20.08.1913
Efri deild: 34. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 624 í B-deild Alþingistíðinda. (1980)

36. mál, nafnabreytingar og ný nöfn á býlum

Jósef Björnsson:

Jeg ætla aðeins að taka það aftur fram, að jeg fyrir mitt leyti og sömuleiðis nefndin í heild sinni, álit þessar brtill. óþarfar. Að því er fyrri brtill. snertir, get jeg ekki sjeð, að það sje nein ástæða til þess, að bæta inn í frv. þeim orðum, sem tillagan fer fram á. Að því er seinni brtill. snertir, má geta þess, að í 6. gr. er leyfisbrjef hvergi nefnt, og með því að 25 kr. gjaldið er bundið við það, að fengið sje leyfisbrjef, er ekki ástæða til þess, að bæta við þeim orðum, sem brtill. fer fram á. Jeg leyfi mjer því enn að endurtaka það, að nefndin leyfi sjer að ráða hv. deild til þess að samþ. frv. óbreytt.