01.09.1913
Efri deild: 43. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í B-deild Alþingistíðinda. (2109)

81. mál, bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík

Einar Jónsson:

því meira sem jeg hef hugsað um þetta mál, því meira hef jeg sannfærzt um, að ekki sje rjett, að láta það ganga fram á þessu þingi. Jeg hygg, að undirbúningur þess sje eigi svo góður sem skyldi. Þetta mál hefur að vísu verið borið upp á þingmálafundum, en vist nokkuð lauslega, og aldrei verið borið svo upp, að almenningur hafi fyrir fram vitað um, að það ætti að ræða. Atkvæði um það á fundunum er því ekki vel að marka. Það hefur að vísu einnig verið borið upp í bæjarstjórninni, en ekki þannig, að menn vissu fyrirfram, að það mundi koma fyrir, og svo voru þar eigi staddir nema 10 af 15 bæjarstjórnarmönnum, og að eins 7 af þeim samþyktu málið. Það er því heldur ekki hægt að segja, hvort meiri hluti bæjarstjórnarinnar sje með því eða ekki. Málið er svo þýðingarmikið, að jeg álít, að það þyrfti því betri undirbúning, til þess að fá að vita sannan vilja bæjarbúa. Jeg get getið þess, að jeg hef minzt á það við nokkra af helztu borgurum bæjarins, og það hefur einhvernveginn hitzt svo á, að þeir hafa allir verið mjög andvígir frv., nema að eins einn. Og þar sem jeg þar að auki tel mjög vafasamt, að borgarstjórakosningin sje betur komin í höndum bæjarbúa alment, en í höndum bæjarstjórnarinnar, þá get jeg ekki greitt frumv. atkvæði mitt.