06.09.1913
Efri deild: 48. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í B-deild Alþingistíðinda. (2193)

86. mál, aðflutningsbann á áfengi

Björn Þorláksson:

Jeg ætla mjer ekki að svara ummælum þeim, er hjer hafa fallið, enda talaði jeg meira vegna. þjóðarinnar en vegna háttv. þingdeildar.

Hæstv. ráðherra furðaði sig á því, að. við vildum ekki láta þetta ná til sterkra vina, er norski sendiræðismaðurinn kynni að vilja hafa (Ráðherra: Eða enskur, ef kemur). Enskur sendiræðismaður er ekki til hjer. En jeg hygg, að með þessari breyting geti norski sendiræðismaðurinn flutt inn öl, ef hann óskar þess. En fyrir okkur í nefndinni vakti það eitt, að þetta leyfi yrði ekki misbrúkað. Og oss hefur heldur ekkert borizt um þetta frá norsku stjórninni, en aftur á móti frá frönsku stjórninni, og hún bað að eins um að fá að flytja inn ljett vín til neyzlu með mat, svo að ræðismenn þeir, er hún sendi, þyrftu ekki að breyta matarhæfi sínu. Og einn maður úr nefndinni átti tal um þetta við sendiræðismann þeirra, og var hann ánægður með styrkleika þann, sem hjer er tiltekinn.

Um styrkleikann er það að segja, að við höfðum í höndum lista yfir áfengisstyrkleika ýmsra áfengra drykkja, og samkvæmt honum eru yfir þessu marki 15% cognak, romm, brennivín, whisky, portvin, sherry, en á meðal þess, sem er undir 15% eru öll rauðvin og borðvín. Hjer er ekki farið fram á annað, en það, er franska stjórnin bað um, og sendiræðimaðurinn er ánægður með. Við templarar förum ekki að bjóðast til þess að útvega vín — alls ekki.

Hæstv. ráðherra gat þess, út af því að jeg lauslega mintist á, að hann hefði leyft að flytja inn vín nú í sumar og eins í fyrra til Akureyrar til „Fálkans“, að hann hefði ekki vitað um það. Á það legg jeg enga áherzlu, því það á hann að vita, enda ber hann fulla ábyrgð á því. En svo hefur því verið skotið að mjer, að hann hafi verið hjer á landi í vor, er undanþágan var gefin, en um sönnun. þess veit jeg ekki.

Um tillögu vora um að færa breytingu þessa inn í meginmál laganna, sagði hæstv. ráðherra, að hún mundi vera gerð af stríði við sig, en jeg sagði það í fullri alvöru, að jeg gæti unt honum þeirrar sæmdar, að undirrita lögin. Og jeg held ekki, að jeg hafi lagt stein í götu hans eða strítt honum á nokkurn hátt, svo að hann hafi ástæðu til slíkra ummæla.

Hæstv. ráðherra taldi bannlögin til spillingar, en jeg spái, að þau verði til hins mótsetta, en að fara að deila um það við hann ætla jeg mjer ekki. Það er bezt að láta reynsluna leiða það í ljós, hvor okkar hefur rjettara að mæla.

Háttv. 1. kgk. þm. (J. H.) var að finna að lögunum, hann batt sig við bókstaf þeirra, en gleymdi með öllu anda þeirra. Jeg hygg nú, að hver dómari, sem,er, gæti hæglega dæmt eftir lögunum og framkvæmt þau, en það efa jeg ekki, að þeir, er vilja snúa út úr lögunum og rangfæra þau, geti það á einhvern hátt. Það væri líka annaðhvort, þó að lærðir lögfræðingar gætu komið þar að venjulegum lögkrókum og lagaskýringum. Hvaða lög eru það, sem þeir ekki geta hártogað?

Háttv. þm. Ísaf. (Sig. St.), þm. V.-Sk. (Sig. Egg.) og 2. þm. Arn. (J. J.) sje jeg ekki ástæðu til að svara. Það ræður hver sínu atkvæði, og jeg sætti mig vel við það, hver sem niðurstaðan verður.