22.08.1913
Efri deild: 36. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í B-deild Alþingistíðinda. (2037)

57. mál, girðingar

Steingr. Jónsson:

Hv. þm. Skagf. mintist á, að línurnar, sem fara á eftir, þyrftu að vera beinar, og er þetta alveg rjett. Það hefur verið gengið út frá því, að leyfilegt væri að girða yfir vegi, en þetta er ekki rjett, heldur hefur það verið óheimilt frá gamalli tíð. Og jeg get sagt dæmi upp á þetta. Hjerna á árunum voru lagðar grindur yfir brýrnar á Skjálfandafljóti. Gerðu bændur þar í grend það til þess, að fjenaður þeirra rynni eigi yfir fljótið. En svo vildi til að tveir strokuhestar ætluðu yfir fljótið, og er þeir komust ekki brýrnar, lögðu þeir í fljótið en druknuðu. Eigandi þeirra kærði til stjórnarráðsins, sem svaraði með því að banna slíkar farartálmanir, og lagði við þunga refsing, ef eigi væri hlýtt, þar eð slíkt gæti orsakað stórkostlegt eignatjón. En hjer er um nýung að ræða, þar eð leyft er í frv. þessu að girða yfir vegi án samþykkis hlutaðeigandi stjórnarvalda, og er slíkt háskalegt. Mun jeg greiða atkv. móti frv., ef þessu er ekki breytt; þó getur sumstaðar verið nauðsynlegt, að leyfa girðingar. En hversvegna ættum vjer að verja miklu fje til vegagerða til þess svo að stoppa umferð um þá sömu vegi næsta dag? Ef komnar væru svo sem 50 girðingar yfir veginn hjeðan frá Reykjavík austur að Þjórsárbrú einn góðan veðurdag, og svo ætti að koma á bifreiðarferðum þangað austur, þá yrði að kanpa upp allar þessar girðingar fyrir tugi þúsunda. Að minsta kosti er jeg ekki í vafa um, að ef þetta frv. öðlast gildi eins og það er nú, munu slíkar girðingar þjóta upp nyrðra, sem stjórnarráðið nú synjar um flestar hverjar.

Hv. þm. Skagf. áleit, að skaði gæti af því hlotizt, að fá vegi um lönd sín, og er það rjett, að gert er ráð fyrir slíku í vegalögunum, og sett ákvæði um skaðabætur. En það er hastarlegt, að sjá menn, fyrir þá sök, að vegur liggur um engjar þeirra heimta stórar fjebætur, þótt jörð þeirra hækki í verði við vegalagninguna. Segi jeg fyrir mitt leyti, að jeg hef þegar orðið var við slíkar kröfur, sem ómögulegt er að segja að sjeu sprotnar af ættjarðarást.

Vona jeg, að hv, nefnd taki þetta til íhugunar, en vil jafnframt benda á, að eigi má að svo stöddu nema túngirðingalögin úr gildi. Þau hafa að vísu hætt að starfa, en í þeim eru ýms ákvæði viðvíkjandi lánunum, sem gilda í 40 ár. Þessu vildi jeg skjóta til nefndarinnar áður en jeg lýk máli mínu.