28.08.1913
Efri deild: 41. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í B-deild Alþingistíðinda. (2068)

91. mál, kornforðabúr til skepnufóðurs

Guðm. Björnsson framsögum. Jeg þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta frumvarp, því nefndin hefur í áliti sínu á þgskj. 569 gert Ijósa grein fyrir skoðun sinni á málinu, og hefur hún þar lagt það til, að frv. þetta verði samþykt óbreytt. Frumvarpið felur einungis í sjer litlar breytingar á lögunum um samþyktir um kornforðabúr til skepnufóðurs frá 1909, sem sje þær, að sveitirnar geti trygt sjer vetrarforða á dálítið annan hátt, en þar er gert ráð fyrir. t þeim lögum er ekki gert ráð fyrir öðru, en að sveitirnar komi sjer upp kornforðabúrum og kaupi sjer sjálfar kornbirgðir. Það er að vísu ekki langt síðan þessi lög gengu í gildi, en það er þó þegar sjeð, að þau muni ekki koma að miklum notum, því að sveitir þær, sem hafa notað sjer lögin, eru mjög fáar. Aðalástæðan til þess er vafalaust sú, að ef kornið er keypt, og þurfi svo ekki til þess að taka, þá þarf að skifta um korn næsta ár, og veldur það talsverðum erfiðleikum og kostnaði fyrir sveitirnar. Þessi óhentuga aðferð hefur vafalaust verið ástæðan til þess, að svo fáar góðar sveitir hafa notað sjer lögin.

Með þeim viðauka við lögin, sem hjer er ætlazt til að gerður sje, er opnuð önnur leið en þessi, sem er sú, að leyfa sveitunum að semja við verzlanirnar, um að hafa nægilegan vetrarforða til taks, ef á þarf að halda. Það er sennilegt, að geti þetta tekizt, þá verði það miklu umstangsminna, og kostnaðarminna en að koma upp kornforðabúrum. Það liggur í hlutarins eðli, að það er heppilegast. að verzlunarbirgðirnar sjeu forðabirgðir. Það var svo áður, á meðan verzluninni var öðruvísi háttað en nú, þegar skip komu ekki á verzlunarstaðina frá því í september og alt fram til sumarmála, og menn voru neyddir til að hafa næga kornvöru fyrirliggjandi allan þennan tíma. Þetta er til þess að bæta úr því, að verzlunarforðinn er svo lítill á vetrum eins og nú á sjer stað. Jeg get ekki hugsað mjer, að menn geti haft neitt á móti þessu frumvarpi, nema ef vera skyldi það, að ætlazt er til, að landssjóðurleggi til nokkurn hluta kostnaðarins. Það er erfitt að segja um, hve miklu þessi útgjöld landssjóðs muni nema, en það er tvent, sem gerir, að ætla má, að þau verði ekki mjög tilfinnanleg, annað það, að landssjóður á ekki að leggja til nema helming, og hitt, að sveitirnar, sem eiga að leggja til hinn helminginn, munu af þeim ástæðum hafa áhuga á að gæta þess, að kostnaðurinn verði sem minstur. En það er ekkert nýtt í því, þótt landsjóður hlaupi undir bagga, þegar um ný fyrirtæki er að ræða. Það hefur hann oft gert áður, svo sem með styrk til jarðabóta o. fl. Og þessi styrkur af hálfu landssjóðs, er einhver bezta hvötin til allra framkvæmda í landinu. Og sá styrkur, sem hjer er um að ræða, mun einnig reynast hvöt til fólksins, til þess að sinna þessu nauðsynjamáli. Jeg ætla svo ekki að fjölyrða frekara um þetta mál, en vil aðeins vekja athygli háttvirtra deildarmanna á því, sem nefndin hefur tekið fram í áliti sínu, að þetta eru ekki nema bráðabirgðarráðstafanir. Allar slíkar ráðstafanir hafa þann galla, að það eru oftast nær aðeins beztu hjeruðin, sem færa sjer þær í nyt, en hin, sem verst eru stödd og þyrftu mest á lögunum að halda, láta þau ónotuð. Jeg get t. d. hugsað mjer, hvernig fræðslumálum okkar væri komið, ef Iög um fræðslu barna hefðu að eins verið heimildarlög fyrir sveitirnar. Þá væru öll fræðslumálin í glundroða, og í raun og veru eru heimildarlög eins óhæf hjer, þótt anaður sjái ekki annað tiltækilegt að sinni.