05.09.1913
Efri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í B-deild Alþingistíðinda. (2165)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Steingr. Jónsson, framsögumaður:

Fyrst og fremst vil jeg geta þess um 14. gr.. að h. Nd. hefur flutt í hana bændaskólana og aðrar kenslustofnanir, er áður voru í 16, gr. Ennfremur hafa gjöldin að öðru leyti hækkað í h. Nd. um nálægt 51 þús. kr. Nefndin hefur gert allmiklar breytingar við þessa grein, 28 talsins.

Nefndin leggur til, að aftan við A. b 5. liðinn, komi tveir nýir liðir, álag til tveggja kirkna, Þönglabakkakirkju og Viðvíkurkirkju frá 1861. Hin síðari ár hefur verið unnið að því af biskupi, að söfnuðurinn taki að sjer ljenskirkjur, og það hefur komið fyrir, að landssjóður hefur í þeim tilfellum lagt fram álag á þær. Fram til þessa hefur landssjóður greitt álag á 4 ljenskirkjur, sem sje til kirknanna í Garps. dal og Rafnseyri á fjárlögunum 1911 og á fjáraukalögunum voru 2 kirkjur,Staðarstaðar og Ásólfsskála, og svo bætist hjer við, 5. kirkjan, Þönglabakkakirkja. Biskup hefur upplýst nefndina nm það, að af þeim 42 eða 43 ljenskirkjnm, sem eru á landinu, munu ekki þurfa að greiða álag á nema í hæsta lagi 10 þeirra, og ef álagið þar yrði eins og á Þönglabakkakirkju, þá næmi öll upphæðin ekki nema 10 þús. kr. Kirkjan á Þönglabakka er mjög fátæk og hrörleg, á engar eignir, og söfnuðurinn er fámennur, svo hann á mjög örðugt með að halda þar við sæmilegu guðshúsi, en með þessu álagi eru líkindi fyrir því, að kirkja geti haldizt þar við.

Það var árið 1861, að það var samþykt að makaskifta Hjaltastöðum og Viðvík, og var þá við úttekt í júní 1862 metið 200 rdl. álag á Viðvíkurkirkju, en þetta álag var aldrei greitt. Nú gerir söfnuðurinn kröfu til þess, að álagið verði greitt vaxtalaust, og nefndinni leizt svo, að úr því að farið væri að greiða álög á ljens kirkjurnar úr landssjóði, þá væri líka rjett að greiða þetta álag.

Þá er 28. brtill. á þgskj. 665 um Reykjavíkurdómkirkju. Nefndin viðurkennir, að það sje sjálfsagt að gera svo við þetta mikla hús, að það ekki niðist niður, og hún telur, eftir upplýsingum þeim, er fengizt hafa, að 20 þús. kr. muni ekki gera mikið betur en nægja til þess. En nefndin lítur svo á, að kirkjan geti sjálf greitt þessar aðgerðir af tekjum sínum smátt og smátt. Og þessi kirkja á miklu fremur en fátækar sveitakirkjur að geta greitt kostnaðinn, þótt mikill sje. Nefndin hefur yfirfarið reikninga kirkjunnar fyrir nokkuð mörg ár, og voru tekjurnar fyrst um 3000 kr. en fóru svo smáhækkandi upp í um 6000 kr. En svo lækkuðu þær 1909, er breytingin var gerð á sóknar- og kirkjugjöldum, en eru nú aftur hækkaðar og orðnar á 5. þús. kr. Nefndin leggur því til, að þessi liður falli niður, en leggur aftur til, að jafnhá lánsupphæð verði heimiluð í 21. gr., og að það verði fyrsta lánsheimildin þar.

Fjárlaganefndin hefur borið fram þingsályktunartillögu um dómkirkjuna, og hefur tillögu þeirri verið útbýtt hjer í háttv. deild í dag, og verður þá nánar rætt um dómkirkjuna, þegar þingsál.till. kemur til umræðu. Þá er háskólinn. Nefndin leggur til, að námsstyrkurinn við hann sje lækkaður úr 8500 kr. niður í 7200 kr, Á þinginn 1911 var námsstyrkurinn ákveðinn 5400 kr., og var hann þá hækkaður mikið frá því, sem hann var við 3 skólana, lagaskólann. læknaskólann og prestaskólann, og nam sú hækkun um 1400 kr., að jeg held. Það var búizt við því þá, að það þyrfti að hækka þennan styrk, að minsta kosti man jeg það, að fjárlaganefnd Ed. bjóst við því. En menn bjuggust þó ekki við því, að það gengi svo hröðum skrefum, að það yrði á næsta þingi óskað að hækka styrkinn úr 5400 kr. upp í 8500 kr. Ástæðan til þessarar hækkunar mun vera sú, að menn vilji keppa við Kaupmannahafnarháskóla með styrknum, Nefndin viðurkennir, að það gæti verið rjett, og að það sje ekki gott, að námsmenn sigli þangað til þess að nema þar þær námsgreinar, sem eru kendar hjer við háskólann. En hún sjer ekki, að það muni verulega hefta för stúdentanna til Hafnár, þótt styrkurinn verði hækkaður svona gífurlega mikið, og hún vill því fara meir með löndum og ekki hækka styrkinn meira en upp í 7200 kr. Finst það vera mjög sómasamleg hækkun, þar sem styrkurinn er nú 5400 kr. Nefndinni þykir það heldur ekki rjett, að allir stúdentar fái hæsta styrk eða sem næst því, og fyrir mjer er það mjög stórt spursmál, hvort það sje heppilegt fyrir háskólann.

Í sambandi við þetta hefur nefndin lagt til, að orðið „venjulegast“ falli burt úr athugasemdinni, þannig, að styrkur þessi, húsaleigustyrkurinn, sje alls eigi veittur nema utanbæjarmönnum, og sömu tillögu hefur nefndin gert við mentaskólann. Af þessum ástæðum sjer nefndin ekki ástæðu til, að hafa húsaleigustyrkinn hærri en 3600 kr. í stað 4000 kr. í frumv., eins og það kom frá háttv, Nd.

Þá eru kenslubækur háskólans. Nefndin telur, að þar muni nægja 2000 kr., því aðallega mun það vera lagadeildin, er notar þennan styrk, og því fremur ætti þessi upphæð að nægja, þar sem nefndin leggur til, að veittar sjeu 500 kr. á ári til þess að undirbúa útgáfu á skrá yfir íslenzk lög að fornu og nýju, einskonar „Lovlexikou“, eins og það er kallað. Nefndin lítur svo á, að þetta verk geti komið að mjög miklum notum við vísindalega starfsemi á háskólanum, við kensluna þar, og síðast en ekki sízt, að það komi að mjög miklum notum fyrir löggjafarvaldið.

Í ítarlegu erindi, er nefndinni hefur borizt frá háskólaráðinu, þar sem sýnt er fram á þörfina á þessu verki, er ráðgert, að það muni verða um 40 arkir og að kostnaðurinn við undirbúning að því muni

verða 4000–5000 kr. Hjer er því aðeins um undirbúning og byrjun að ræða, og getur þá næsta þing veitt meiri upphæð í þessu skyni, svo að ekki þurfi að bíða í 8 ár eftir verkinu.

Þá er lítilsháttar brtill, á þgskj. 665 um laun kennaranna við mentaskólann; það er farið fram á, að þau sjeu hækkuð um 200 kr., er eiga að vera persónuleg launaviðbót við yfirkennara Geir Zoëga, sem viðurkenning fyrir störf hans í þarfir skólans og vísindanna.

Næst kem jeg að 36. brtill. á þgskj. 665 um bændaskólann á Hólum; um hann hafa nefndinni borizt tvö erindi frá landstjórninni. Annað erindið er um það, að óhjákvæmilegt sje, að gera við gamla skólahúsið; því að eins muni vera unt að nota það eins og að undanförnu sem bústað fyrir nemendur, kennara og að nokkru leyti bústjórann. Árið 1911–1912 var gert nokkuð við húsið og kostað þá til þess á fjórða þúsund krónur. Þessi viðgerð var ekki nema hálfverk og til engrar frambúðar. Nú hefur verið gerð ítarleg áætlun um, hvað það muni kosta, að gera svo við húsið, að alllengi dygði, og hefur húsameistari Rögnvaldur Ólafsson gert áætlun um, að ef kostað væri 4000 kr. til aðgerðar, mundi vera hægt að gera húsið svo gott, að ekki mundi þurfa neina verulega aðgerð á því næstu 15–20 ár. Nefndinni þótti hálfsúrt, að þurfa að leggja til, að fje þetta væri veitt, en sá, að ekki var um annað að gera, því að öðrum kosti væri húsið í veði. Í þessu sama erindi var og farið fram á, að veitt væri fje til að byggju geymsluskúr við húsið. Eftir þeim upplýsingum, sem fyrir lágu, og kunnugleik nefndarinnar á málinu, áleit nefndin nauðsynlegt, að veita til þessa þær 1150 kr., sem fram á er farið.

Þriðja atriðið í áðurnefndu brjefi var um, að veita þyrfti fje til að kaupa fyrir ofn í leikfimishús skólans. Húsið er úr steinsteypu, en svo rakt á vetrum, að ekki er hægt að nota það í frostum, og er því nauðsynlegt, að geta iljað það upp. Nefndin er því meðmælt, að veitt sje fje til ofnkaupanna.

Ennfremur hefur nefndinni borizt erindi frá stjórnarráðinu um fjárveiting til að reisa peningshús á Hólum: fjós, hlöðu og haugshús. Áætlun hefur verið gerð um, að þetta mundi kosta alt að 12000 kr., ef vera ætti við hæfi slíkrar jarðar, sem Hólar eru. Það er gert ráð fyrir, að bygt verði 20 kúa fjós, er einnig taki nokkur svín og kálfa. Nefndin álítur, að þetta fje verði að veita. Ástæður fyrir því eru þessar: Það er talið nauðsynlegt, að skólastjórinn taki við búi á Hólum. Menn hafa ekki verið ánægðir með búskapinn þar að undanförnu, hann eigi talinn til fyrirmyndar, og varla búizt við, að gott lag komist á, nema skólastjóri taki við. Það mundi bæta kensluna, ef hægt væri að benda þar á fyrirmyndarbúskap, og þá mundi hægt fyrir ýmsa að fá notið þar verklegrar kenslu, og það telur nefndin mikilsvert. Eigi skal því neitað, að nefndinni fanst mikið til um, að þurfa að leggja svo mikið fje til Hóla, alls 17450 kr., en jeg held, það sje ekki hægt að komast hjá því. Aðsókn að skólanum er mikil, og þar verður að vera gott pláss, meðal annars vegna bændanámsskeiðanna, sem hafa verið mjög fjölsótt, og sjálfsagt má telja næsta þýðingarmikil. Þá hefur nefndin lagt það til, að hækka lítið eitt styrkinn til matreiðsluskólans á Ísafirði. Honum hafa áður verið veittar 1000 kr. á ári skilyrðislaust. Nú leggur nefndin til, að honum sjeu veittar 1200 kr. úr landssjóði gegn að minsta kosti 400 kr. framlagi annarsstaðar að. Nefndin ætlast til, að kvennaskólinn í Reykjavík njóti 1675 kr. styrks annarsstaðar að, en ekki 1500 kr. eins og er í frv. Þessi breyting er gerð til þess, að styrkurinn verði 1/4 móts við landssjóðsstyrkinn.

Styrkinn til kvennaskólans á Blönduósi vill nefndin hækka um 600 kr., en bindur það því skilyrði, að framlögin annarsstaðar að, en úr landssjóði, sjeu hækkuð úr 750 kr. upp í 900 kr. Á þessum stað er nýtt skólahús, og má hafa þar 40–50 heimavistir; aðsókn að skólanum er mikil, og eftir þeim skilríkjum, sem fyrir liggja, sýnist alt fara þar hið bezta fram. Af húsbyggingunni leiðir það, að þungar skuldir hvíla á stofnuninni. og fjárhagurinn er þröngur. Þessi hækkun ætti að geta gert henni mun hægra fyrir að standast útgjöld sín.

Þá er að víkja að barnafræðslunni. Fræðslumálastjórnin hefur bent nefndinni á, að í 14. gr. XII. 1.–2. sje í athugasemdunum ákvæði um það, að styrkurinn úr landssjóði sje bundinn því skilyrði, að svo og svo mikið sje lagt fram annarsstaðar að. Þetta telur hann ekki heppilegt ákvæði, kveður það hafa valdið misrjetti, með því að ýmislegt geti verið talið með á einum staðnum, sem slept sje á hinum, svo sem gjafir, fæði kennaranna o.fl. Hann leggur því til, að athugasemdinni sje breytt þannig, að í henni standi: „úr bæjarsjóði, hreppssjóði eða fræðslusjóði“. Þetta álítur hann miklu rjettara, og það því fremur, sem styrkurinn úr landssjóði er svo lágur í samanburði við það, sem öll barnafræðslan kostar, ekki nema 50000 kr. af 174000 kr. alls. Ef einhver vill gefa til barnafræðslu, þá getur hann gefið það í fræðslusjóð, þar sem hann er til; jeg þekki tvo slíka, og líklegt, að þeir eigi fyrir sjer að fjölga, — eða þá beint í sveitarsjóð. Með þessu ákvæði er síður hætta á, að reikningar yfir styrk annarsstaðar að yrði miður ábyggilegir. Þá taldi og fræðslumálastjóri ákvæðið um, að skólinn hefði fyrirskipuð kensluáhöld, sem skilyrði fyrir styrkveitingu úr landssjóði, Óþarft í fjárlögunum, með því að sama ákvæði stæði í 22. gr. fræðslulaganna; og felst nefndin á það.

Þá kem jeg að 15 gr. Eins og vant er, þá hefur hún hækkað nokkuð við meðferð háttv. Nd. frá því, sem var í frumv. stjórnarinnar. Nefndin ræður til nokkurra breytinga á henni, þó hafa þær ekki verulega fjárhagsþýðingu. Í háttv. Nd. voru laun 1. bókavarðar við landsbókasafnið hækkuð úr 1500 kr. upp í 2000 krónur. Nefndinni hefur nú borizt erindi frá 2. bókaverði. og fer hann þar fram á, að laun sín verði hækkuð um 500 kr. Hann hefur að launum fyrir bókavarðarstarfið 1000 krónur, en auk þess eftirlaun 1440 kr., eða alls 2440 kr. Af þessu þarf hann þó að borga nokkuð í ekknasjóð. Nefndin litur svo á, að sanngirni mæli með því, að þessi maður fái líka launaviðbót. Starfstími hans er langur, um 7 tímar á dag, 6 tímar sem safnið er opið, og svo má óhætt gera ráð fyrir, að um klukkutími gangi til að koma bókum fyrir eftir að lokað er. Nefndinni þótti það og óviðkunnanlegt, að helmings munur væri á launum 1. og 2. bókavarðar, og varð niðurstaðan sú, að nefndin leggur til, að laun 2. bókavarðar sjeu hækkuð um 200 kr.

Eftir tilmælum landsbókavarðar leggur nefndin til, að fjeð til ýmislegra útgjalda við landsbókasafnið sje hækkað um 150 kr., úr 250 kr. upp í 400 kr. Þessi hækkun er miðuð við það, að bókavörður geti leigt 1–2 herbergi utan safnhússins og flutt þangað bækur, sem lítt eru notaðar. Bókavörður skýrði frá því, að safnið vaxi svo ört — miklu örara en við var búizt — og verði því mjög bráðlega að byggja út þjóðmenjasafninu eða náttúrngripasafninu, ef ekki sje til þessa ráðs gripið. Nú vill svo til, að hægt mun vera að fá á leigu eldtraust herbergi, rjett hjá safnhúsinu í húsi bæjarfógetans. Nefndin hefur fallizt á, að rjett væri að nota þetta tækifæri, svo að ekki þurfi í bráðina að reka þessi tvö söfn út á klakann, enda mundi það horfa til hinna mestu vandræða. Bókavörðurinn taldi, að 150 kr. mundu nægja í húsaleiguna, og við það er hækkunin miðuð.

Þá kem jeg að skáldunum. Eins og kunnugt er, þá var styrkveitingunni til þeirra breytt þannig í háttv. Nd., að allur styrkurinn var settur á fyrra árið og um leið lækkaður hjá sumum þeirra. Ástæðan fyrir þessu virðist hjá háttv. Nd. hafa verið sú, að hún með breytingunni vildi gefa til kynna, að ekki væri meiningin, að þessir menn hjeldu styrknum að sjálfsögðu áfram um óákveðinn tíma, en að hann væri veittur í þetta sinn eins og háttvirt nefnd í Nd. komst að orði, sem viðurkenning fyrir unnin störf. Nefndin hjer í deild er ekki samþykk háttv. Nd. um þetta, að minsta kosti er hún ekki sammála henni um þá menn, sem gera ritstörf að aðalstarfi sínu. Nefndin lítur svo á, að þeir hafi ástæðu til að fulltreysta því, að þeir fái að halda styrknum áfram, meðan þeir brjóta hann eigi af sjer, alveg eins og embættismennirnir mega treysta því að halda embættislaunum sínum meðan þeir brjóta ekki af sjer embættið. Nefndin áleit því rjett, að skifta styrknum niður á bæði árin, en meiri hluti hennar var á því, að breyta ekki upphæð styrksins. Þetta, sem jeg hef nú sagt, gildir um þá rithöfunda, sem nú hafa ritstörf að aðalstarfi, nfl. þá Einar Hjörleifsson, Guðmund Guðmundsson, Guðmund Magnússon og Þorstein Erlingsson.

Háttv. Nd. feldi niður styrkinn til Einars Jónssonar myndhöggvara, en heimilaði stjórninni aftur nokkurt fje til að kaupa fyrir listaverk. Nefndin viðurkennir, að það sje vel til fallið,. að stjórnin hafi nokkurt fje til umráða í þessu skyni, en með því er þó ekki bætt úr þörf Einars Jónssonar. Fjeð er lítið og stjórnin ekki bundin við að kaupa einungis listaverk eftir Einar Jónsson, enda mun það rjettast.

Þessi listamaður er viðurkendur fyrir gáfur sínar og einkennileik í list sinni, þótt enn sje hann ekki kominn svo langt, að hann geti selt það, sem hann þarf til að hafa ofan af fyrir sjer. Hann hefur nú fyrirliggjandi óselt allmikið listagripasafn. sem hann hefur boðið landinu til kaups eða að gjöf. Nefndin vill ekki, að gengið sje að þessu boði, en leggur til, að hann fái 1200 kr. styrk á ári.

Þá kem jeg að brtill. nefndarinnar á 30. lið 14. gr. Nefndinni finst það fremur óviðkunnanlegt, að hinn ríflegi styrkur til Jóns rithöfundar Ólafssonar sje ekki bundinn neinu öðru skilyrði en því, að hann láti af öllum öðrum launuðum störfum en orðabókarsamningunni. Eftir þeim upplýsingum, sem nefndin hefur fengið, virðist orðabókarsamningin vera komin töluvert áleiðis; og mun það því ekki vera erfiðleikum bundið fyrir orðabókarhöfundinn að ljúka við 40 arkir á ári, enda kemur það heim við áætlun h. Nd., þar sem hún gerir ráð fyrir, að hann muni ljúka við verkið á 7–8 árum. Nefndin vill því. að það sje gert að skilyrði fyrir styrknum, að hann skili árlega af handritinu fullgerðu, sem svarar 40 prentuðum örkum, Líka álítur nefndin það óþarft og óviðeigandi að tala um 1. og 2. afborgun af 8 ára styrk, og leggur til, að því sje slept.

Þá kem jeg að 54. brtill. nefndarinnar á þgskj. 665, styrknum til Hannesar Þorsteinssonar. Þegar sá styrkur var veittur á síðasta þingi, hafði þessi rithöfundur ekki nein launuð störf á höndum fyrir landssjóð. Styrkurinn var miðaður við það, að hann mundi nægja þessum rithöfundi til að lifa á, einkum þar sem hann var talinn hafa nokkur efni. En nú hefur hann fengið starf fyrir landið, sem launað er með 960 kr. á ári. Þessu starfi er þannig varið, að það mun ekki tefja hann mikið frá vísindaiðkunum, jafnvel gerir honum að sumu leyti hægra fyrir með þær. Nefndin álítur; að 2000 kr. styrkur muni nægja, og hefði þá rithöfundurinn, Hannes Þorsteinsson, alls tæp 3000 kr. á ári. Nefndin hefur lagt það til, að styrkurinn til Dr. Helga Pjeturss sje lækkaður ofan í 1200 kr. á ári. Upphaflega var 2000 kr. styrkurinn veittur með það fyrir augum, að nokkuð af honum mundi ganga til ferðalaga um landið við jarðfræðisrannsóknir. En nefndin telur litlar líkur til, að mikið geti orðið um þessar rannsóknir á næstu tveim árum.

56. brtill. á þgskj. 665 er um það, að styrkurinn til Eggerts og Þórarins Guðmundssona, til að fullkomna sig í hljóðfæraslætti og hljómfræði, sje látinn falla niður. Það eru ýmsir aðrir, sem sótt hafa um svipaða styrki þessum, og nefndin sjer ekki ástæðu til að taka þá fram yfir alla hina.

Loks hefur nefndin lagt það til, að aftan við greinina væri bætt tveim nýjum liðum. Fyrri liðurinn er, að taflfjelagi Reykjavíkur sjeu veittar 400 kr., til að senda mann á skákþing Norðurlanda 1914. Nefndin leit svo á, að það gæti verið til sóma fyrir landið og til að vekja eftirtekt á því, ef hægt væri að senda hjeðan mann, sem nokkuð bæri á á því þingi, og hún vonar, að taflfjelagið sje fært um að senda slíkan mann. Það er og fordæmi fyrir því, að þingið hefur veitt fje í svipuðum tilgangi.

Annar liðurinn er um, að Samúel Eggertssyni sjeu veittar 1000 kr., til að gera hlutfallsuppdrátt af sögu Íslands. Samkv. umsókn Samúels býst hann við að geta gert uppdráttinn þannig, að hann geri líkt gagn við sögukenslu eins og landabrjefið við landafræðiskenslu. Nefndin getur að vísu ekki fyllilega dæmt um, hvort honum muni takast að gera handhægan uppdrátt, en það er henni ljóst, að hepnist það, þá er mikill stuðningur að slíkum uppdrætti við sögukenslu, og því leggur hún til, að fje sje veitt til að gera tilraun þessa. Þá er ekki meira um breytingar á 15. gr. að ræða. Breytingarnar eru engar stórvægilegar, og upphæðin svipuð nú og var, þegar frv. kom frá hv. Nd. Þá kem jeg að 16. gr.; hún er sú af greinum frv., sem hefur hækkað tiltölulega mest í h. Nd., þegar tekið er tillit til þess, sem flutt hefur verið yfir í 14. gr. Um þetta er þó ekki mikið að segja, þar sem þetta fje er lagt fram til verklegra fyrirtækja.

Þá komum vjer að brtill. 58. Þar leggur nefndin til, að veittar verði alt að kr. 1000 til að hefta vatnságang á nokkrar þjóðjarðir í Álftaveri gegn jafnmiklu úr annari átt. Fje þetta er ætlað til fyrirhleðslu við ána Skálm, og hefur ráðunautur Búnaðarfjelags Íslands gert áætlun um kostnaðinn. Hann áætlar, að garðurinn muni kosta um 2000 kr. og að ennfremur muni þurfa að hlaða annan síðar, sem þó ekki liggi eins mikið á, og muni hann kosta um 1800 kr. Til þess, að þessi garður verði bygður, stingur nefndin upp á, að veittur verði alt að 1000 kr. móti annari eins upphæð annarstaðar frá, nefnilega Landbúnaðarfjelaginu og ábúendum jarðanna.

Þá leggur nefndin til, að 7, liður 16. gr. falli burtu. Hann er um að ryðja vör við Ingólfshöfða og leggja veg upp höfðann, og vill h. Nd. verja til þess 4000 kr. Það liggur engin áætlun fyrir um kostnað við þetta fyrirtæki, og nefndin hefur enga hugmund um, hvað mikið er unnið við, að það komist í framkvæmd. Það virðist þó liggja í augum uppi, að vör þessi verði ekki mikið notuð, því staðurinn muni vera nokkuð langt frá bygðum, og ræður nefndin því frá, að veita , þetta fje, þar til áætlun liggur fyrir.

Þá sjer nefndin enga ástæðu til að hækka styrkinn til iðnaðarnáms erlendis frá því sem er á núgildandi fjárlögum, og vill því láta færa hann niður aftur úr 3000 kr. í 2500 kr. Það er 60. brtill., við 16. lið 16. gr.

61. brtill. er einungis orðabreyting, svo að 16. gr. 22 a verði í samræmi við hin nýju lög um skoðun á síld.

62. brtill. er um, að 24. liður 16. gr. falli burtu. Fjárlaganefnd h. Nd. setti inn nýja liði, 23. og 24. lið, til að Iauna erindreka erlendis. Að því, er fyrri liðinn snertir, hefur verið starfað mikið að undirbúningi þessa máls. Kaupfjelögin norðanlands hafa alt frá 1902 unnið að því, að fá sjer umboðsmenn erlendis, en eru skamt á veg komin, nema að fjelögin hafa stöku sinnum til þessa annast ýmislegt fyrir hönd fjelaganna, t. d. umsjón með sauðförmum, og til að gera lítilfjörleg vöruinnkaup. Mál þetta hefur verið rætt á sambandsþingum Kaupfjelaganna norðanlands, og rætt um það við stjórn Sláturfjelag Suðurlands, og hefur niðurstaðan orðið sú, að farið er fram á fjárstyrk til að launa erindreka erlendis, alt að helmingi, Að því er 24. liðinn snertir, þá hefur enginn undirbúningur verið gerður, svo vitanlegt sje, og vill nefndin því fella hann burtu, en vill jafnframt láta þá skoðun í ljósi, að þegar það mál er nægilega undirbúið, muni alþingi ekki láta á sjer standa að styrkja það á sama hátt.

63. brtill. er um, að 33. liður 16. gr. falli burtu. Það hafa legið fyrir margar umsóknir um styrk til bifreiðatilrauna, og þær eru þegar byrjaðar af ein um prívatmanni. Nefndin lítur svo á, að gott sje, að þessar tilraunir sjeu gerðar; en nú getur svo farið, að niðurstaðan verði ekki eins góð og eftir er vænzt, og sje því ekki rjett, að ginna marga út í slíkar tilraunir með fjárframlögum, og vill því einungis láta gera þær á einum stað, og virðist því eðlilegast, að það sje út frá Reykjavík. Vill nefndin því, að þessi umræddi liður falli burtu.

Þá hefur nefndinni borizt umsókn um styrk fyrir Eggert Briem til rafmagns- og vjelfræðisnáms í Mittweida á Þýzkalandi Piltur þessi hefur ágæt meðmæli og umsagnir um, að hann sje hið bezta fallinn til þessa náms. Faðir hans er fremur efnalítill, og meiri hluti nefndarinnar er því meðmæltur, að styrkja piltinn til náms þessa með 600 kr. á ári, og er það ekki nema lítilfjörlegur styrkur, því nám þarna er dýrt, um 1500 kr. á ári. Og þess skal þar að auki getið, að til að taka fullkomið nám við þennan skóla þarf 5–6 ár.

65. brtill. er við 16 gr. 38. lið, um brimbrjót í Bolungarvík. Enginn efast um, að nauðsyn er mikil á þessu fyrirtæki og að mikið er gefandi fyrir trygga mátorbátalendingu á þessum stað. Það er engin greinileg áætlun til um þetta fyrirtæki, en gizkað á, að það muni kosta um 80 þús. kr., og hefur þegar verið varið til þess ca. 1500 kr. Nefndin vill styrkja þetta fyrirtæki, og vill meiri hluti hennar láta veita til þess 1/3 af kostnaðinum, með því skilyrði, að 2/3 komi annarstaðar frá; þannig hefur verið haft með ýms verkleg fyrirtæki hjer, t. d. Blönduósbrúna, sem veitt var til 1/3 af kostnaði, bryggjuna í Stykkishólmi, sem styrkt var að 1/4, til bryggju á Húsavík, sem kostaði 10–11 þús., voru veittar 3 þús. og síðast til hafnargerðar í Reykjavík 1/4, og veit jeg, að flestum mun minnisstætt, að farið var fram á miklu hærra fjárframlag. Þetta er aðalástæða nefndarinnar til þessarar breytingar, að hún vill fá þeirri meginreglu slegið fastri, að eigi skuli varið meiru fje til styrktar verklegum fyrirtækjum líkum þessu, en sem nemur þriðjungi af kostnaðinum, og nú heyri jeg sagt, að í frv. um höfn í Vestmannaeyjum, sem er á döfinni, sje gert ráð fyrir að landssjóður styrki hana að 1/4. Nefndin leggur því til, að tillagið til brimbrjótsins sje fært niður í 7000 kr. á ári um fjárhagstímabilið, eða alls 15000 kr., og að sýslan eða Bolungarvík leggi því á sama tíma fram þá 2/3, sem þá vanta eða allt að 30,000 kr. En af því að nefndin viðurkennir erfiðleikana fyrir Bolungarvík að leggja þetta fje fram, þá leggur hún til, að það fje, sem þegar hefur verið varið til brimbrjótsins, verði talið með í tillagi sýslunnar og Bolungarvikur og mundi það tillag nema um 26 þúsund kr. á næsta fjárhagstímabili. Nefndin viðurkennir þörfina á þessa fyrirtæki, þar sem um jafnstóra verstöð er að ræða, og álítur, að hlynna beri að henni með þessari fjárveitingu.

Þá leggur nefndin til í næstu brtill. sinni, að veittar verði 1000 kr. til að koma upp bátauppsátri við bryggjuna á Blönduósi. Eftir þeim upplýsingum, sem nefndin hefur fengið, er ómögulegt, eða lítt. mögulegt að koma upp bátum við bryggjuna, þar eð steinlímdur veggur er fyrir, framan í brattri brekku, og er því lítt. mögulegt að nota bryggjuna, ef vont er í sjóinn, nema að eiga á hættu að brjóta þar bátinn. Það hefur verið gerð þar lansleg áætlun um, að kosta muni um 3000 kr. að gera þar uppsátur. Sýslan ætlar að leggja til þess 1/3 og kaupfjelag, sem er þar á staðnum, 1/3, og virðist þá. ekki nema sanngjart, að landssjóður styrki. þetta að 1/3, eins og viðbót við bryggjuna sem hann styrkti eftir sama hlutfalli.

Þá hefur nefndin gert þá brtill. við 18. gr., að feld sjeu burtu eftirlaunaviðbót ekkjufrúar Kristínar Sveinbjörnsdóttur. Ástæða nefndarinnar er sú, að ef þessari ekkju er veitt eftirlaunaviðbót, þá gæti, eftir því, sem nefndin veit um ástæður hennar, allur fjöldi prestsekkna hjer á landi vænst launaviðbótar, því laun þeirra flestra eru lág, og mundi því með þessu vera gefið hættulegt fordæmi.

Þá kemur 19. gr. frv., og hefur nefndin gert við hana 5 brtill. Að því, er fyrri brtill. snertir, hefur nefndinni borizt erindi frá nokkrum mönnum á Langanesi, um endurgreiðslu úr landssjóði á kostnaði við björgun, flutning og greftrun 15 líka frá norsku skipi, sem strandaði við Langanes.

Skip þetta kom frá Jan Mayn, rakst á Langanestá 9. okt. 1907 og brotnaði í spón. skipverjar druknuðu allir nema 1, sem skolaðist upp í brúkið, komst síðan til bæja, var hjúkrað og sendur utan, er hann var orðinn ferðafær. Menn álitu nú skyldu sína, að leita að líkunum og bjarga því, sem upp ræki. Skipið hafði horfið gersamlega, en 15 lík höfðu borizt upp undir björgin, og voru þau tekin, flutt til kirkju og jarðsungin, og varð kostnaður við það altsaman 1600 kr. Mennirnir sendu mjer reikninginn, og báðu mig að koma honum á framfæri, og jeg sendi hann til konsúlsins, þar eð jeg áleit það greiðasta veginn, til að fá kröfu þessa borgaða. Eftir langan drátt voru mjer loks sendar frá Noregi upp í greftrunarkostnaðinn rúmar 750. kr. Sennilega er enginn lagarjettur að heimta þetta af ríkissjóði Norðmanna eða landssjóði, en sanngirni virðist mæla með því, að þeir fái þetta greitt á þennan hátt. Ef til vill gæti það verið hreppsnefndarinnar í Sauðaneshreppi að greiða þetta. Aðstandendur hinna látnu upplýsist ekki um.

Síðari brtill. við þessa gr. er um það, að síðari partur greinarinnar falli burtu. En það er klausa um, að eigi megi greiða ferðakostnað embættsmanna eða embættismannaefna, er þeir taka við embættum sínum, af upphæð þeirri, er þessi grein ætlar til óvissra útgjalda. Þetta ákvæði var sett inn 1883, og var það fyrir þá sök, að greitt hafði verið úr landssjóði flutningskostnaður embættismanns og þótti nokkuð hár. Þar eð engin líkindi eru til, að slíkt komi fyrir aftur, álítur nefndin rjettara, að fella þetta ákvæði burtu.

Jeg hef minzt á það við stjórnina, og hún álitur enga þörf á þessu ákvæði.

Á lánið til Reykjavíkurdómkirkju þarf jeg ekki að minnast, því um það hef jeg talað áður. En um lánið til Rangárvallasýslu til jarðarkaupa er það að segja, að nefndin álítur það óforsvaranlegt, að lána á þessu þingi mikið fje úr landssjóði, eða meira en inn kemur af viðlagasjóðslánunum: Nd. hefur lagt til, að lánað væri 159,000 kr. og eru það 43,000 fram yfir það, sem inn kemur. Það er alls eigi rjett, að binda fje þannig, þegar það er ekki til í landssjóði, og þótt reikningarnir sýni ekki beinan halla, þá er langt frá, að nokkurt fje sje til í árslok. Og ef fara ætti að kaupa jarðir til embættisbústaðar, þá væru opnaðar víðar dyr. Það mundi ekki verða þessi eina sýsla, sem þyrfti aðstoðar í þessu efni, heldur mundi svo verða um land alt. Og þegar búið væri að kaupa jörð fyrir 14,000 kr., þá mundi þurfa að byggja fyrir aðrar 14,000 kr. Þetta mundi því hættuleg byrjun og ilt fordæmi. Jeg hef heyrt sagt, að það mælti með þessu, að þetta sje verðmæt eign og sýslan græði á kaupunum, en landssjóður á ekki að fara að stuðla að slíkri „spekulation“. Og ef fara ætti að kaupa jarðir til embættisbústaðar, mundu smábýli heppilegri til slíks.

Nú eru aðeins eftir 2 brtill. 72 og 73 um breytingu á lánskjörum á lánum til raflýsinga. Nefndin lítur svo á, að engin meining sje í, að landssjóður láni út fje fyrir lægri vexti en hann borgar sjálfur, og biði við það beint peningatap, og enn fremur virðist afborgunartíminn nógu langur, 20 ár.

Jeg hygg jeg hafi nú minzt á allar brtill. nefndarinuar, og ætla að geyma mjer brtill. einstakra manna, þar til að þeim kemur í umræðunum.