05.09.1913
Efri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í B-deild Alþingistíðinda. (2163)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Guðmundur Björnsson:

Jeg ætla einungis að segja nokkur orð út af því, sem h. 5, kgk. þm. sagði um heilsuhælið. Hann mintist á það, sem drepið er á í nefndarálitinu, að stjórn heilsuhælisins hafi ekki gert eins mikið til þess að safna fje handa því, eins og hún hefði átt að gera. Einkum talaði hann um minningarskildi hælisins, og það getur vel verið, að meira hefði mátt gera til þess að koma þessum skjöldum út, en gert hefur verið. En við höfum þó skrifað öllum prestum landsins um þetta og beðizt svars þeirra um það, hvort þeir vildu taka að sjer að selja þessa skildi, en við höfum aðeins fengið svar frá fáum. Jeg býst við því, að eitthvað muni hafa misfarizt af þeim brjefum, sem við sendum prestunum, því jeg hef oft rekið mig á, að afprentuðu máli, sem sent er með póstum, er eigi alllítið, sem aldrei kemst til skila, og það er gott, að h. ráðherra er hjer viðstaddur og getur fengið vitneskju um þetta. Í öðru lagi mintist h. 5. kgk. á það, að ekkert væri því til fyrirstöðu að taka hærri meðgjöf af efnuðu fólki, en nú er gert. Það var líka tilætlun heilsuhælisstjórnarinnar að taka hærri meðgjöf af þeim efnaðri en hinum fátækari, því búizt var við, að þeir mundu einkum nota einbýlisstofurnar, en reynslan hefur orðið sú. að nálega allir, sem leitað hafa á heilsuhælið, hafa verið svo efnalitlir, að þeir hafa ekki getað greitt meira en heimtað er á sambýlisstofunum, og það geta liðið svo heil ár, að enginn sjúklingur komi, sem getur greitt það, sem heimtað er á einbýlisstofunum. Því höfum við orðið að taka þær fyrir hina sjúklingana og hafa þar 2 rúm. En það þýðir ekkert, þótt jeg reyni að sýna fram á, að við, sem erum í heilsuhælisstjórninni, höfum gert það, sem okkur hefur verið unt að gera í þessu máli. Við verðum að liggja undir ámæli nefndarinnar þrátt fyrir það. En jeg vona samt, að ýmsir vilji gæta að því, að allir, sem í stjórninni eru, hafa haft mörgum öðrum störfum að gegna, og hafa því orðið að hafa þetta starf í hjáverkum. Jeg veit, að það, sem jeg hef unnið að þessu og öðrum vandamálum þjóðarinnar, hefur mest verið unnið á næturþeli eftir skylduverkin á daginn, en það getur vel verið, að jeg hefði getað lagt á mig meiri nætur vökur, en jeg hef gert.