06.09.1913
Efri deild: 48. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í B-deild Alþingistíðinda. (2181)

21. mál, íslenskur sérfáni

Ráðherra:

Jeg skal ekki tefja umræðurnar lengi, en vil einungis skýra frá því, að jeg álit ekki heppilegt, að frumvarp þetta fari, frá þinginu í lagaformi. Til þess vantar undirhúning bæði inn á við og út á við. Inn á við vantar vitneskju um vilja þjóðarinnar í þessu máli. Það geta verið skiftar skoðanir um gerð fánans, og er eigi fjarri að kynna sjer frekara vilja landsmanna í þessu efni. Út á við er eftir að talfæra þetta við konung, þar eð þetta er fremur valdamerki en þjóðernismerki. Hygg jeg betra, að gæta allrar hógværðar og kurteisi, gefa konungi tækifæri til að láta skoðun sína í ljósi, bæði um gerð fánans og mál þetta í heild sinni, áður en útgert er um þetta af þingsins hálfu. Málið er ekki svo í garðinn búið, að gott sje nú þegar að setja konungi stólinn fyrir dyrnar til að samþykkja þetta frv. óbreytt, eða beita lagasynjun gegn málinu. Jeg skal ekkert um það segja, hvort hann staðfestir frv.; það má vel vera; en jeg þykist viss um, að hvort sem hann samþykkir það eða synjar um staðfestingu, þá muni það fremur standa í vegi en greiða götu fyrir framgangi mikilsverðari mála, sem ættu að vera meiri áhugamál, ef borið er svo ört á. Hygg jeg t. d., að það gæti orðið til þess, að flýta ekki fyrir úrslitum sambandsmálsins, og þætti því æskilegast og ráðlegra, að málið væri afgreitt frá þinginu á einhvern annan hátt en í þessu formi.