19.08.1913
Efri deild: 33. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í B-deild Alþingistíðinda. (1962)

79. mál, umboð þjóðjarða

Eiríkur Briem. framsögumaður:

Það er, eins og tekið er fram í nefndarálitinu, efni frvs. þessa, sem hjer liggur fyrir, að setja sömu ákvæði um umboð þjóðjarða og gilda um kirkjujarðir eftir lögunum um laun sóknarpresta 16. nóv. 1907, þau sem sje, að hreppstjórar skuli, hver í sínum hreppi, hafa umráð yfir öllum þjóðjörðum, nema þeim, er undir umsjón sýslumanna standa.

Auk þess, sem komið er á meira samræmi í þessu efni en áður, og að vel fer á slíku, þá hefur þjóðjörðum fækkað mjög, en á hinn bóginn eru óseldu jarðirnar oft fjarst í umboðunum, eða mjög langt frá umboðsmanni, svo að hann verður að ferðast út á yztu takmörk umboðsins vegna þeirra, og fyrirhöfnin verður þá lík og áður, er umboðin voru stærri. Nefndin er því sammála flutnm. frv. um, að rjett sje að breyta þessu. Hún sá ekki ástæðu til að stinga upp á miklum breytingum. Það er aðeins eitt atriði í 3. gr., er henni þótti betur fara á, að hafa öðru vísi. Þar í 13. gr. stendur: „Ef lóðarblettur eða önnur jarðanot eru leigð lengur en leiguliði getur sjálfur notað þau, skal ávalt ákveðinn leigutími tilnefndur, eigi lengur en 100 ár“. í lögunum um laun sóknarpresta er sami tími ákveðinn 50 ár, og nefndin sá ekki ástæðu til að hafa þetta öðru vísi en þar er, og kemur því með tillögu um að færa þenna tíma niður í 50 ár. Jeg hef talað um þetta við flutnm. málsins í Nd., og hann sá ekkert athugavert við þessa breyting.

Jeg vil því leyfa mjer að leggja það til, að þessi brtill. nefndarinnar verði samþykt.