27.08.1913
Efri deild: 40. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í B-deild Alþingistíðinda. (2064)

30. mál, leynilegar kosningar til bæjarstjórnar í kaupstöðum

Sig. Eggerz, framsögum. Frumv. það, sem hjer liggur fyrir, er nú komið aftur frá háttvirtri neðri deild, og hefur hún að eins gert á því tvær efnisbreytinar. Fer önnur þeirra í þá átt, að kjósandi, sem vegna líkamsbilunar, eða af öðrum ástæðum ekki getur greitt atkvæði, skuli kveðja sjer til aðstoðar einhvern úr kjörstjórninni, en samkvæmt frumv., eins og það var samþykt hjer í deildinni, mátti kjósandi láta hvern þann, sem hann treysti bezt, aðstoða sig við kosninguna. Nefndin leit svo á og lítur enn svo á, að viðfeldnast sje, að kjósandi megi sjálfur velja trúnaðarmann sinn til að fara með þetta einkamál sitt, en þótt nefndin haldi fast við þá skoðun sína, getur hún eftir atvikum fallizt á þessa breytingu og vili því ekki gera þetta að ágreiningsatriði milli deildanna. Seinni breytingin fer í þá átt að jafna hlutföllin milli atkvæða og atkvæðabrota, sem hver kjósandi greiði fulltrúa hverjum á listanum. Á lista með 5 fulltrúsefnum skiftast atkvæðin milli þeirra eftir frumv., eins og það var samþ. hjer í deildinni, þannig, að sá fyrsti fær 1, annar fær 1/2, þriðji fær 1/3, fjórði 1/4 og sá fimti 1/5, en eftir frv. eins og það var samþ. í neðri deild, fær sá fyrsti 1, annar 4/5, þriðji 3/5, fjórði 2/5, og fimti 1/5. Samkvæmt þessu eru hlutföllin rjettlátari, og telur því nefndin þessa breytingu til bóta. Nefndin leggur því til, að frumvarpið verði samþ. óbreytt, eins og það kom frá neðri deild. Sje jeg svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál.