19.08.1913
Efri deild: 33. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í B-deild Alþingistíðinda. (1964)

13. mál, vörutollur

Steingr. Jónsson, framsögumaður:

Jeg vil geta þess, að óviðkunnanleg prentvilla er í nefndarálitinu, á 2. síðu 11. línu. Þar stendur: „hinn dýra áburð“, fyrir húsdýraáburð.

Þá er vörutollslögin voru samþykt hjer í fyrra, voru flestir þm. vist sammála um, að miklir gallar væru á lögunum og að skjótt bæri nauðsyn til að breyta þeim, og reynslan hefur nú leitt þetta í ljós. Þetta frv. er komið frá stjórninni; það hefur verið rætt í Nd. Var nefnd skipuð í það, er bar fram allmiklar og mikilvægar brtill. við það, er samþyktar voru. Hjer hefur það líka verið athugað í nefnd, eins og hv. deild er kunnugt.

Það er ógerningur að breyta vörutollslögunum þannig, að þau verði rjettlát og vel við unandi. Til þess þyrfti að telja upp flestar vörutegundir, er til landsins eru fluttar, og skipa þeim niður í mjög marga gjaldflokka. Með svo nákvæmri flokkaskipun í þessu efni yrði alt eftirlit og öll innheimta ákaflega dýr. Hjer er því ekki annað hægt að gera en að reyna að bæta úr mestu göllunum. Hjer er því reynt að bæta úr því, er komið hefur í ljós eftir hálfs árs reynslu á þeim, frá 1. jan. þ. á., að álagan kæmi harðast niður. Reynt er og að orða sumt skýrara, svo að misskilningur kæmist ekki að eða brögðum verði beitt þannig, að vörum verði komið úr hærra flokki í lægra flokk, eða í flokka, sem undanþegnir eru gjaldinu. Þetta hefur nefndin haft hugfast. Hún leit svo á, að sumt væri óljóst í frv., og vildi leiðrjetta það og gera skýrara. Í frv. er sjávarútveginum aðallega veittar ívilnanir. Nefndin hefur þar bætt við ýmsum vörum, er landbúnaðurinn þarf á að halda. 1. brtill. nefndarinnar er um netatvinna. Nefndin leggur til, að hann sje tollaður í 3. flokki, sem verið hefur. Hún lítur svo á, ef þetta ákvæði frv. er samþykt, sje þar með gefið undir fótinn með að koma allskonar tvinna í annan flokk.

Hins vegar leggur nefndin til, að netatvinni sje hafður framvegis í 3. flokki eina og verið hefur. Gjaldið er svo lágt, að engin ástæða er til breytingar, enda gæti það valdið ruglingi og ýmsum óþægindum að vera að flytja þessa vörutegund til. Af samskonar ástæðum er nefndin því mótfallin, að færa striga úr 3. flokki, því að undir það nafn er hægt að koma miklu af grófum ljereftum. Þó þorði nefndin ekki að fella burt segldúk, þó að sama megi segja um þá vörutegund. Nefndinni í fyrra var það ljóst um tollinn á striga, að hann mundi koma hart niður á „balla“striga og fiskumbúðastriga. En gjaldið af fiskumbúðum mun þó eigi vera meira en 8–10 aura á skippundið og þar að auki er þess að gæta, að að eins lítill hluti af saltfiski er sendur í pökkum. í frv, er farið fram á, að allur pappir sje undanþeginn vörutolli, nema prentaður umbúðapappír, sem telst í 2. flokki. Nefndinni virðist þetta vera ósamræmi og óþarfi og leggur því til, að prentuðum umbúðapappir sje einnig slept. — Vjelaáburður virðist nefndinni vera of óákveðin vörutáknun, því að þar er hægt að smeygja mörgu undir. Vjelaolíur til áburðar er nákvæmari táknun. — Þá leggur nefndin til, að flytja öll hin helztu jarðyrkjuverkfæri, — sláttuvjelar, plóga, herfi, skóflur, spaða, kvíslar, — í 2. flokk. Tollurinn á þessum vörum er nú tilfinnanlega hár og hjer er að ræða um nauðsynjavörur til ræktunar landsins. Nú eru öll þessi verkfæri talin í 6. flokki. Sömuleiðis vill nefndin telja eldfastan leir í 2. flokki. Ennfremur leggur nefndin til, að fella burt úr frv. ,,rær, gadda og spengur til járnbrautargerðar“. Þessar táknanir eru of ónákvæmar og leggur því nefndin til, að taka upp aftur „járnbrautarteina“, eins og var í stjórnarfrv. Ástæðan til að nefndin vill lækka gjaldið á járnbrautarteinum er sú, að hún hugsar sjer, að vel geti komið fyrir, að víðsvegar hjer á landi verði lagðar smásporbrautir, en tillagan er alls ekki sprottin af tilliti til hinnar fyrirhuguðu stóru járnbrautar, því að við víkjandi henni mætti gera, og yrði sjálfsagt gerð undanþága með sjerstökum lögum. — Þá leggur nefndin til, að sami tollur verði lagður á skófatnað sem á annan fatnað og á allskonar garn, annað en veiðarfæragarn, sami tollur sem á tvinna. Þetta er óljóst í lögunum, eins og þau eru nú, og er því sjálfsagt, að taka það fram berum orðum. Táknunin „veiðarfæragarn“ má ætla að sje nægilega ljós. — Loks leggar nefndin til, að tilbúin áburðarefni og borpípur sjeu undanskilin tolli. Tilbúin áburðarefni eru notuð á einstöku stað, sjerstaklega til garðræktar, en þá einnig stundum til túnræktar. Menn gera þetta venjulega með þeirri áhættu, að það borgi sig ekki og virðist því ósanngjarnt að gera mönnum þetta enn þá erfiðara með tollálögum. Leirpípurnar eru sumstaðar notaðar til framræslu og víða til reykleiðslu frá eldstæðum. Þær eru mjög brothættar og brotna því oft á leiðinni til landsins, og þar á ofan er flutningsgjald á þeim afarhátt. Það virðist því brýn nauðsyn til þess að þiggja þær undan tolli.

Nefndin telur heppilegast vegna innheimtu og reikningsskila lögreglustjóra, að lögin gangi í gildi við næstu áramót, en ekki þegar við staðfestingu, eins og frv. gerir ráð fyrir.

Loks skal jeg geta þess, að nefndinni hefur borizt brjef frá umboðsmanni Monbergs um eftirgjöf á tolli á verkfærum til hafnargerðarinnar. Nefndin lítur svo á, að þá eftirgjöf sje ekki hægt að veita nema á fjárlögum. Vil jeg svo ljúka máli mínu með þeirri ósk, að háttv. deild samþykki frv. með þeim breytingum, sem nefndin hefur gert á því, en bæti ekki mörgum brtill. við, því að það gæti gert innheimtuna erfiðari og jafnvel stofnað frv. í hættu.