05.09.1913
Efri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í B-deild Alþingistíðinda. (2156)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Hákon Kristoffersson:

Háttv. framsögum. (Stgr. J.) rangfærði orð mín. Jeg er ekki farinn að sannfærast um þetta, er hann sagði. (Stgr. Jónsson: Jeg trúi því vel). En jeg legg misskilning hans ekki illa út. Jeg áleit, að hann væri ekki sprottinn af slæmri rót. Það hefur vakað fyrir mönnum, að fyrirkomulagið á bátaferðum yrði nokkuð öðru vísi en á undanförnum þingum, þannig að einn maður rjeði ekki öllu yfir þeim, heldur að sýslufjelagið tæki þær að sjer.

Þá mintist háttv. framsögum. á styrkinn til Rögnvalds Ólafssonar. Jeg er samþykkur því, að margt gott geti leitt af utanförinni. En hjer vantar fje nálega til alls, er gera þarf; hjer þarf alstaðar að spara, eftir því, sem háttv. fjárlaganefnd segir. Hjer vantar fje til stórnauðsynjafyrirtækis sem Jökulsárbrúar, að sögn fjárlaganefndar. Og svo að jeg víki nú að henni, og sje t. d. að velja um höfn í Vestmannaeyjum eða brúna, þá skoða jeg ekki lengi huga minn um, hvort fyrir eigi að ganga. Jeg veit, að þeir hafa mikið til síns máls, er halda því fram, að við höfum ekki efni á, að reisa Jökulsárbrúna nú. En jeg sje ekki, að sóma þingsins sje gætt viðunanlega, nema lofað sje nú að veita fje til hennar á næsta fjárhagstímabili; það gleður mig líka að heyra, að háttv. þingm. Ísafjarðarkaupstaðar og fleiri hjer í háttv. deild, telja það sjálfsagt, eftir því, sem jeg heyri á samtali þeirra nú.