21.08.1913
Efri deild: 35. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í B-deild Alþingistíðinda. (1989)

3. mál, fjáraukalög 1912 og 1913

Steingrímur Jónsson, framsögumaður:

Nefndin hefur borið fram nokkrar brtill., alls tíu að tölu, á þgskj. 497.

Jeg skal þá fyrst geta þess, að það hefur orðið prentvilla í 2. brtill. Þar stendur „i 3. málsgrein“, en á að vera „í 4. málsgr.“Jafnframt vil jeg beina þeirri ósk til hæstv. forseta, að hann beri 8. brtill. upp á undan 7. brtill.

Um 1. brtill. vil jeg, geta þess, að þar er ekki að ræða um annað, en að eldfastur leir er fluttur úr 2. flokki upp í 1. flokk, og kemur það heim við úrskurð stjórnarráðsins, en í gildandi lögum er hann hvergi nefndur, og hefur því verið reiknaður mismunandi tollur af honum hjá hinum ýmsu tollheimtumönnum, og sumir munu hafa talið hann í 6. flokki.

Önnur brtill. er um bátavjelar; nefndin telur rjett, að lækka toll á þeim, því á þeim er tilfinnanleg þörf.

Þriðja brtill. er í beinu sambandi við fyrstu brtill. og afleiðing af henni.

Þá er fimta brtill. Nefndin fer þar fram á, að bætt verði aftur inn í frumv. nokkrum hluta af því, er felt var burt við 2. umræðu. Það, sem hún hefur tekið upp, eru spengur til járnbrautargerðar, aftur hefur henni ekki fundizt ástæða til að taka upp rær og bolta, því rær er alt of óákveðið, en boltarnir munu vanalega ekki vera stærri en svo, að það sje hægt að telja þá með saum.

Sjötta breyt.till. er að bæta gólfbræðing aftan við gólfdúka. Er það gert eftir upplýsingum, er nefndin fjekk, og taldi hún það sanngjarnt.

Sjöunda og áttunda brtill. eru að eins orðabreytingar, er ekki þarf að gera sjerstaka grein fyrir.

Níunda brtill, er um, að 7. málsgrein falli burt. Nefndin telur ekki rjett, að láta báta vera tollskylda.

Loks er 10. brtill. örlítil viðbót.

Þessar brtill. fara í þá átt, að lækka gjaldið, en þó er það ekki eins mikið og sýnist í fyrstu, og jeg býst við, að það nemi mjög litlu.

Á þgskj. 485 fer háttv. 1. þm. Húnv. (Þ. J.) fram á að hækka galdið af póstbögglum úr 25 aurum upp í 40 aura, en við það er komin fram brtill. á þgskj. 490 frá háttv. 2. kgk. þm. (E. Br.) um, að póstbögglagjaldið verði 30 aurar. Nefndin hefur ekki tekið neina afstöðu til þessara brtill., þó tel jeg, að allir sjeu á móti 40 aura gjaldinu, en hinsvegar munu sumir nefndarmanna greiða atkvæði með því, að hækka gjaldið uppi 30 aura.