05.09.1913
Efri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í B-deild Alþingistíðinda. (2174)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Sigurður Eggerz:

Mjer sýnast sumir menn vera orðnir nokkuð syfjaðir, og skal jeg því vera stuttorður. Jeg hef lengi verið að leita að einhverju, sem jeg gæti þakkað h. fjárlaganefnd fyrir, og hef jeg loksins fundið 71. brtill. hennar, um hleðslu fyrir ána Skálm. Með því að veita fje til þessarar fyrirhleðslu, verndar landssjóður sína eigin eign, því að meðfram Skálm eru margar þjóðjarðir. Má segja með fullum rjetti, að alt Álptaver er í voða, ef á þessari verður látið haldast uppi að gera spell þau hin miklu, sem hún hingað til hefur gert. Sigurður Sigurðsson ráðunautur hefur gert áætlun um, að talsvert mætti gera fyrir 2000 kr. af verki þessu, en alt verkið kostar 3600 kr. samkvæmt áætlun, og virtist eðlilegast að taka það alt í einu.

Þá er 74. brtill. nefndarinnar. Fyrir hana er jeg alls ekki þakklátur. Nefndin leggur þar til, að 4000 kr. til þess að ryðja vör við Ingólfshöfða falli burtu. Háttv. framsm. (Stgr. J.) sagðist ekki vera viss um, hvaða gagn gæti að þessu orðið, og skal jeg þá skýra það fyrir honum. Hjerað það, sem hjer er um að ræða, er Öræfin, er liggja milli tveggja eyðisanda, Skeiðarársands og Breiðamerkursands. Allir flutningar á landi eru því mjög erfiðir. En meiningin með þessu er sú, ef hægt væri, að fá skip til þess að koma við á Ingólfshöfða og eins að styðja að því, að menn geti sótt þaðan sjóróðra. Það er því mjög illa farið, ef deildin fellir þennan lið niður og treysti jeg henni til þess að gera það ekki.

Þá er enn eitt atriði, sem snertir háskólann. Það er satt, að það er ákaflega gott að spara, en þó er ekki öll sparsemi góð. Hún er sem sje ekki góð, nema hagsýni fylgi henni. Jeg vil álíta það skyldu þingsins, að hlynna að háskólanum, en það kalla jeg ekki að hlynna að honum, að láta styrkinn vera af svo skornum skamti, að menn sækja fyrir þá sök til Hafnarháskólans. Jeg lít svo á, að rjettara sje að auka styrkinn, til þess að menn leiti síður utan til náms, því að það er dýrt að nema ytra, og flestir munu koma þaðan aftur skuldugir. Jeg vona því, að þessi breyting verði ekki samþykt, enda er hjer að eins smá upphæð, sem nefndin hefur skorið af. Að því, er snertir þá tillögu, að binda húsaleigustyrkinn því skilyrði, að menn eigi heima utan bæjar, þá verð jeg að segja, að það er hin mesta skammsýni og fjarstæða, því að það geta verið þeir menn hjer í bæ. sem eins þurfa styrks við, eins og hinir, sem eru utan af landi, og þeir, sem eru verðugastir styrksins, eiga að njóta hans. En það vil jeg kalla ósparsemi, að veita þær upphæðir, sem engin þörf er á að veita, og á jeg þar við 200 kr. launaviðbót til Geirs yfir kennara Zoöga. Þessi styrkur er svo lítill, að það munar ekkert um hann, og maður sá, sem hjer er um að ræða, er efnaður og hefur góð laun. En ef þetta á að skoðast sem heiðurslaun, þá eru þau svo smásálarlega tiltekin hjá fjárlaganefndinni, að engu tali tekur. Mjer þykir vera nokkuð mikið af Blönduós hjer í tillögum nefndarinnar. Jeg vil ekki ætla, að það komi til af því, að nefndin er svo norðlenzk, það eru 3 af nefndarmönnum í að norðan.

Þá er enn persónuleg launaviðbót til 2. bókavarðar við Landsbókasafnið. Jeg get ekki neitað því, að mjer finst vera nokkuð mikið af þessum persónulegu launaviðbótum, svo að það mætti jafnvel ætla, að eitthvað væri persónulegt við það hjá fjárlaganefndinni. Þá er einn liður, sem jeg skil ekki hvað háttv. fjárlaganefnd meinar með; það eru 1000 kr. handa. Samúel Eggertssyni til þess að gera hlut fallsuppdrátt yfir sögu Íslands. Þetta held jeg að sje hlutfallslega vitlaus fjárveiting, og get jeg ekki skilið, hversvegna hún hefur verið tekin upp. Þá er enn eitt dæmi upp á sparsemi nefndarinnar. Það er tillaga hennar um að lækka utanfararstyrkinn til iðnaðarnema úr 3000 kr. niður í 2500 kr. Jeg sje ekki, hver ástæða getur verið til þessa. Það hafa margir notið þessa styrks, og hann hefur orðið þeim til mikils gagns. Þá kem jeg loks að Bolungarvík. Það gladdi mig að heyra, hve mikil áherzla var lögð á, hve mikils virði mannslífið væri þar. Þá voru allir á einu máli um, að það væri 20000 kr. virði, en þegar jeg var að tala um þetta mál, þá var daufara í mönnum hljóðið.

Jeg er nú þessu, sem sagt hefur verið um Bolungarvík, algerlega sammáta, og er því málinu hlyntur, og jeg treysti því, að háttv. þm. Ísaf. (S. St.) átti sig á því, að mannslífið er líka 20,000 kr. virði, þótt það sje fyrir utan það kjördæmi. Háttv. framsm. (Stgr. J.) sagði, að það væri princip sitt og fjárlaganefndarinnar að leggja eigi fram meira en 1/3, þegar þannig stendur á. En jeg get ekki skilið, að hann þurfi að binda sig við þessa meginreglu. því mjer finst hann mjög fús á að breyta öllum sínum meginreglum. Áður var það meginregla hans að brúa eina stórá á hverju fjárhagstímabili, en nú er nóg að brúa margar smáár. Þá er tillaga um að greiða nokkrum mönnum á Langanesi 700 kr. fyrir greftrun á líkum. Það getur nú vel verið vit í þessu, en mjer finst. að þess háttar tillögur eigi að koma frá stjórninni. Ef þetta verður samþykt, mun jeg við 3. umr. koma fram með brtill. um að greiða mínum kæru Skaftfellingum ýmislegan kostnað, sem þeir hafa ekki fengið goldinn ennþá. Þeir hafa orðið að leggja margt á sig við strönd þar eystra, orðið að vaka marga sólarhringa og leggja líf sín og heilsu í hættu, en launin hafa oft verið nokkuð litil á eftir. Verði þessi fjárveiting samþykt, mun jeg biðja um nokkrar þúsundir til þess að endurgreiða Skaftfellingum ýmsan kostnað, sem þeim enn hefur eigi verið goldinn. Þá kemur lánveitingin til dómkirkjunnar. Jeg skal játa, að það er betra að lána þetta fje en að veita það að fullu. En það er spurning, hvort ekki er betra, að byggja nýja dómkirkju, því hún er orðin svo lítil, að það lendir í slagsmálum við dyrnar milli þeirra, sem vilja komast inn. Og því getur söfnuðurinn ekki sjálfur bygt sjer kirkju ? Þá er brtill. um að fella niður styrkinn til ekkju sjera Kjartans heitins prófasts. Jeg mun greiða atkvæði á móti tillögu þessari.