22.08.1913
Efri deild: 36. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í B-deild Alþingistíðinda. (2025)

43. mál, samþykktir um hringnótaveiði

Steingrímur Jónsson:

Það, sem þessu frumvarpi hefur helzt verið fundið til foráttu, að því, er Eyjafjörð snertir, er það, að hagsmunir Akureyrarkaupstaðar sjeu bornir fyrir borð. En þetta er ekki rjett athugað, því að það er algerlega lagt á vald Akureyrarbúa, hvort nokkur fyrirmæli um þetta veiðarfæri verða samþykt. Akureyrarbúar hafa meira en nóg atkvæðamagn til þess að fella slík fyrirmæli, því að þeir eru meira en þriðjungur þeirra manna, sem atkvæðisrjett hafa um þetta mál. Ef borin er saman Akureyri annarsvegar með 2000 íbúum, og hinsvegar Glæsibæjarhreppur, Arnarneshr., Vallahr., Grýtubakkahr. og Svalbarðsstrandarhr., þá sjest, að jeg fer hjer fullkomlega með rjett mál, svo að það er enginn voði á ferðum að þessu leyti. En hitt er alveg áreiðanlegt, að þeir, sem vit hafa á sjósókn, telja, að hringnótaveiðin geri öðrum veiðiaðferðum við Eyjafjörð töluverðan skaða, einkum inni á firðinum. Þegar hjer við bætist, að samþyktirnar eiga að falla úr gildi eftir 5 ár, þá er auðsætt, að það er með engu móti hægt að segja, að með þessu frumv. sje þrengt hart að þeim mönnum, sem nú stunda hringnótaveiði við Eyjafjörð. Jeg vil að lokum endurtaka það, sem háttvirtur framsögum. sagði, að það er eigi rjett, að ósamræmi sé milli 1. og 3. greinar frumvarpsins. Frumvarp það, í sem getið er um í 3. gr. að samþykt hafi verið samkv.1. gr., er það frumvarp, sem sýslunefndir Eyjafjarðar- og Suður-Þingeyjarsýslu og bæjarstjórn Akureyrar hafa samið og samþykt, en sem þeir verða að lokum að bera undir kjósendafund til staðfestingar, svo að það geti að fullu gengið í gildi.