05.09.1913
Efri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (2151)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Einar Jónsson:

Jeg á eina brtill. við 12. gr. og er jeg þakklátur fyrir undirtektir h. frsm. (Stgr. J.) undir hana, hvað efni hennar snertir.

Eins og kunnugt er, þá er Hróarstunguhjerað óveitt, og hefur verið það nokkurn tíma, en hinsvegar hefur læknirinn í FIjótsdalshjeraði verið settur til að þjóna því.

Orsökin til þess, að læknar hafa ekki verið þar lengi, er sú, að þótt þeim hafi verið ákveðnar jarðir til bústaðar, og þeir getað fengið þær, þá hefur þar vantað nægileg húsakynni. Jarðirnar hafa ekki verið húsaðar svo, að læknarnir vildu við það una, en hinsvegar ekki viljað húsa þær sjálfir. Það hefur verið reynt til að koma á samtökum milli hreppanna, um að byggja lækninum sæmilegt hús, og flestir hlutaðeiganda hreppa viljað sinna því í fullri alvöru, en það hefur strandað á því, að Borgfirðingum hefur þótt hinn ákveðni bústaður oflangt frá sjer upp í hjeraðinu, og því ekki viljað styrkja byggingnna, meðan svo væri.

Nú er hjeraðinu, sem sagt, þjónað af lækninum í Fljótsdalshjeraði, og er þá svo langt að sækja lækni sumstaðar að, alt að 14 tímar að sumardegi úr Borgarfirði sumstaðar, að það má heita ógerningur, einkum að vetri til, þegar eitthvað er að veðri og slæm færð.

Læknirinn í Fljótsdalshjeraði fær hálf laun, Í50 kr., fyrir að þjóna hjeraðinu, og því græðir landssjóður í raun rjettri 150 kr. á ári á því, að hjeraðið er óveitt. Og af þessum 150 kr., er hann sparar, er það, að jeg fer fram á, að 500 kr. sje varið til þess að styrkja hjeraðsbúa að sækja lækni.

Jeg hafði í fyrstu aðeins hugsað mjer að bera fram styrk til Borgfirðinga, þar eð þar var brýnust þörfin á styrk, og jeg bjóst varla við, að geta fengið svo háan styrk, sem hjer er farið fram á, en það var í samráði við landlækni, að jeg breytti því svo, að styrkur þessi yrði líka til hjálpar hjeraðinu að ofan að nokkru leyti, eins og brtill. sýnir.

Brtill. fer fram á tvent. Í fyrsta lagi að ljetta Borgfirðingum eða einstöku mönnum þar, að sækja lækni, og hitt, að styrkja lækninn til þess að fara yfir aðalhjeraðið í læknisferð niður í Borgarfjörð. Ef hann færi slíkar ferðir, og auglýsti þær fyrirfram, þá gætu þær orðið að miklu gagni, bæði fyrir hjeraðsbúa og Borgfirðinga.

Jeg vildi því helzt, að brtill. mín yrði samþykt, og vil því að svo stöddu ekki taka hana aftur, að minsta kosti ekki fyr en við atkvæðagreiðsluna. Jeg vildi gjarnan fá að heyra undirtektir landlæknis, h. 6. kgk. þm (G. Bj.), og vona jeg, að hann styðji hana. En ef brtill. mín nær ekki fram að ganga, þá þakka jeg tillögu hv. frsm. (Stgr. J.), sem hann talaði um, og vænti, að h. fjármálanefnd beri hana fram við 3. umr.