06.09.1913
Efri deild: 48. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í B-deild Alþingistíðinda. (2187)

86. mál, aðflutningsbann á áfengi

Björn Þorláksson, framsögumaður:

Jeg vil skýra frá, hvernig stendur á frv. þessu, sem komið er frá háttv. Nd.

Það hefur komið fram ósk frá sendiræðismanni Frakka hjer um undanþágu frá bannlögunum, og sú beiðni hefur verið árjettuð með brjefi frá utanríkisráðherra Dana. Og er þetta önnur ástæðan til að frv. þetta hefur orðið til, en hin er landsyfirrjettardómur í máli, sem höfðað var gegn manni á Austfjörðum fyrir að hafa flutt vín á land úr skipi.

Brjefið frá sendiræðismanni Frakka er dagsett 30. júní í sumar og er til stjórnarráðsins. Ber hann sig þar upp undan því, að vínföng sín sjeu þrotin; hann hafi þann sið að neyta víns daglega, og hafi gert svo frá blautu barnsbeini hjer geti hann ekki birgt sig upp með vín, þar eð hann sje vanur að neyta ljettra vína, sem hjer sje nú enginn kostur á að fá, svo að hann verður að breyta mataræði, ef honum verði eigi leyft að flytja inn þær tegundir víns, sem hann er vanur að neyta.

Jeg skal með leyfi háttv. forseta leyfa mjer að lesa upp kafla úr þessu brjefi konsúlsins. Þar segir svo:

„Jeg neyðist því til alt í einu að láta af matarhæfi, sem jeg hef alla tíð vanizt, og það, sem er en sárara, að sjá konu mína og börn svift því, sem jeg er sannfærður um að þeim er gott og gagnlegt“.

Jeg býst við, að mörgum þyki þetta skrítið, og að þeir eigi erfitt með að skilja þetta, og að ýmsir muni leggja út af þessu, að ekki sje ástæða til að veita þessum mönnum undanþágu um innflutning áfengis fremur en öðrum innlendum mönnum. Út af þessu vil jeg geta þess, að Frakkar eru aldir upp við daglega nautn ljettra vína með mat, og að þau eru tiltölulega óskaðleg, eða ekki eins skaðleg og þau vín, sem við Íslendingar höfum vanizt. Þó að þessi undanþága væri veitt og orðuð eins og hún er í brtill. nefndarinnar við 1. gr., þarf enginn, sem þykir vænt um bannlögin og mótfallinn er vínflutningi til landsins að óttast, að af því leiddi sjerlega áfengisnautn eða misbrúkun. Það er og ákveðið, að áfengið er eingöngu ætlað til heimilisþarfa, og það er tiltekið eftir samráði við sendiræðismanninn, hve mikið megi flytja. Samkvæmt bannlögunum er eftir 1915 bannaðar allar vínveitingar í veizlum og samkomum. Hann mætti því ekki veita neinum vín eftir þann tíma. Og þetta áfengi yrði að vera tiltölulega ljett, ekki að hafa meira en 15 % af vínanda; öll sterkari vín er bannað að flytja inn, og það er engin hætta á, að sendiræðismaðurinn reyni að fara kringum lögin, enda yrði þessi innflutningur að heyra undir umsjón umsjónarmanns áfengiskaupa. Ef reyna ætti að fara kringum þau, mundi brátt kvikna grunur um það, og þessi grunur mundi nægja til þess, að maðurinn yrði kvaddur heim. Í brtill. stendur, að hann megi flytja inn 800 lítra. Það er miðað við, að ca. tveggja lítra sje neytt daglega.

Jeg veit, að ýmsir hafa það að mótbáru gegn þessari undanþágu, að með henni sje princip bannlaganna brotið. En þetta er ekki rjett, því að í 2. gr. bann laganna eru taldar 4 eða jafnvel fleiri heimildir til að flytja vín inn í landið. Ef frv. verður samþykt, verður þetta 5. eða 6. heimildin. Og jeg vil bæta því. við, að jeg er ekki í miklum vafa um, að ef þessarar heimildar hefði verið leitað 1909, þegar verið var að semja bannlögin, að henni hefði verið bætt við með. þeim takmörkunum, sem hjer eru tilteknar. Ef einhver efast um þetta, þá bið jeg að gæta þess, að jeg hafði þá nokkur afskifti af málinu og ætti því að geta dæmt fyllilega eins vel um þetta og hver annar.

Jeg veit, að sumir templarar hafa hneykslazt á þessu frumvarpi; Templurum hefur oft verið borið á brýn ofstæki. Mjer kemur ekki til hugar að bera það af þeim og að neita því, að ákafi þeirra hafi stundum gengið úr hófi. En jeg vil minna á, að til er ofstæki og ófrelsisandi líka á hina hliðina. Jeg er sjálfur templari, hef verið það meir en aldarfjórðung og ætla mjer að vera það, sem eftir er. Og jeg fæ ekki sjeð, að bannlögunum stafi nein hætta af þessu máli. Hjer er ekki um neina breyting að ræða, að eins. einni heimildinni bætt við þær, sem fyrir eru, og mjög svipaðri þeim. Þó að þessi heimild yrði veitt, tel jeg ekki hættu á, að fleiri heimildir yrðu veittar, og þó að þær yrðu veittar með líkum takmörkunum og þessi, tel jeg engan skaða að því.

Jeg segi þetta ekki eingöngu vegna háttv. þingdeildarmanna, er greiða eiga atkvæði um málið. Jeg segi það fremur vegna manna út um land, er láta bannlögin skifta sig miklu, og jeg get búizt við að lesi og heyri um málið. Jeg veit, að þessi orð mín verða lesin af mörgum. Mjer þykir það leiðinlegt, hve mikill úlfaþytur hefur verið gerður út af þessu máli á báðar hliðar, bæði hjer í Reykjavík og annarsstaðar. Mjer þykir það leiðinlegt vegna templara, en jeg skal geta þess, að margir þeirra líta á málið eins og jeg. Í raun og veru legg jeg ekki mikla áherzlu á, hvort málið gengur fram eða ekki. Jeg tel það fremur lítilsvert, álít það óskaðlegt, eins og jeg hef tekið fram. En í einu tilliti tel jeg það all athugavert, og það skal jeg nú taka fram.

Jeg gat þess, að þau skjól, sem komið hefðn fram í máli þessu, væru ekki eingöngu brjef sendiræðismannsins frakkneska, heldur og brjef frá utanríkisráðaneytinu danska. Í brjefinu er farið fram á þessa undanþágu. Þar er tekið fram, að frönsku stjórninni sje Ijóst, að hjer geti ekki verið um neinn rjett að ræða af hálfu Frakka til að fá undanþágu frá lögunum. Við vitum gegnum utanríkisráðaneytið, að þetta er skoðun Frakka. Þeir kannast við, að lögin sjeu góð og gild. Þeir fara bónarveg að okkur, að þeim sje sýnd sú kurteisi, að þeim verði veitt sú undanþága — og er þetta mjög eftirtektavert. Jeg vil leyfa mjer að lesa upp kafla úr brjefinu, og bið skrifarana að færa hann inn í ræðu mína.

„Om dette Æmne havde jeg en Samtale med Hans Excellence Islands Minister í Oktober Maaned f. A., í hvilken denne udtalte. at der næppe var Haab om, at nógen Undtagelseslov paa det paagældende Omraade kunde blive vedtaget, men at den franske Konsularembedsmand í övrigt indtil den 1. Januar 1915 paa Island vilde kunde forsyne sig med den Vin, han maatte have behov. Dette er gentagne Gange blevet meddelt det herværende franske Gesandtskab. Til Trods herfor har Gesandtskabet efter sin Regerings Ordre paa ny rejst Spörgsmaalet overfor Udenrigsministerist. I den Note, hvori dette sker, udtaler Gesandtskabet udtrykkelig, at den franske Regering er klar over, at den for en Undtagelse til Fordel for den franske udsendte Konsularembedsmand ikke kan paaberaabe sig nogen Lov, folkeretlig Bestemmelse eller Sædvane, men udtaler samtidig Haabet om, at den Kgl. Regering af Höflighedshensyn (raisons de courtoisie) vil undtage den í Reykjavík stationerede udsendte franske Konsularembedsmand fra omtalte Lovs Bestemmelser“.

Það er eftirtektavert, að hjer höfum við viðurkenning fyrir gildi bannlaganna frá þeirri þjóð, er óvinveittust hefur verið í garð bannlaga. Og það er líka eftirtektavert, að hjer er að ræða um kurteisisbeiðni frá fjölmennri og ríkri þjóð til okkar smælingjanna og fátæklinganna. Jeg vil skjóta því til manna, hvort það sje hyggilegt að neita þessari kurteisisbeiðni, er hún kostar ekkert og ekki verður sjeð, að hún skaði okkur. „Kurteisi kostar ekki fje“, mælir orðtakið; en skortur á kurteisi getur kostað fje. Og jeg hygg, að okkur komi bezt, að sýna öðrum þjóðum kurteisi og liðleika. Við erum og verðum mjög upp á aðra komnir. Því er það afar óhyggilegt að brjóta af sjer að ástæðulausu velvild annara þjóða. Jeg segi þetta af því, að hjer er farið fram á, að við sýnum sendiræðismönnum erlendra þjóða kurteisi, verðum við kurteisislegum tilmælum þeirra. Því hefur mjer orðið margrætt um þetta.

Þá sný jeg mjer að hinni orsökinni til þess að frumvarpið kemur fram.

Margir urðu ókvæða við, er þeir heyrðu um landsyfirrjettardóminn, og templarar og bannvinir líta svo á, að ef honum yrði ekki breytt, yrðu bannlögin ljeleg í framkvæmdinni til 1915. Margir hafa dæmt þennan dóm hart og kveðið hann rangan.

Mjer dettur ekki í hug að dæma um það efni. Jeg er ekki hæfur til þess, jeg vil aðeins benda á, að þessum dóm verður ekki breytt, og það þó að honum yrði áfrýjað fyrir 1. jan. 1915. og jeg veit ekki til, að stjórnin hafi gert neina ráðstöfun til að skjóta honum til hæztarjettar. En nú eru eftir 16 mánuðir, þar til lögin ganga að fullu og öllu í gildi og til þess tíma má í skjóli og skugga ljelegrar lögreglu skjóta miklu áfengi inn í landið. Eftir 1. jan. 1915 hefur dómurinn ekkert að þýða.

Tilgangur þessa frumvarps er meðfram að sjá við þessum leka: að varna því tjóni, er af því gæti hlotizt. að mikið af áfengi yrði flutt inn á þennan hátt.

Ef menn bera saman, hvað lagt er í sölurnar með frv. af hálfu okkar bannvina, og hvað unnið er með ákvæðinu, sem jeg nefndi, þá held jeg, að hver maður, sem tala vill af sanngirni, hljóti að játa, að gróði bannlaganna sje meiri en tapið. Tapið er í raun og veru ekki neitt, að því er jeg fæ sjeð, og hef jeg þó velt málinu talsvert fyrir mjer. En gróðinn er nokkur, þó að jeg geri ekki mikið úr honum, og jeg ímynda mjer, að sumir geri meira úr honum en jeg. Eitt ár líður fljótt, og þó að einstöku menn kynnu að birgja sig upp með áfengi, mundu þær birgðir fljótt þrjóta, því áfengi er vara, sem mönnum tekst ekki að geyma lengi. En töluvert tjón gæti þó stafað af slíkum innflutningi.

Í sambandi við þetta vil jeg minnast á eitt atriði og það er það, hvernig menn hafa dæmt og dæma um bannlögin. Margir bannmenn skoða þau sem dýrgrip, er ekki megi snerta, telja þau svo fullkomin, að ekki geti komið til mála að breyta þeim að neinu leyti. Bannfjendur telja þau aftur á móti óhafandi og handaskömm. Sannleikurinn er hjer mitt á milli. Jeg skal játa, að bannlögin eru ófulikomin sem Iög, og það ófullkomnari en mörg önnur lög, og það er eðlilegt, því hjer var á engri reynslu að byggja. Þá er þau voru samin, var höfð hliðsjónar lögum, er samþykt höfðu verið í Finnlandi, en aldrei komizt til framkvæmda. Og Finnar voru eins staddir og vjer, er þeir sómdu lögin. Hjer var verið að semja lög um nýtt efni. Þau voru nýmæli — svo eru raunar öll lög kölluð, en bannlögin voru nýmæli í rjettasta og fylsta skilningi orðsins. því má búazt við, að reynslan leiði ýmsa galla á lögunum í ljós, þó að jeg voni, að þeir verði ekki mjög mikilvægir. Það var líka okkar ólán, að lögin gátu ekki gengið í fult gildi í einu.

Jeg segi þetta og tek fram skoðun míns á þessu efni vegna bannvina út um land, þeirra, er kunna að álíta bannlögin fullkomnari en þau eru, og líta svo á, sem ekki megi snerta við þeim. Og jeg er þeirrar skoðunar, að við eigum og þurfum að bæta bannlögin, og vjer eigum að grípa tækifærið til þess, hvenær sem það gefst, og það þarf engan að furða, þótt þessu sje svo háttað um þessi lög, eins og öll önnur lög. Og hjer gefst nú eitt tækifærið. Ef einhver, sem þykist velviljaður bannlögunum, greiðir ekki þessu frv. atkvæði og með breytingartillögunni, þá er eitt af tvennu: að hann skilur ekki málið eða er því ekki velviljaður. En því er miður, að málið fer fyrir ofan og neðan garð hjá fjölda manna.

Það er full vissa fyrir því, að Nd. mun samþykkja þetta frv., ef 1. gr. verður orðuð eins og nefndin leggur til, og þá mega allir góðir bannlagavinir vel við, una.

En það er líka meir en litlar líkur til, að Nd. mundi líka samþykkja frumvarpið með nýju greninni, sem á að koma aftan við það.

Jeg álít það alveg nauðsynlegt, að gefa öll lögin út í einu lagi, því að þau ná til allra og verða að vera öllum mönnum kunn. Auðvitað þyrfti líka að þýða þau á mál þeirra þjóða, sem við helzt skiftum við. Það er mín skoðun, að það sje ávinningur, að bannlögin sjeu staðfest að nýju, þótt sumir bannvinir ef til vill ekki skilji það.

Hæstv. ráðherra hefur altaf verið andvígur bannlögunum, og oft hefur mjer og öðrum bannvinum sviðið, hvernig hann hefur talað um það mál. Þegar þetta frv. var til umræðu í Nd., talaði hann með ómaklegri hæðni um lögin, nefndi þau „hin frægu lög“ og var auðheyrt á tónfallinu, að hann lagði háðslega merkingu í orðin. Hann lagði og á móti því, að öll lögin í heild sinni yrðu staðfest í annað sinn og vildi, að þau yrðu kend við 1909 en ekki 1913. Það er sannarlega hörmulegt, að svo mætur maður sem hæstv. ráðh. er, skuli vera svona rangsýnn í þessu máli. Oft hefur hann haldið því fram, þegar rætt hefur verið um fjármál hjer á þingi, að bezt væri að afnema bannlögin, þá mundi ekki fje skorta. Mig furðar altaf á þessari skoðun, að það mundi rjetta fjárhaginn við, ef brennivínsstraumum yrði veitt yfir landið. Þegar jeg hef heyrt þá kenningu, hefur mjer venjulega dottið í hug: „sjáandi sjá þeir eigi og heyrandi heyra þeir eigi nje skilja“ ! — Jeg býst því við, að hæstv. ráðh. sje óljúft að bera lögin upp fyrir konung til staðfestingarað nýju. En þrátt fyrir það, hvað hann hefur verið oss bannvinum andvígur, ann jeg honum þeirrar sæmdar, að nafn hans sjáist undir þessum frægu lögum, sem hafa vakið svo mikla athygli á oss Íslendingum og aukið svo álit vort, og munu þó gjöra það meir í framtíðinni.

Skilyrði fyrir því, að háttv. Nd. samþykki frv. er, eins og allir hljóta að vita, að ekki verði felt burt úr því heimildin fyrir ræðismenn til þess að flytja inn áfengi. Jeg skal ekki orðlengja frekar um það ákvæði; jeg hygg það alveg skaðlaust, og væri því mjög illa farið, ef frv. væri teflt í voða þess vegna. — Síðari liður í 1. gr. hljóðar svo: „Öðrum en þeim, sem hjer hafa verið taldir, má ekki leyfa innflutning áfengis, flutning úr skipi í annað skip eða úr skipi í land“. Það getur vel verið. að mörgum finnist þetta ákvæði óþarft og jafnvel dálítið meinlokukent. En það mun vera sprottið af því, hvernig núverandi stjórn hefur fylgt fram bannlögunum. Nýlega hefur stjórnin veitt dönskum hermönnum leyfi — bessa leyfi — til þess að flytja áfengi í land. Mjer er einnig kunnugt, að kæra hefur verið send til stjórnarráðsins um það, að áfengt öl hafi verið flutt í land á Akureyri og þaðan um borð í danska varðskipið. En þeirri kæru hefur stjórnarráðið ekki sint. Þessvegna er þetta ákvæði nauðsynlegt til þess að minna stjórnina á, að hún eigi að fara að lögum. Jeg ætla mjer ekki að fara að að telja upp syndir stjórnarinnar, hvorki í þessu máli nje öðrum, en jeg gat ekki látið hjá líða, að minnast á þetta.

Svo mun jeg ekki fara fleiri orðum um þetta mál. Jeg hef verið nokkuð langorður, ekki vegna háttv. þingmanna, heldur vegna skoðunarbræðra minna meðal þjóðarinnar. Jeg vildi gera þeim ítarlega grein fyrir, hvernig afstaða mín er til þessa frumvarps.