05.09.1913
Efri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í B-deild Alþingistíðinda. (2171)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Eiríkur Briem:

Jeg ætla að minnast á eina ofurlitla brtill. h. nefndar. Það hafa að vísu engin mótmæli komið fram gegn henni, en af því jeg er nokkuð kunnugur málavöxtum, þá vil jeg skýra frá þeim. Tillaga þessi er um, að Viðvíkursöfnuði sje greitt álag á Viðvíkurkirkju. Jeg var unglingur, þegar jeg heyrði fyrst talað um kirkju þessa, og var hún ein af konungskirkjunum svo kölluðu. Sumstaðar var tekjum kirkna þessara safnað í sjerstakan sjóð, svo sem tekjum Möðruvallaklausturskirkju. Á öðrum stöðum voru tekjurnar borgaðar inn í jarðarbókasjóðinn; svo var það um tekjur kirknanna í Skaftafellssýslu. Þegar makaskifti voru höfð á jörðunum Viðvík og Hjaltastöðum í Skagafirði, var við úttekt í júní 1862 metið álag á Viðvikurkirkju 200 rd. Þetta álag var aldrei greitt, og söfnuðurinn, sem nú hefur tekið við kirkjunni, hefur farið fram á, að landssjóður greiddi álagið.

Með stöðulögunum var svo útkljáð um öll skuldaskifti Íslands og Danmerkur, og sýnist mjer full ástæða til, að þetta umrædda álag sje látið fylgja kirkjunni, fyrst söfnuðurinn tók við henni, og að það verði honum greitt af landssjóði.

Þá hafði jeg ætlað að minnast nokkrum orðum á þær brtill. nefndarinnar, sem snerta styrkveitinguna til Jóns Ólafssonar! til að semja orðabók, en háttv. 6. kgk. hefur gert rækilega athugssemd því viðvíkjandi. Jeg fæ ekki sjeð, hvers vegna fyrirheitið um framhaldandi styrk ekki má standa í greininni, því auðvitað er meiningarlaust að styrkja til þessa í fyrstu, ei svo á að hætta því. Og jeg sje ekki annað, en þetta starf sje svo borgað, að hann þurfi ekki að leita sjer atvinnu utan hjá. Síðari brtill. nefndarinnar er mjög svo athugaverð, um að hann eigi að skila árlega sem svarar 40 fullprentuðum örkum. Nú stendur svo á, að fjelag hefur verið myndað til að gefa út þessa orðabók Jóns Ólafssonar, og þegar gert er ráð fyrir, að gefnar sjeu út 50 arkir á ári, í tveim heftum, þá er afarmikið verk við prófarkalestur, og getur þá orðið erfitt að fullnægja þessu skilyrði um 40 arkirnar. Svo er líka athugavert við þetta ákvæði, að hann skili árlega 40 örkum, hvort það á að skiljast þannig, að styrkurinn eigi að borgast út í heild eftir á, því þá getur verið mjög tilfinnanlegt fyrir efnalítinn mann að bíða eftir því. Honum er yndi að vinna að þessu verki, og mun ekki á því standa, að hann getur til uppjafnaðar fullnægt þeirri kröfu, sem hjer er gerð, þótt framan af geti komið fyrir, meðan undirbúningsstarfið er meira, að hann geti það ekki; þá vinst tiltölulega fljótar að því síðasta.