05.09.1913
Efri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 814 í B-deild Alþingistíðinda. (2159)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Steingr. Jónsson, framsögumaður:

Jeg ætla að minnast á nokkur orð í ræðu h. þm. V.-Skf. Hann mintist á, að jeg hefði áður hjer á þingi sagt, að vel færi á því, að á hverju fjárhagstímabili væri brúuð ein af stórám landsins. Á þessu þingi er nú veitt fje til þess að gera brú á Eystri-Rangá, þótt tillagið til þeirrar brúar sje varla svo hátt að þetta geti kallast stórbrú, þar sem einungis eru veittar til hennar 18000 kr. En þar sem lagt er til, að á komandi fjárhagstímabili verði samtals veittar um 60 þús. kr. til ýmissa brúargerða, þá má líta svo á, að þetta samsvari því, að fje hefði verið veitt til að brúa eina af stórám landsins. Ef nú væri hægt að kippa öllum þessum fjárveitingum út af fjárlögunum, mundi málið horfa nokkuð öðruvísi við, en slíkt er alsendis ómögulegt, því að flestar þessar fjárveitingar hafa verið samþyktar í Nd. með miklum atkvæðamun.

Annað, sem jeg gleymdi í ræðu minni áðan, var það, að landsverkfræðingurinn skýrði okkur nefndarmönnum frá því að hann áliti ógerning að gera brú á Jökulsá á Sólheimasandi árið 1914, vegna þess að við brúargerðina yrði að hafa not símans austur. Þessu hefur hann skýrt frá bæði í brjefi frá því í janúar 1911, og eins hefur hann sagt okkur frá því munnlega í embættisnafni, og hann er ekki svo gerður, að hann fari með neinn flysjungsskap á nokkurn hátt. Jeg veit það vel, að druknanir í ám hafa mikil áhrif á menn, en þrátt fyrir það er oft ekki hægt að koma í veg fyrir að slíkt geti komið fyrir. Jeg held, að ekki hafi verið ástæða til þess að taka orð mín um vötnin á þann hátt, sem h. þm. V.-Skf. gerði. Þegar jeg talaði um verstu vötnin, átti jeg við þau, sem verst eru yfirferðar, bæði illa reið, og ilt að ferja þau, en það er oft, að ekki drukna eins margir menn í þeim, eins og í sumum öðrum vötnum, sem eigi eru erfið yfirferðar.