01.09.1913
Efri deild: 43. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í B-deild Alþingistíðinda. (2116)

81. mál, bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík

Einar Jónsson:

Jeg vil að eins segja örfá orð um það, er háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) hjelt því fram, að mál þetta hefði verið vel undirbúið á fundum hjer í bænum. Jeg get ekki fallizt á það.

Jeg hef minzt á þetta mál við helztu borgara bæjarins, utan þings og utan bæjarstjórnarinnar, og hafa þeir sagt mjer, að það hafi komið flatt upp á menn á fundunum, og verið með síðustu málunum, er voru borin upp, og fundarmenn þá verið farnir að fækka.

Þetta mál hafði legið fyrir þingmálafundunum 1911 og 1912 og að vísu verið samþykt þar, en þar fyrir er ekki fengin vissa fyrir því, að það sje almennur vilji bæjarbúa, því það hefur víst aldrei verið boðað til fundar, þar sem þetta mál hefur verið til umræðu, svo menn hafa vitað það, áður en fundurinn byrjaði, að það ætti að koma fyrir og því hugsað verulega um það undir fundinn.

Það var eins, þegar það var borið upp í bæjarstjórninni, að það var ekki kunnugt fyrir fram, að það mundi koma til umræðu, og þá voru ekki nema 10 menn af 15 á fundi. Þó að það þá að vísu væri samþykt af 7 mönnum þar, er engin vissa fyrir, að meiri hluti bæjarstjórnarinnar sje því fylgjandi.

Það hefur líka viljað svo til, að allir þeir borgarar bæjarins, er jeg hef talað við um þetta mál, hafa verið mótfallnir frumv., að eins einn þeirra var því meðmæltur (Sig. Eggerz: Hverjir voru þeir?) Jeg kýs því, að máli þessu sje ekki ráðið til lykta nú, heldur sje það undirbúið betur. Jeg skil heldur ekki, að það þurfi að flýta því svo mikið, að það megi ekki bíða til að fá betur yfirlýstan vilja bæjarbúa um það.