08.09.1913
Efri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 947 í B-deild Alþingistíðinda. (2226)

21. mál, íslenskur sérfáni

Steingrímur Jónsson:

Við 2. umr. þessa máls kom fram rökstudd dagskrá frá háttv. 2. kgk., sem jeg gat samþykt, og lýsti því þá yfir, að jeg kæmi þess vegna ekki sjálfur fram með rökstudda dagskrá, eins og jeg hafði gert ráð fyrir í ágreiningsnefndaráliti mínu. En úr því að sú dagskrá var feld, ætla jeg að koma fram með rökstudda dagskrá við þessa umræðu.

Jeg ætla mjer ekki að halda langa ræðu að þessu sinni, en læt mjer nægja að vísa til ágreiningsnefndarálits míns, þar sem jeg hef gert grein fyrir skoðun minni. Þar fyrir utan vil jeg að eins taka það fram, að jeg hef heyrt þá mótbáru gegn því, að vísa málinu til stjórnarinnar, að hæstv. ráðherra væri því svo mótfallinn, að hann mundi ekki fást til að sinna því.

Þessi mótbára er áreiðanlega á engum rökum bygð. Ef stjórnin skyti skollaeyrunum við áskorunum þingsins í slíku máli sem þessu, þá mundu forlög hennar verða viss á næsta þingi. Hinsvegar er það vafalaust, að ef ráðherra beitir sjer fyrir málinu, þá eru líkindi til, að vjer getum fengið fánalög, sem betur fullnægja tilfinningum og þörfum þjóðarinnar, en það frv. sem hjer liggur fyrir. Og ef þessi aðferð er höfð, þá gerum vjer að minsta kosti það, sem í voru valdi stendur til þess, að sigla fram hjá því skeri, að lenda . í baráttu við Dani út af málinu: Jeg vil því leyfa mjer að bera fram svohljóðandi rökstudda dagskrá:

„Í trausti þess, að ráðherra skýri hans „hátign konunginum frá vilja alþingis í „þessu máli, og beri það upp fyrir honum, „og að stjórnin síðan leggi fyrir næsta „reglulegt alþingi frv. til laga um íslenzkan fána, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá“.