05.09.1913
Efri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 853 í B-deild Alþingistíðinda. (2169)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Guðmundur Björnsson:

Jeg hef beðið mjer hljóðs til þess að minnast á fáeinar af brtill. nefndarinnar og verður þá fyrst fyrir mjer 31. og 35. brtill. á þgskj. 665, og eru þær um styrk nemenda við mentaskólann og háskólann. Háttv. fjárlaganefnd hefur lagt það til, að úr athugasemdinni við húsaleigustyrkinn verði felt orðið venjulega, þannig, að framvegis megi aldrei veita innanbæjarmönnum þennan styrk. Jeg hef nú haft náin kynni af þessu máli í 17 ár, sem jeg hef kent við læknaskólann, og veit, að þessi breyting mundi koma sjer mjög illa. Það ber oft við, að ýmsir skólasveinar eiga heima hjer í bænum, en eru algerlega einstæðingar og eiga því mjög erfitt með að komast áfram, og er eins mikil ástæða til þess að veita þeim húsaleigustyrk eins og hinum, sem heima eiga utanbæjar. Til dæmis skal jeg geta þess, að nýlega útskrifaðist úr læknadeildinni piltur, sem var einstæðingur, átti engan að og vann sjálfur fyrir sjer á sumrum. Þeir sem eru kunnugir í læknadeild háskólans vita, að nú er þar einn piltur, sem líka er einstæðingur og er meira að segja kvongaður. Þessi piltur er einhver allra duglegasti pilturinn í skólanum og mjög gott læknisefni, og er hann því alls góðs maklegur, og jeg veit, að kennurum hans þætti mjög leitt, ef ekki væri hægt að veita honum þennan styrk. Jeg get því alls ekki fallizt á þessa brtill. og vil óska, að hún verði ekki samþykt.

Þá er 52. og 53. brtill. nefndarinnar við 15. gr. 30. lið. Þar eru Jóni Ólafssyni í frv., eins,og það kom hingað, ætlaðar 2000 kr. á ári í 8 ár, til þess að semja og búa undir prentun íslenzka orðabók, með því skilyrði, að hann hætti öðrum launuðum störfum. Fjárlaganefndin vill nú breyta þessu þannig, að lofa þessum launum einungis í 2 ár og gera það að skilyrði, að hann skili 4.0 örkum á ári. Hjer er nú á það að líta, að annaðhvort er Jóni Ólafssyni ekki trúandi fyrir þessu starfi, og þá er yfirleitt ekki tilvinnandi að veita honum laun fyrir að vinna þetta verk; setti þá hreint og beint að nema burtu þessa fjárveitingu. En ef menn líta svo á, að hjer sje um verðmæta vinnu að ræða — móðurmáli okkar til gagns og sóma — þá megum við ekki fara svona að, eins og nefndin leggur til. Þessi maður er orðinn aldurhniginn og engin sanngirni að ætlast til þess, að hann sleppi öllum störfum fyrir þetta, en eiga ekki vist að halda því, nema um tveggja ára tíma; geta þá búizt við að missa styrkinn og verða að hætta við verkið. Jeg vil því annaðhvort fella þessa fjárveitingu burtu eða taka skrefið að fullu og heita manninum launum fyrir alt verkið. Fyrir mjer er því um tvent að gera, veita Jóni Ólafssyni alls ekkert, eða þá að ráða hann til 8 ára, eins og Nd. hefur viljað gera. Jeg veit, að það eru mjög deildar meiningar um þessa orðabók, sumir segja, að hún sje einskis virði, aðrir að hún sje mjög mikils virði, og einn þeirra manna er Sigfús Blöndal; sem hefur mjög mikla þekkingu á þessu efni; hefur hann látið í ljósi, að hann harmaði mjög, ef hætt væri við verkið á miðri leið. Jeg er ekki íslenzkur málfræðingur, en jeg er þó Íslendingur og móðurmálið er mesta yndi mitt, og þetta hefur leitt til þess, að jeg hef kynt mjer talsvert allar íslenzkar orðabækur og á þær allar.

Við höfum einusinni áður eignazt orðabók, sviplíka þessari nýju. Það var á 18. öld. Einn ágætur mentamaður þeirrar aldar, sjera Björn Halldórsson (1724 —1787) samdi orðabók, vann að því verki í tómstundum sínum í 15 ár. Hann safnaði úr bókum, eins og venja er til.

En hann safnaði líka úr alþýðumálinu. Tók alt sem hann náði í. Það er oft eins og öllum sje dulið, að í alþýðumálinu er urmull orða, sem hvergi sjást í bókum. Þessi orð eru eins og hulinn fjársjóður.

Jeg hef sjálfur hent á lofti mörg ágæt orð úr alþýðumálinu; jeg er viss um, að þau skifta hundruðum, og þá efa jeg ekki, að maður jafnfær og fróður og Jón Ólafsson er, hafi hent á lofti ágæt alþýðuorð svo þúsundum skiftir. Og þessi orð eru oft gimsteinar, tárhrein íslenzka, og sum svo formleg, að það er bersýnilegt, að þau. ern eldri en íslenzka þjóðin.

Fyrir það er orðabók sjera Björns Halldórssonar svo dýrmæt, að í henni er svo mikið af alþýðuorðum átjándu aldar. Fyrir það er sú bók talin dýrgripur í bókmentum okkar Íslendinga. En haldið ekki fyrir því, að hún sje gallalaus — nei, nei, þar eru margir og miklir gallar auðsæir, í hana vantar fjölda orða, sem við vitum að þá voru í málinu, og eins er þar margt rangt og bókin yfirleitt mjög ófullkomin, en samt er hún dýrgripur. En dýrgripir geta verið gallaðir. Í sambandi við þetta dettur mjer í hug, er jeg kom inn í hinn alkunna stóra listasal í Louvre í París. Þar eru fjöldamörg marmaralíki af ástargyðjunni, en eitt ber langt af öllum hinum — það er Venus frá Miló — og eru brotnir af báðir handleggirnir. Margir dýrgripir eru skemdir, og þó stórmikils virði, og aðrir eru gallaðir frá upphafi.

Sjáum nú til:

Alt það er jeg hef sagt um orðabók sjera Björns Halldórssonar, það má líka segja um orðabók Jóns Ólafssonar.

Jón Ólafsson tekur líka saman gamalt og nýtt, heldur sjer ekki við bækur eins og flestir orðabókarhöfundar, heldur tekur líka eins og sjera Björn Halldórsson mjög mikið úr alþýðumálinu. Jeg efast ekki um, að bók hans hafi marga galla, en hitt er jafnvíst, að kosirnir eru margir og miklir, og þetta er aðalkosturinn.

Jeg er sannfærður um það, að komist bók hans út, þá verður hún á 21. öldinni mikill dýrgripur, eins og orðabók sr. Björns Halldórssonar er mesti dýrgripur fyrir okkur.

Og þetta þori jeg að fyllyrða, og það þótt jeg viti, að mörg orð muni vanta í Jónsbók, og að þar verði margir gallar.

Jeg get ekki stilt mig um í þessu sambandi að benda á orðasafn Jóns heitins rektors Þorkelssonar. Þessi ágæti og vandvirkni höfundur safnaði lengi til íslenzkrar orðabókar, og gerði það mjög vandlega. Hann gerði það þannig, að hann tók bækur, las þær vandlega og tíndi úr þeim öll orð, sem hann fann ekki í orðabókum. Jeg stóð nú lengi í þeirri trú, að hann, jafn samvizkusamur maður, hefði gersópað þær bækur, sem hann leitaði i, en jeg hef smásaman rekið mig á, að honum hefur sjezt yfir mjög mörg orð í þeim bókum, sem hann tíndi úr. Þetta er svo vandasamt verk, að jafnvel eins samvizkusamir menn og Jón heit. Þorkelsson var, geta ekki gert það gallalaust.

Jeg efa ekki, að hver, sem til þekkir, líti svo á, að orðabók Jóns Ólafssonar verði enn þá meira virði en orðabók sjera Björns Halldórssonar var á sinni tíð, og það að miklum mun; hún verður margfalt meiri fengur fyrir íslenzkar bókmentir.

Hversu margir, sem gallarnir verða, þá er víst, að bókin verður stórmikils virði fyrir vöxt og viðgang móðurmálsins.

Af þessum ástæðum vil jeg ekki greiða atkvæði með 31. brtill. nefndarinnar.

Jeg vil, að okkur farist þetta drengilega.

Hitt er annað mál, er um ræðir í 32. brtill. nefndarinnar um að setja honum það skilyrði, að hann eigi að skila 40 örkum á ári. Jeg tel sjálfsagt, að skilyrði sje sett um eftirlit. En mjer er ekki fyllilega ljóst, hvað nefndin meinar með þessari brtill. sinni. Er það meiningin, að það eigi ekki að greiða höfundinum laun nema jafnóðum og hann afhendir handrit, ekki borga honum þau mánaðarlega, eins og venja er til? Ef svo er, þá vil jeg benda á, að það er ófært. Gætum nú að: Maður, sem semur orðabók, lýkur ekki jafnt og þjett við örk eftir örk. Hann lýkur við heilan bókstaf í einu, eða margar arkir í einu. Nú hefur höf. lokið við bókstafinn A, og það er komið út, og er 25 arkir. Þess vegna getur það farið svo, að eitt ár lúkist ekki nema 25 arkir, en svo næsta ár verði fullgerðar 55 arkir. Hjer ætti því að standa 40 arkir til uppjafnaðar á ári.

Þá vil jeg minnast á 71. brtill. á þgskj. 665. Í frv. er heimilað að lána Rangárvallasýslu 14 þús. kr. til þess að kaupa jörðina Stórólfshvol fyrir læknissetur og sjúkraskýli, en þetta vill nefndin fella, og verð jeg að segja, að mjer, stöðu minnar vegna, kemur það mjög illa.

Því er svo farið, að sveitahjeruðum er stöðugt að fækka; jeg kalla það sveitahjeruð, þar sem læknirinn er búsettur í sveit. Þau eru ekki orðin nema 9 af 47 læknishjeruðum í landinu; hinir læknarnir búa í kauptúnum. Og jeg hef fengið reynslu fyrir því, að það er erfiðast — langerfiðast — að fá lækna í þessi sveitahjeruð, og það mest vegna bústaðaleysis, þessvegna eru nú mörg þessi hjeruð læknislaus. Jeg hef oft vakið máls á því, að það væri brýn nauðsyn á að fá alstaðar jörð fyrir fast læknissetur, og alstaðar hafa: mjer borizt tilmæli um það, að landssjóður leggi til jörðina. Jeg hef þá svarað, að eigi landssjóður hæfa jörð, þá getur það komið til mála. En því miður er nú komið svo fyrir þjóðjarðasöluna, að landssjóður á víða ekki til jarðir, sem hægt er að nota, og þessvegna hef jeg sagt þessum hjeruðum, að þau muni sjálf verða að koma upp læknissetri, kaupa jörð, og það vilja nú Rangvellingar gera. Þetta er lofsvert í mínum augum. Jeg þekki þarna vel til, og jeg veit, að þar hafa verið sífeld vandræði undanfarið með læknissetur, og að læknarnir hafa verið þar á sífeldum hrakningi afturábak og áfram.

Stórólfshvoll er ágæt jörð og á bezta stað; í miðju hjeraði. Jörðin er því hin æskilegasta eign fyrir sýsluna í heild sinni; þar ætti að vera læknissetur og sjúkraskýli, og þar gæti auk þess verið unglingaskóli. Og það er víst, að jörðin er mjög verðmæt og ágæt trygging fyrir þessari upphæð. Og það er óhætt að segja, að mörg lánin úr viðlagasjóði eru ver trygð en þetta mundi. Þessvegna mæli jeg með þessari lánsheimild, og held að það væri betra, að einhver önnur lánsheimild í frv. væri feld niður.

H. þm. Barð. (H. K.) mintist á greftrun 15 líka á Langanesi. Þessi lík voru flutt langa leið til greftrunar, og varð kostnaðurinn um 100 kr. fyrir hverja jarðarför; það er afarlítið. Hjer víkur svo við, að jeg hef gert ítarlegar rannsóknir um greftunarkostnað hjer á landi. Jeg hef bæði aflað mjer upplýsinga um það hjer í bænum, og eins skrifað út um sveitir til kunnmanna minna, til þess að fá skýrslur um kostnaðinn þar. Og samkvæmt þessum skýrslum, þá kostar sómasamleg, en viðhafnarlaus jarðarför hjer á landi frá 70–100 kr. Mjer er því fullkomlega ljóst, að þessi reikningur er mjög sanngjarn.

Örfá orð vildi jeg segja um brimbrjótinn í Bolungarvik. Það sem mjer skilst að um sje deilt, er þetta, að fjármálanefndin segir, að hjer sje brotin sú venja, að veita aðeins 1/3 kostnaðar til slíkra mannvirkja. Hjer er sem sje farið fram á helming.

En jeg held, að menn verði að líta öðrum augum á þetta, en venjuleg hafnarvirki; við verðum að gera okkur það ljóst, að flest þau hafnarvirki, sem hjer hafa verið gerð, hafa verið gerð fyrir samgöngur og verzlun. En hjer er að ræða um fiskibátahöfn, það er að ræða um annan aðalatvinnveg þjóðarinnar –fiskiveiðarnar. Við erum enn ekki farnir að hugsa nógu vel um það, hversu það er mikilsvert fyrir fiskiveiðar vorar, að hafa góðar hafnir. Og þó að það sje góð regla, að veita ekki nema þriðjung kostnaðar, þegar um höfn fyrir siglingar og verzlun er að ræða, þá hika jeg ekki við að segja, að við eigum að veita helming kostnaðar, þegar um hafnir fyrir fiskiver er að ræða.

Jeg hef meir en margur annar kynt mjer mannskaða hjer á landi, og þá hef jeg aftur og aftur rekizt á nafnið Bolungarvík, og þá sagt: „Hann druknaði í lendingu“. „Þeir druknuðu í lendingu“.

Það er einlægt verið að tala um, að það megi ekki leggja neina nýja skatta á þjóðina, og þegar jeg bar Hallærissjóðinn hjer fram, þá var mjer álasað mjög fyrir, að jeg vildi leggja nýjar álögur á landsmenn. En þrátt fyrir þetta tal, þá heyrast engar raddir um það að minka álögurnar á þjóðinni, það sjer þó enginn sjer fært. Og þó er það fært. Þei eru margir skattarnir, sem hvíla á okkur. En jeg hef þó ekki orðið var við neinn skatt, sem er eins tilfinnanlegur og sár og skatturinn sá, er við greiðum í sjóinn.

Jeg hef gert upp þennan reikning, en jeg ætla mjer ekki að tala um hann hjer, jeg býst við að gera það nánar síðar á þinginu. En að eins vil jeg taka það fram, að árið sem leið, þá druknuðu hjer 96 manneskjur. Vitanlega eins og vant er nærfelt eingöngu — 94 — karlmenn, og vitanlega, eins og vant er, fór mest alt í sjóinn. Nú er það rjett, er háttv. þm. V.-Sk. (Sig. Eggerz) tók fram í dag, að það má meta líf fullvinnandi hrausts manns á meðalaldri 20000 kr. virði fyrir þjóðfjelagið. En þó við slæum helming af því og segðum 10000 kr., þá hafa þó farið þar í sjóinn 960,000 kr. eða tæp miljón kr.

Þið munið það, að það var harmað um allan heim, er Titanic fór í sjóinn, þar voru 1600 manns. En hvað var þetta fyrir hinn brezka heim; það var minna en þegar ein skúta með 26 manns ferst hjer hjá okkur. Ef Englendingar ættu að missa eftir fólksfjölda á móts við okkur í menn sína í sjóinn, þá ættu að farast þar ! árlega um 50000 manns.

Þetta er þungur skattur og þennan skatt má eflaust minka.

Og þessvegna margborgar þetta sig í Bolungarvík.

En það er ekki nóg.

Við þurfum að gera meira.

Það er lífsnauðsyn að rannsaka þetta mannskaðamál.

Jeg mun síðar víkja að því.