29.08.1913
Efri deild: 42. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í B-deild Alþingistíðinda. (2086)

68. mál, bygging, ábúð og úttekt jarða

Hákon Kristoffersson:

Jeg ætla ekki að vera fjölorður að þessu sinni, en lýsa yfir því tafarlaust, að jeg er gersamlega mótfallinn þessu frv. og óska helzt, að það sje strax felt frá 3. umræðu. Jeg játa að vísu, að gallar sjeu á ábúðarlöggjöfinni, en jeg álít, að þetta frumvarp sje til svo lítilla bóta, að ekkert sje unnið við að sletta svona ómerkilegri bót á ábúðarlögin, sem að mörgu leyti mega teljast heldur góð, enda þó jeg kannist við, að þau hafi stóra galla. Eitt er víst, að úr þeim göllum bætir ekki þetta frv., þó að lögum verði, nema það verði töluvert bætt frá því sem nú er. Jeg efast ekki um góðan vilja nefndarinnar, en finst henni hafi þó enganveginn vel tekizt. Það er t. d. 3. brtill. við 3. og 4. gr. frv., að leiguliði hefur heimild til, áður byggingarbrjef er gert, að kjósa, hvort hann vill taka við kúgildum, er jörðinni hafa fylgt, eða vera laus við þau, þá er ekki á það minnzt, hvernig fer, ef landsdrottinn ekki samþykkir. Ja, þá, fær hann auðvitað ekki jörðina, því að ekki getur komið til mála, að leiguliði eigi að ráða samningunum, og landsdrottinn eigi megi byggja hvort heldur Pjetri eða Páli eftir sínum geðþótta.

Það er kunnugt, að nokkrar mótbárur hafa verið reistar gegn kúgildunum, en jeg er viss um, að ekki mun allur þorri leiguliða vilja losna við þau, og eigi get jeg álitið það þjóðarvilja, þó að það kunni að vera vilji einstakra efnaðra leiguliða.

Ef 3. og 4. gr. frv. er feld burtu, og hin nýja grein háttv. nefndar sett í staðinn, þá er landsdrottni heimilt að fara með leiguliða eftir því, sem þeim kemur saman um, og sje jeg eigi, að það sje til neinna bóta. Vil jeg að endingu taka það fram, að þar sem að ábúðarlögin eru ekki tekin til rækilegri yfirvegunar en þetta, þá mun betra að bíða, þar til þau verða endurskoðuð til hlítar, enda hefur háttv. nefnd gefið það í skyn. Og þó nú væri gerð bót á einstökum af mörgum göllum laganna, færi ekki betur á því en ef ný bót væri sett á sundurslitið, gamalt fat. Ábúðarlögin tel jeg þörf á að taka til rækilegrar athugunar, en svona lagað kák við þau, eins og mjer sýnist þetta frv. vera, tel jeg verra en ekkert væri gert.