03.09.1913
Efri deild: 45. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í B-deild Alþingistíðinda. (2128)

110. mál, heimild til að veita einkarétt til þess að vinna salt úr sjó

Sigurður Stefánsson:

Mál þetta hefur komið hingað frá háttv. Nd. og hefur verið athugað þar í nefnd, og gerðar þar á því töluverðar breytingar frá því, sem var í upphaflega frumv.; er mjer sagt, að minsta kosti sumar af þessum breytingum hafi verið gerðar í samráði við stjórnina. Þetta mál er svo vaxið, að ef fyrirtækið opnast, þá getur það orðið til töluverðra hagsmuna fyrir landið, því að leyfisumsækjandinn býst við, ef alt gengur líkt og hann vonar, að hann geti framleitt saltið svo kostnaðarlítið, að unt verði að selja það töluvert ódýrara, en menn eiga nú að venjast. Hinsvegar er engin hætta fyrir landssjóð, leyfishafinn einn á alt í húfi. Mjer sýnist mál þetta vera svo einfalt, að ekki sje þörf á, að nefnd sje skipuð í því, enda er tími þingsins orðinn svo naumur, að tvísýnt er, að það komist fram, ef það tefst í nefnd. Mín tillaga er því sú, að því sje nú vísað nefndarlaust til 2. umr.; sýnist einhverjum háttv. deildarmanni við nánari athugun frv. þörf á, að það sje athugað í nefnd, má skipa hana að lokinni 2. umr.