01.09.1913
Efri deild: 43. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (2115)

81. mál, bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík

Guðm. Björnsson:

Jeg ætla ekki að tefja málið lengi, en vil einungis minnast á það, sem talið var áreiðanlegt, að meiri hluti bæjarbúa væri þessu máli hlyntur. Um það vitum við ekkert með vissu, því að þetta mál hefur aldrei verið borið upp á kjósendafundi, sem kallaður hefur verið saman í því skyni, og á þeim fundum sem vitnað hefur verið til, voru auðvitað ekki nærri allir kjósendur viðstaddir. Um bæjarstjórnina er það að segja, að málinu var smeygt inn á fund, að öllum óvörum, og voru þá ekki nema 10 af 15 bæjarfulltrúum á fundi. í greiddu atkvæði með með því, 2 á móti, 1 greiddi ekki atkv., svo að þar er ekki hægt að tala um neinn meirihluta. Áður fyr heyrði jeg sagt, að hjer á þingi ættu menn að fara eftir sannfæringu sinni, en nú er því haldið fram, að að menn eigi bara að fara eftir skoðunum kjósendanna. En jeg er ófáanlegur að láta af gömlu venjunni, fara eftir sannfæringu minni, hvað sem aðrir þingmenn kunna að gera. Jeg vil taka það fram, viðvíkjandi kosningu borgarstjórans, að það er mjög áriðandi fyrir bæjarstjórnina, að hún takist vel; því ljettari verður vinnan fyrir hana; og ætti því engum að vera meira áhugamál en henni, að fá góðan borgarstjóra. Takist valið illa, þá kemur það henni sjálfri í koll. Það hefur verið sagt að í þessu máli mættist gamli og nýi tíminn, gamlar og nýjar skoðanir. Það er vafalaust snjallræði til þess að koma sjer í mjúkinn hjá fólkinu, að segjast ekki vera gamaldags.

En hjer er ekki um gamalt eða nýtt að ræða, heldur liggja hjer fyrir tvær stefnur, sem báðar eru æfagamlar, þó að margir haldi, að önnur þeirra sje miðaldra og hin glæný.

Önnur stefnan er sú, að alþýðan kjósi fulltrúa til að ráða málum sínum til lykta, en hin stefnan miðar að því, að alþýðan ráði sjálf beinlínis öllum sínum málum.

Og það hefur bólað á þessari síðarnefndu stefnu hjer á landi. Það hefur verið talað um, að alþýðuatkvæði allrar þjóðarinnar ætti að ráða en ekki þingið. Og hið sama hefur borið á góma hjer í bænum. því hefur verið haldið fram, að bæjarstjórnin ætti ekki að ráða helztu og stærstu málunum til lykta, heldur borgarafundir. Og þetta er þá hin svonefnda nýja stefnan, sem háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) var að lofsyngja.

Þessi stefna var hjer hæzt móðins fyrir nokkrum árum; þá var álitið, að öll mál, er nokkru skiftu, ættu að berast upp fyrir borgarafundi, og þar ætti að ráða þeim til lykta. En það má óhætt segja, að reynslan hefur fært Reykvíkingum heim sanninn um það, að þetta er ógerlegt fyrirkomuleg, sjerstaklega í margmenni eins og hjer, þar sem kjósendurnir skifta þúsundum. Kjósendurnir geta ekki allir staðið í öllum bæjarmálum. Þeir geta ekki vasast í öllum málefnum bæjarfjelagsins. Það sjá, allir að þetta er einfeldni, barnaskapur, öfgar, og þó að þessi skoðun háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) kunni að líta fallega út í Þingtíðindunum, þá er hún flónska ef á reynir.

Og eins og bæjarbúar velja menn, bæjarstjórnina, til að ráða fram úr öllum öðrum vandamálum bæjarins, eins er það, að bæjarstjórnin getur miklu betur en allur þorri kjósenda, útvegað duglegan borgarstjóra. Það er miklu minni vandi en mörg önnur stórmál, sem bæjarstjórnin hefur með höndum og ræður til lykta. Vil jeg þar t.d. benda á vegagerðir, hafnarmál, gasið og vatnsveituna.