21.08.1913
Efri deild: 35. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í B-deild Alþingistíðinda. (2008)

109. mál, forðagæsla

Þá er d-liður 3. brtill. Hann fer fram á, að forðagæzlumaður lesi upp skýrslurnar á næstu vorhreppaskilum eða öðrum almennum sveitarfundi, í stað þess, að nú ætlast frumvarpið til, að það sje á hausthreppaskilum. Margir ætla, að þessi upplestur komi því aðeins að fullum notum, að skýrslurnar sjeu lesnar upp, er þær eru sem allra nýjastar. Jeg kynni bezt við, að ákveðið væri, að þessi upplestur færi undantekningarlaust fram á vorhreppaskilum, og er því hlyntur brtill, á þgskj. 478. En nefndin hjelt, að skýrslurnar væru ekki altaf tilbúnar á vorhreppaskilum. því var komið fram með þessa brtill. á þgskj. 486 til málamiðlunar, og bætt við orðunum:

„eða öðrum almennum sveitarfundi“. Það tíðkast í flestum hreppum, að haldnir eru almennir sveitarfundir, þar sem hreppsómögum er ráðstafað o. fl., og þeir eru oft betur sóttir, en vorhreppaskil, að minsta kosti þar sem jeg er kunnugur. Og þá er eigi óeðlilegt, að þeir væru notaðir til að lesa upp á þeim skýrslurnar, ef það kynni að þykja hentugra. Orðið hreppstjóri er og strykað burt, en í stað þess er sett forðagæzlumaður, því að trúlegt er, að hann lesi betur upp það, sem hann hefur sjálfur skrifað.

Þá er farið fram á, að bæta aftan við 10. gr. ákvæði í samræmi við horfellislögin. Það kom fram við síðustu umræðu, að þetta ákvæði vantaði.

Þá er brtill, við 11. gr. um að orða 1. málsgrein þannig:

„Sá, er sekur verður um horfelli samkvæmt 10. gr., skal sæta sektum frá 10 til 100 kr., eða einföldu fangelsi alt að 6 mánuðum. Önnur brot gegn þessum lögum eða almennum sjerstökum fyrirskipunum samkvæmt þeim, varða sektum frá 5–100 kr., nema hærri hegning sje ákveðin í almennum lögum. Sektirnar renna í sveitarsjóð“.

Þetta ákvæði er tekið úr horfellislögunum, af því að nefndin fjekk vitneskju um, að sjaldnast mundi hægt að heimfæra brot gegn lögum þessum undir hin almennu hegningarlög.

Þá er brtill. á þgskj. 478. Nefndin hefur ekki rætt hana, en býst við, að flutningsmaður hennar, háttv. þm. Skagf. (J. Bj.), haldi henni ekki fast fram, er nefndin hefur komið með brtill., er fer í líka átt.

Þá er brtill. frá háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) á þgskj. 500. Það hefur enn ekki verið fengið leyfi til að bera hana undir atkvæði, og jeg veit eigi, hvort háttvirt deild vil leyfa það, svo að jeg minnist eigi á hana að sinni.