21.08.1913
Efri deild: 35. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í B-deild Alþingistíðinda. (1985)

3. mál, fjáraukalög 1912 og 1913

Steingr. Jónsson, framsögumaður:

Jeg ætla mjer ekki að svara ræðu hv. þm. V.-Skaft, (S. E.), en aðeins benda honum á, að það hefur verið stöðug krafa Íslendinga, að skipin kæmu ekki við í Færeyjum.

En úr því að rætt varð um frv. nú, þá vil jeg minnast á, að það hefur verið sagt af sumum, að það sje ósamræmi á milli ákvæðanna um endurgjald til símanna með tilliti til Patreksfjarðarsímans. En það er ekki rjett, að það sje ósamræmi þar á milli, því um Patreksfjarðarsímann er alt annað mál, og endurgjaldið bygt á öðrum grundvelli. Þar er lagt til, að þessi upphæð, 5000 kr., verði endurgreidd vegna þess, að þeir greiddu upprunalega of mikið til símans, vegna ónákvæmrar eða skakkrar áætlunar um kostnaðinn. Nú er búið að samþykkja hjer í hv. deild, að þessi lína verði í 1. flokki, og ef það nær fram að ganga, þá verður þar fylgt sömu reglu og um hina símana í frv., endurgreitt það sem er óborgað.