01.09.1913
Efri deild: 43. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í B-deild Alþingistíðinda. (2113)

81. mál, bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík

Guðjón Guðlaugsson:

Mjer finst, að þegar verið er að ræða um þetta mál, þá verðum við að taka tillit til þess, hvernig háttað er um samskonar stöður í öðrum sveitastjórnum, því að þessi maður er ekkert annað en oddviti stærstu sveitarstjórnarinnar á landinu, bæjarstjórnarinnar í Reykjavík. Fyrir skömmu síðan var hann valinn af stjórninni, síðan af bæjarstjórninni, og nú er farið fram á, að hann verði valinn af öllum atkvæðisbærum mönnum, og ef það verður samþykt, þá er gengið inn á nýja braut, sem fer fram úr öllu, sem þekst hefur hjer á landi, því enginn sveitarstjórnaroddviti hjer á landi er valinn á þennan hátt, og hvernig stendur á því, ef borgarstjórinn í Reykjavík á að hlíta alt öðrum reglum en aðrir oddvitvitar út um land. Hvernig er það með sýslunefndir, ekki er oddviti þeirra kosinn, heldur er hann skipaður af stjórninni, því að sýslumaður er sjálfkjörinn oddviti sýslunefndar. Hreppstjórar eru skipaðir á þann hátt, að sýslunefnd tilnefnir 3 menn og sýslumaður skipar svo einn af þessum þremur til starfans. Ekki einn einasti hreppstjóri á landinu er kosinn af almenningi, ekki einu sinni hreppstjórinn í Haga. Það er ekki verið að svifta borgarbúa neinum rjetti, þótt frv. þetta verði ekki samþykt, því að það eru nú einmitt borgarbúar, sem kjósa oddvitann. Kosningin er aðeins tvöföld, því fyrst kjósa borgarbúar bæjarstjórnina, og hún svo borgarstjórann, eins og hreppsbúar kjósa sinn oddvita á þann hátt, að þeir vita, að einhver þeirra, sem þeir kjósa í hreppsnefnd, verður oddviti. Hreppstjórar eru eiginlega kosnir með þreföldum kosningum, því að fyrst kjósa sýslubúar sýslunefndarmenn; þeir velja síðan 3 menn, og sýslumaður sker að lokum úr, hver verða skuli hreppstjóri. Jeg get ekki neitað því, að mjer finst þetta vera hjegómamál, en jeg er þó dálítið hræddur við það. Kosningu borgarstjóra þarf mjög að vanda, því það er verið að kjósa mann, sem hlýtur að vera lögfræðingur, og sem á að hafa há laun, 4500 kr. Hann er þar að auki ekki kosinn nema til 6 ára, og má, að þeim tíma liðnum, búast við, að verða að víkja fyrir straumnum, og því er hætt við, að erfitt verði að fá hæfan mann til þess að gefa sig fram til starfans. Þetta verð jeg að álíta mjög varhugavert. Hef jeg nú lýst skoðun minni á málinu og er hún ekki sprottin af neinum dutlungum, heldur af nákvæmri yfirvegun, en jeg er mjög hræddur um, að skoðun hv. þm. Barð. sje sprottin af einhverjum dutlungum, eða þá dutlungaleysi í svipinn af áhrifum annara.