25.08.1913
Efri deild: 38. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í B-deild Alþingistíðinda. (2055)

80. mál, gjafasjóður Jóns Sigurðssonar

Guðm. Björnsson framsögum.:

Það er samhljóða álit allrar nefndarinnar, að það megi aldrei koma til mála, að fara í bág við vilja þeirra, sem látið hafa eftir sig fje til almenningsþarfa. í fyrstu virtist okkur frv. koma í bág við gjafabrjefið, en við nánari rannsókn komumst við að þeirri niðurstöðu, að sá ótti væri ástæðulaus, og að frumv. væri í fullu samræmi við tilgang gefandans. Í nefndarálitinu á þgskj. 509 hefur nefndin gjört grein fyrir rannsókn sinni. Kringum 1830 var verzlunarástandið alt annað en það er nú. Það er auðsjeð, að gefandinn hefur hugsað sjer, að jafnan væri hægt að fá matvöru, ef peningar væru í aðra hönd. Nú er öðru vísi ástatt, nú geta verzlanir oft orðið matvörulausar á útmánuðunum, ef siglingar teppast. Nefndin hlýtur því, að líta svo á, að það sje fyllilega samkvæmt vilja gefa andans, að verja einhverju af ávöxtum sjóðsins til þess að tryggja það, að nægur kornforði sje fyrir hendi, ef hallæri dynur á, og leggur hún því til, að frv. sje samþykt óbreytt.

Áður en jeg skilst við þetta mál, vil jeg taka það fram, að við rannsókn nefndarinnar kom það í ljós, að meðferðin á fje sjóðsins hefur á undanförnum árum verið talsvert eftirtektaverð. Nefndin vill nú alls ekki vita það, þótt fyrirmælum gjafabrjefsins um jarðakaup hafi ekki verið fylgt, því að nú er öldin önnur en um 1830; þá mun hafa fengizt hærri renta af fje, sem sett var í jarðir, heldur en af peningum, sem settir voru á vöxtu í „þann konunglega kassa“. Hitt er athugaverðara, að styrktarfje hefur verið veitt úr sjóðnum, án þess að augljóst sje, til hvers það hefur farið, Samkvæmt gjafabrjefinu á aldrei að veita styrk úr sjóðnum, nema „stór almenn harðindi“ beri að höndum, en eins og kunnugt er, hafa alls ekki verið harðindaár að undanförnu. — Jeg hygg, að það sje tími til kominn, að vekja máls á því, að oft hafa heyrzt þær kvartanir, að almenningur fái ekki að vita, hvernig þeim sjóðum er stjórnað, sem stofnaðir hafa verið til almenningsþarfa. Hjer sjest nú, að þessar kvartanir eru ekki ástæðulausar, og væri æskilegt, að landsstjórnin sæji um, að stjórnendur slíkra sjóða gjörðu framvegis betri grein fyrir gjörðum sínum, en hingað til. Jeg held annars, að engum, sem til þekkir, geti dulizt, að skilagreinir margra opinberra starfsmanna eru nú á timum orðnar miklu óljósari og ónákvæmari, en þær voru áður. T. d. voru reikningar þessa sjóðs miklu betur úr garði gerðir áður; á seinni tímum hafa þeir æ orðið ljelegri og ljelegri, sjerstaklega eftir aldamót. Hjer heyrist mikið talað um að spara fje á þann hátt, að afnema embætti, og er sjálfsagt að gjöra það, ef hægt er. En sá sparnaður getur komið þjóðinni illa í koll, t. d. ef afleiðingar verða þær, að eftirlitið með opinberum starfsmönnum, verður ljelegra. Mjer hefur virzt, að það marki fyrir, hvað eftirlitið verður rýrara, eftir að amtmannæmbættin voru lögð niður. Amtmennirnir höfðu eftirlit með mörgu, sem stjórnarráðið á nú að hafa eftirlit með, en eins og kunnugt er, er stjórnarráðið svo störfum hlaðið, að það er engin furða, þótt það anni ekki öllu, sem því er ætlað að vinna. Jeg bið háttv. deild forláts, að jeg hef minzt á þetta mál, þó það komi ekki því frumv. við, sem hjer liggur fyrir; en hjer er um svo mikilsvert atriði að ræða, að jeg gat ekki orða bundizt. Vil jeg því ljúka máli mínu með því, að leggja það til, fyrir hönd nefndarinnar, að háttv. deild samþykki frumv. óbreytt.