21.08.1913
Efri deild: 35. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í B-deild Alþingistíðinda. (2014)

109. mál, forðagæsla

Guðm. Björnsson:

Jeg vil leyfa mjer að gera nokkrar athugasemdir út af sumu því, sem fram hefur komið í umræðunum. Nefndin hefur fengið ávítur úr mörgum áttum fyrir það, að hún hafi verið of harðorð um horfellinn hjer á landi. Það er sjálfsagt, að jeg taki ábyrgðina á mig, því að jeg var skrifari nefndarinnar, en þó vil jeg geta þess, að í henni sátu menn úr öllum landsfjórðungum, og kom þeim öllum saman um, að ekki væri ofsögum sagt af ástandinu. Það getur verið háskalegt að temja sjer það, að breiða yfir alt, sem miður fer. Það kann að vera satt, að til sjeu þau hjeruð, þar sem fje hefur ekki verið felt úr hor nýlega, en jeg hygg, að vandalaust sje að sanna, að ástandið er því miður ekki alstaðar svo gott. Jeg vil líka leyfa mjer að benda á, að annar eins maður og Torfi í Ólafsdal hefur nýlega tekið enn þá dýpra í árinni, heldur en nefndin hefur gert. Jeg verð að lýsa yfir því, að jeg vil heldur segja satt um slíkt mál, þótt sumir kunni að reiðast, heldur en að fá lof manna fyrir það, að breiða yfir sannleikann. Menn kunna að geta gert sig vinsæla af sveitungum sínum fyrir að forsvara þá í slíkum efnum, en það er sæmilegri iðja að segja mönnum hlífðarlaust til syndanna, ef þeir eiga það skilið. Það er með horfellinn eins og með drykkjuskapinn, að menn eru farnir að skammast sín fyrir hann, og reyna því að breiða yfir hann á allar lundir. Því er það, að nú eru menn farnir að kenna skitu, gigt o. s. frv. um það, sem honum er að kenna. Jeg gæti fært nægar sannanir á mitt mál, ef jeg vildi það viðhafa.

Mjer dettur ekki í hug að fara að deila við hinn hv. þm. V.-Skaptf. út af því, er hann sagði um hallærisvarnastjórann. Jeg vil aðeins spá því, að hann muni sjá þann dag, ef hann lifir lengi, að þjóðin skynji, að framkoma mín í hallærisvarnamálinu hefur verið á fullum rökum bygð. Jeg er ekkert hræddur við dóm framtíðarinnar um það mál.