01.09.1913
Efri deild: 43. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í B-deild Alþingistíðinda. (2112)

81. mál, bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík

Hákon Kristoffersson:

Jeg ætla að geta þess út af því, sem hv. 3. kgk. sagði, að þegar jeg talaði þessi örfáu orð áðan, átti jeg alls ekki við skoðun hans á málinu, því hún var mjer algerlega ókunn. Bæði hann og hv. frsm. vildu halda því fram, að borgarstjórinn mundi ekki láta sjer eins ant um málefni bæjarins, ef hann væri kosinn af bæjarbúum, eins og ef hann væri kosinn af bæjarstjórninni, en ei þetta er ekki misskilningur þeirra, þá hlýtur að haga alt öðruvísi til hjer, en annarsstaðar, því hversvegna mundi honum ekki vera eins ant um hag bæjarsjóðs þótt hann sje kosinn af almenningi. Hv. frsm. kvaðst vera mjer þakklátur fyrir, að jeg hafði minzt á skoðanir hans á þessu máli árið 1907. En hann kvaðst hafa skift um skoðun síðan. Jeg mundi. nú leggja trúnað á þessa sögusögn hans, ef hann hefði byrjað framsögu sína með því að minnast á fyrri skoðun sína, og siðan tekið fram, hvaða ástæður hefðu verið þess valdandi, að hún hefur breyzt. En þetta gerði hann ekki. Og það er mjög undarlegt, að jafnskýr maður og hv. kgk. hefur skift svo mjög um skoðun, að vilja nú endilega láta bæjarstjórnina kjósa borgarstjórann, því þetta er meira en smáræðisbreyting frá fyrri skoðunum hans; það er alveg að, hafa hausavíxl á. hlutunum. Hv. frsm. gat þess ennfremur, að það mundi vera meiri freisting fyrir borgarstjórann til þess að þóknast almenningi, ef hann væri kosinn af bæjarbúum, og það verð jeg miklu fremur að telja kost en löst, en hitt vil jeg ekki ætla honum, að hann láti velþóknun eða vanþóknun fárra manna hafa áhrif á gerðir sínar. Jeg vil ekki ætla, að þessi skoðanaskifti h. frsm. stafi af reynslu hans við kosningarnar árið 1908. En það lægi ekki fjær, að ætla það, en að halda, að borgarstjórnin mundi láta menn vinna til ónýtis fyrir bæinn, til þess að afla sjer lýðhylli. Og að því, er snertir það dæmi, sem hann nefndi, að borgarstjórinn hjer, hefði látið verkamenn bæjarins moka skafl til einskis, þá er það að segja, að þeir, sem eiga að sjá um vinnu, munu oft komast að raun um það eftir á, að þeir hafi látið verkamenn sína vinna til einskis. En þótt borgarstjórinn ljeti sjer annara um smærri borgara, ef hann væri kosinn af almenningi, þá verð jeg að álíta það mjög heppilegt, en auðvitað þykir mjer æskilegast, að samkomulagið sje sem bezt milli allra stjetta. Jeg verð að halda því fram, að seinni till. hv. frsm. hafi ekki hrakið þau góðu og skýru ummæli hans árið 1907, sem jeg gat um áðan, og með skýrskotun til þeirra og til óska bæjarbúa, verð jeg að leggja það til, að frv. þetta verði látið ganga óbreytt í gegn um deildina. Jeg vil óska, að vilji fjöldans fái að ráða í þessu máli, eins og hann ætti að gera í sem flestum öðrum málum, og mjer er kunnugt um það, að vilji fjöldans í þessu máli gengur í þá átt, að frv. verði samþykt. því tel jeg engan efa á, að ef h. 6. kgk. væri þm. Reykv. eins og hann óskaði eftir að verða 1908, að þá hefði hann haldið fast við þá skoðun sína á þessu máli, er hann hafði árið 1907.