01.09.1913
Efri deild: 43. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í B-deild Alþingistíðinda. (2106)

81. mál, bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík

Sigurður Eggerz:

Jeg vil leyfa mjer að gera grein fyrir atkvæði mínu með fáeinum orðum. Mjer virðist hv. nefnd hafa lagzt djúpt til þess að finna mótbárur gegn þessu frv. Kjósendur þessa bæjar hafa óskað, að þeir fengju sjálfir að ráða kosningu borgarstjórans; meiri hluti bæjarstjórnar hefur látið sömu ósk í ljós, og jeg verð að segja, að þessi almenna ósk er mjer næg ástæða til þess, að greiða frv. atkv. mitt. Hjer í höfuðstaðnum eiga margir þeir menn heima, sem mestu ráða í þjóðmálum, og er mikil ástæða til þess að halda, að þeir mundu beita áhrifum sínum til þess, að koma þeim mönnum einum í þetta embætti, sem væru hæfir til þess. Yfirstjettin hefur hingað til ráðið mestu hjá þjóðinni, og svo mun enn vera. Þurfa þeir því ekki að vera mjög hræddir um, að þeir komi ekki viti sínu hjer að. Jeg álit holt að leggja slíkt mál sem þetta í hendur borgaranna. Löggjafarvaldið á ekki að vera að reyna til að gera sig að fjárhaldsmanni þeirra. Hjer mætist hinn gamli og nýi tími. Þeir, sem gamla tímannm fylgja. vilja, að þeir haldi áfram að ráða, sem forsjónin hefur trúað fyrir völdunum hingað til. En hinir, sem fylgja nýja tímanum, vilja, að borgararnir ráði öllum sínum málum óskorað. Jeg get því ekki verið hv. nefnd samdóma. Jeg sje ekki, að hjer sje nein hætta á ferðum, enda er borgarstjórinn ekki einvaldur, bæjarstjórnin getur haft hönd í bagga með honum, þegar henni sýnist. Mjer virðist frv. í fullu samræmi við þá stefnu, sem nú er mestu ráðandi hjer í landi, að auka kosningarrjettinn. Og af því að bæjarfulltrúarnir eru kosnir af borgurunum, því mega þeir þá ekki kjósa borgarstjóra líka?