06.09.1913
Efri deild: 48. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 921 í B-deild Alþingistíðinda. (2192)

86. mál, aðflutningsbann á áfengi

Sigurður Eggerz:

Jeg vil leyfa mjer að taka aftur brtill. mína á þgskj. 699. Jeg skal játa, að það er dálítið fjárlagaryk í mjer eftir umræðurnar í nótt, og jeg mundi ekki hafa staðið upp, ef jeg væri ekki í minni hluta í nefndinni. Jeg skal viðurkenna, að ræðismaðurinn, sem fer fram á undanþáguna, er alls góðs maklegur, en jeg verð að taka í sama streng og h. þm. Ísaf., og það er varla ástæða til, að löggjafarvaldið fari að setja sig í hreyfingu fyrir þetta.

Jeg skildi h. ráðherra svo, að hann teldi vafasamt, hvort exterritorialitetsrjetturinn næði fullkomlega til þessara manna, og það, að þingið er að búa til þessi lög, sýnir, að það álítur þann rjett ekki vera hjer til staðar. Það getur ekki komið til mála, að það sje ókurteisi, þótt við viljum hafa okkar lög fyrir okkur, og viljum, að sendiræðismenn beygi sig undir þessi lög, og það verður því ekki talin kurteisisskylda, að veita þessa undanþágu.

Jeg verð að leggja meiri áherzlu á það en frsm. meiri hlutans, að þessi undantekning þýðir alt annað en undantekningin í 2. gr. bannlaganna. Það er auðsjeð, að þær undantekningar, sem þar er um að ræða, fara engar í þá átt, að veita mönnum leyfi til vínbrúkunar í eiginlegum skilningi. Innflutningur sá, sem þar er um að ræða, er til iðnaðarfyrirtækja, lækninga, til altarisgöngu o. s. frv.

En á hinn bóginn er þessi undanþága beint brot á principi bannlaganna, því ef hún næði fram að ganga, þá væri mönnum leyft að flytja inn áfengi til drykkjar, en það er einmitt meining laganna að banna áfengi til drykkjar. Og þó að sendiræðismenn sjeu nú hjer aðeins tveir að tölu, þá má ganga út frá því sem vísu, að þeim muni fjölga, og því fleiri sem þeir eru, þeim mun meira yrði drukkið í landinu. Það vil jeg biðja menn að athuga, að þegar menn hvergi fá áfengi,. þá gleyma menn drykkjarlönguninni, en þessir menn gætu hjálpað mönnunum til að halda lönguninni við, og hætt yrði við, að það græfi um sig. Því: „hvað höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sjer leyfist það“. Þetta yrði því til dráps bannlögunum. Hjer er verið að búa til gröfina, því ef þessi undanþága yrði samþykt, þá mundu fleiri á eftir koma, enda báru flutningsmennirnir upp fleiri undanþágur í Nd. Og strax get jeg orðið við þeim tilmælum, að nefna eina slíka undanþágu. Ef konungurinn heimsækti oss, þá mundu ýmsir rísa upp og telja oss. tilneydda af kurteisi að veita undanþágu frá bannlögunum. Og eins færi líklega, ef einhverjir kæmu hingað, sem eru hærri í metorðastiganum en sendiræðismennirnir, þá vildu menn veita þeim undanþágur.

Jeg vona, að jeg hafi nú sannfært háttv. meiri hluta nefndarinnar og aðra þingmenn um, að ekki sje rjett að samþykkja þessa undanþágu. Og jeg held líka, að menn út um land líti svo á sem jeg, að þetta veiki bannlögin. Það er sannfæring mín, og því er jeg á móti undanþágu þessari.