03.09.1913
Efri deild: 45. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (2133)

13. mál, vörutollur

Steingrímur Jónsson, framsögumaður:

Háttv. Nd. hefur gert nokkrar breytingar á frv. frá því, sem það var, þegar það fór hjeðan úr deild. Nefndin er að vísu ekki allskostar ánægð með breytingar þessar, en ræður þó til, að frv. sje í samþykt óbreytt.

Ein aðalbreytingin, sem gerð var hjer í deild, var sú, að strigi hafði verið feldur úr öðrum lið 1. gr. vörutollslaganna, þar sem háttv. Nd. vildi hafa hann. Ástæða nefndarinnar hjer í deild fyrir því, að leggja þetta til, var sú, að strigi er svo óákveðið orð, að undir það gæti komizt eitthvað af álnavöru, sem að rjettu lagi ætti að heyra undir 3. lið 1, greinar. Þó telur nefndin þetta ekki hafa þá þýðingu, að hún vilji leggja til, að því sje haldið til streitu gagnvart háttv. Nd. En vafalaust mun það þó valda innheimtumönnum óþæginda, og líklega baka landssjóði eitthvert tjón. Þó hefur nokkuð verið bætt úr með því, að í háttv. Nd. hefur þessu ákvæði verið bætt inn í frv.: að sama gjald, sem af vörum í 6. flokki skuli greiða af öllum þeim vörum, sem heyra til 1.–2. og 4.–5. lið, ef þær eru í umbúðum með öðrum vörum, eða í svo löguðum umbúðum, að tegund vörunnar verður eigi greind, nema hún sje tekin úr umbúðum. Þetta getur gert innheimtuna þægilegri, og er þá fengið megnið af því, sem nefndin vill.

Önnur breyting háttv. Nd. er sú, að hún hefur tekið upp í 2. lið 1. gr. gadda og rær, sem felt hafði verið úr hjer í deild. En þar sem það eru að eins gaddar og rær til járnbrautargerðar, þá er hjer um svo lítið atriði að ræða, að nefndin vill eigi gera ágreining út af því.

Þá hafa deildirnar ekki getað orðið sammála um tollgjald af bátum. Hjer í deild var það samþykt, að innfluttir bátar skyldu vera undanþegnir vörutolli; en hv. Nd. vill láta þá báta eina vera tollfría, sem siglt er hingað til lands, hina ekki. Þótt nefndin geti í sjálfu sjer ekki verið þessu samþykk, þá vill hún þó ekki gera það að deiluefni fremur en hitt og ræður til, að frv. sje samþykt óbreytt.