06.09.1913
Efri deild: 48. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í B-deild Alþingistíðinda. (2191)

86. mál, aðflutningsbann á áfengi

Jón Jónatansson:

Eg ætla aðeins að segja nokkur orð til þess að lýsa afstöðu minni til þessa máls. Jeg hef skrifað undir álit nefndarinnar með fyrirvara, og er hann að nokkru leyti hinn sami og hjá h. þm.Ísaf., en snertir þó mest 1. gr. frv. en einnig brtill. við þá gr. frá meiri hluta nefndarinnar. Að þessu sinni mun jeg hvorki greiða atkv. með eða móti 1. gr. Mjer væri reyndar skapi næst að greiða atkv. á móti þessari undanþágu, en jeg álít það dálítið varhugavert, því jeg er hræddur um, að hún verði hvort sem er veitt í framkvæmdinni, og þá er betra að hún sje veitt í lagaleyfi en í lagabanni. Það er viðfeldnara, að lög heimili undanþáguna en að það þurfi að gera hana í bága við lögin. Þetta er ástæðan til þess, að jeg greiði ekki atkvæði á móti 1. gr. frv., en jeg mun greiða atkv, á móti brtill., og mjer finnast ástæður þær, sem h. ráðherra bar fram á móti henni, á rökum bygðar. 2. gr. fer fram á að gera umbót á lögunum. út af landsyfirrjettardómi þeim, sem nýlega var feldur og kunnur er orðinn, og þó jeg geti sagt, að mjer finst varla taka því, ef þessi galli getur ekki komið til greina lengur en til 1915, þá mun jeg samt greiða atkv. með greininni. Mjer þykir rjett að reyna að bæta þá galla, sem eru á lögunum, því þó jeg sje ekki trúaður á gagnsemi þeirra, þá vil jeg þó, að lögin fái, þá reynslu, sem menn vilja, að þau. fái, þannig að lögin sjeu viðunanlega úr garði gerð og sæmilega framfylgt, með því móti verður reynsluna mest að marka, og er þá rjett, að bæta úr þessum galla, sem þegar er augljós orðinn.