20.08.1913
Efri deild: 34. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í B-deild Alþingistíðinda. (1978)

36. mál, nafnabreytingar og ný nöfn á býlum

Jósef Björnsson:

Nefnd sú, sem hafði þetta mál til meðferðar, hefur tekið það til athugunar að nýju, eftir að það kom frá hv. Nd., og hefur nefndin, eins og álit hennar ber með sjer, leyft sjer að ráða hv. Ed. til þess að samþykkja frv. óbreytt. Breytingar hafa nokkrar verið gerðar á frv. í hv. Nd., og vill nefndin taka það fram, að hún álítur frv. harlalítið betra fyrir þær breytingar, þótt hún hinsvegar vilji ekki ráða háttv. deild til að breyta frv. enn á ný, og senda það því næst aftur til Nd. upp á von og óvon um, hvort það nái þá fram að ganga. Af breytingum, sem gerðar hafa verið og, máli skifta, má nefna þá breytingu á 5. gr. frv., að ef býlið er 5 árum eldra en lögin, skuli ekki greiða annað gjald fyrir leyfisbrjefið. en þinglestursgjald í stað þess, að býlið þurfti að vera 10 árum eldra en lögin, eins og efri deild gekk frá þeim. Þessa breyting verður nefndin að álíta til nokkurs skaða, en getur þó eigi látið hana standa í vegi fyrir því, að ráða hv. deild til þess að samþykkja frv. óbreytt. Um aðrar breytingar er það að segja, að Nd. þótti orðið nafnfesti, í stað leyfisbrjefs, óviðkunnanlegt, og hefur því fært það í þennan leyfisbrjefsbúning, sem henni þótti viðkunnanlegri, en nefndinni virðist Nd. hafa bygt útstrikun þessa orðs á misskilningi á fornri merking þess. Loks vil jeg fara nokkrum orðum um brtill. þær, sem hv. þm. N.-Múl. hefur komið fram með, en sem nefndinni hefur ekki gefizt kostur á að athuga. Um fyrri brtill. er það að segja, að jeg get ekki sjeð, að hún sje möguleg, eftir því, hvernig greinin er orðuð, og að minsta kosti er hún óþörf eftir því sambandi, sem hún mundi standa í við orð greinarinnar. Um síðari brtill. hefur flutnm. nokkuð til síns máls, að minni hyggju, en nefndinni finst þó ekki ástæða til, að gera breytingu á frumv. í þessa átt, og heldur hún því fast við þá tillögu sína, að frv. verði samþykt óbreytt, eins og það kom frá Nd.