt, en hún er algeng í horuðu fje. sambandi við lungnasóttina minnist jeg orða gamals bónda við son sinn, er var að bollaleggja við hann, hvernig hann ætlaði að græða á lambakaupum á hausti: „Jú, þetta er nú alt gott og blessað, en gemlingarnir þinir geta fengið kvef“, sagði gamli bóndinn.

Það gleður mig að heyra það um skuldirnar, að þær sjeu lægri annarsstaðar en þar sem jeg er kunnugur. En jeg held nú samt, að jeg hafi sagt satt um það efni.

Þar sem h. 3. kgk. þm. (Stgr. J.) sagði, að skuldir manna stöfuðu af nýjum og nýtilegum framförum, er þeir hefðu komið á, þá hygg jeg, að hinn hv. þm. hafi þar ijett að mæla. Það er víst hverju orði sannara, að það er svo. Jeg sagði heldur ekki, að skuldirnar væru sprotnar af óþarfaeyðslu, nje að menn hefðu fengið lán til þess að leika sjer fyrir það. En slíkt skiftir engu í þessu sambandi. Það kemur í sama stað niður, hvort jeg hleypi mjer í stórskuldir til þess að reisa mjer snoturt og laglegt íbúðarhús eða til þess, að eyða því í einhvern óþarfa. Það skiftir mig engu, segi jeg, þegar jeg er orðinn heylaus og verzlunin þorir ekki að lána mjer neitt, af því að jeg er orðinn fjelaus af lánunum, enda þótt jeg hafi varið lánsfjenu vel.

Jeg er sammála h. þm Barð. (H. K,) um, að laun forðagæzlumanna sjeu helzt til lág. En jeg sje ekki, að hægt sje að fara lengra. Þetta er og í samræmi við það, sem ákveðið er í öðru frv., er nú liggur fyrir þinginu, frv. um sauðfjárbaðanir. Það verður að fara varlega í þessu. En þar sem mjer virðist h. þm. N.-Múl. vilja hafa undirboð á þessu starfi, þá er jeg því algerlega mótfallinn. Ef það á að fara að hafa undirboð á þessu starfi, eins og þegar verið er að koma fyrir hreppsómögum, þá má alveg eins vel strika alt frv. út. Forðagæzlumennirnir eiga fullkomlega heimting á þóknun fyrir starf sitt. En á hinn bóginn tel jeg sjálfsagt, að þeir afli sjer vitneskju um heyfyrningar og heyforða hreppsmanna á hvern þann hátt, sem þeir geta, og skoði því ekki, nema nauðsyn beri til. Þesskonar sparnaði er jeg hlyntur, en ekki undirboðum.