01.09.1913
Efri deild: 43. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (2110)

81. mál, bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík

Guðmundur Björnsson, framsögum:

Jeg er þakklátur hv. þm. Barð. fyrir það, að hann minti mig á ummæli mín árið 1907, Mjer er það í ljósu minni. að jeg var þá þeirrar skoðunar, að bæjarbúar ættu sjálfir að kjósa borgarstjóra, og vakti þá aðallega fyrir mjer, að borgarstjóri mundi verða sjálfstæðari gagnvart bæjarstjórninni, ef sú aðferð yrði höfð. Mjer hafði þá ekki hugsazt, að örðugleikar kynnu að verða á því, að fá mann í stöðuna. Síðan eru liðin 6 ár, og ýmis reynsla hefur fengizt, sem hefur breytt skoðun minni. Það er nú svo, að það hefur mörgum sinnum komið fyrir mig, að jeg hef breytt skoðun minni, það eru fleiri mál en þetta, sem jeg nú lít öðruvísi á, en áður, meðan lífsreynsla mín var minni. Sumir telja þetta ókost, en það verður nú að segja hverja sögu sem hún gengur. Jeg er ekki svo lánsamur, að hafa óumbreytilegar skoðanir, og öfunda engan af því láni, því að satt að segja eiga engir skynsamir menn því láni að fagna. Ástæðurnar til skoðunarbreytingar minnar í þessu máli, geta menn sjeð í nefndarálitinu: Jeg hygg, að það verði örðugra, að fá nýtan mann í stöðuna, ef hann á að kjósast af öllum borgurum. Í öðru lagi má gera ráð fyrir, að samvinna verði betri milli bæjarstjórnar og borgarstjóra, ef bæjarstjórnin kýs hann. Þar að auki eru nú miklu meiri mannvirki unnin undir yfirstjórn borgarstjóra, en áður, og ef hann vill halda stöðu sinni, þá er stór freisting fyrir hann að gera verkamönnum bæjarins alt til geðs, og láta hagsmuni bæjarfjelagsins sitja á hakanum. Mjer dettur í hug eitt dæmi: Það var einusinni sem oftar á vetrardegi verið að grafa skurði í götur fyrir holræsum, en fjúk var á og varð ekkert úr verki; borgarstjóri bauð þá að hætta vinnunni, en verkamenn snjerust illa við, og endirinn varð sá, að þeir fengu að halda áfram, en gerðu ekki annað en moka snjó! jafnóðum og fenti að fótum þeirra.

Ef borgarstjórinn er kosinn af almenningi, held jeg, að það muni vera mikil freisting fyrir hann, að reyna að koma sjer sem bezt við almenning, en að hann muni ekki eins hugsa um hagsmuni bæjarins, og er þetta eitt af því, sem hefur orðið því valdandi, að jeg hef breytt skoðun minni á þessu máli. Jeg ætla ekki að fjölyrða frekar um þetta, en vil aðeins bæta því við, að jeg held, að við Reykvíkingar hljótum fyr eða síðar að komast að raun um það, að ókleyft verður að fá dugandi mann í borgarstjóræmbættið, á meðan það er aðeins veitt til 6 ára.