19.07.1913
Neðri deild: 13. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í C-deild Alþingistíðinda. (210)

47. mál, styrktarsjóður handa barnakennurum

Framsögum. (Jón Jónsson):

Eg gerði grein fyrir því við 1. umr., að þetta frv. væri flutt inn á þingið samkvæmt beinni ósk Kennarafélagsins. Á síðasta þingi sætti frv. andmælum af hálfu eins háttv. þm. hér í deildinni, aðallega þeim, að stjórn Kennafélagsins hefði ekki borið fram þetta mál.

Frumv. leggur til breytinga á þrem atriðum í núgildandi lögum, nr. 18, 9. Júlí 1909. Í fyrsta lagi að landssjóðstillagið sé fært úr 1000 kr. upp í 2500 kr. Í öðru lagi að Kennarafélagið kjósi hér eftir þann mann í stjórn sjóðsins, sem stjórnaðarráðið hefir valið hingað til. Í þriðja lagi að ekkjur og börn kennara geti orðið aðnjótandi styrks, þegar sérstaklega stendur á. Þessi ósk er svo réttmæt og sanngjörn, að eg vona, að deildin fallist á hana, en hún verður því að eina tekin til greina, að tillagið til sjóðsins sé hækkað á þann hátt, sem segir í 1. gr. Annars vona eg að frv: fái ekki lakari byr hér í deildinni nú en í fyrra.