08.09.1913
Efri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í B-deild Alþingistíðinda. (2228)

21. mál, íslenskur sérfáni

Sigurður Stefánsson:

H. deild er kunnugt, að jeg greiddi atkv. með, að frv. gengi til 3. umr., en að öðru leyti hef jeg ekki látið uppi skoðanir mínar um málið. Mjer hefur verið það umhugsunarefni, hversvegna h, ráðherra væri frumv. mótfallinn, og hefur mjer ekki orðið það ljóst fyr en nú. Hann hefur heldur ekki fyr, svo að mjer sje kunnugt, lýst afstöðu sinni til málsins eins greinilega eins og nú. En nú hefur hann tekið af tvímælin. Hann hefur lýst því skýrt og skorinort yfir, að hann muni gera alt, sem í hans valdi stendur, til þess að greiða fyrir málinu í Danmörku, og það þykir mikil tíðindi og góð. Og hann hefur gefið loforð um, að fylgja því fast fram, að lagt verði fyrir næsta alþingi stjórnarfrv. um íslenzkan fána, sem ekki verði verra heldur betra en það frv., sem nú liggur fyrir þinginu. Þetta þykir mjer mikilsvert, því að óneitanlega er það frv. ekki svo greinilega orðað, sem skyldi, og gæti því orkað tvímælis, hvernig ætti að skilja það.

Eftir að ráðherra hefur gefið þessa yfirlýsingu, horfir málið alt öðru vísi við en áður.

En þar að auki er á það að líta, að þetta mál er svo vaxið, hvort sem litið er til þjóðarinnar, þingsins eða afstöðu ráðherrans, að honum má það vera fullljóst, að sje sú leið farin, sem hin rökstudda dagskrá, er fram hefur komið, bendir til, en hann samt sem áður ekki getur komið málinu áleiðis, eða með öðrum orðum lagt stjórnarfrv. fyrir næsta þing — þá hlýtur honum, segi jeg, að vera það fullljóst, að þá bliku mundi draga upp hjer á landi, að hvorki hann nje neinn annar ráðherra mundi geta staðið það af sjer það jel, sem úr henni kæmi.

Aftur á móti mundi hann hljóta þökk allra góðra Íslendinga, ef honum tækist að reka þetta erindi, svo að góður árangur yrði af. Þá mundi einnig frestun málsins verða talin viturlega ráðin af öllum einlægum fylgismönnum þess, enda skiftir það minstu, hvort lög um fánann fást árinu fyr eða síðar.

Mál þetta er einn þáttur úr sambandsmálinu, og er mikið undir því komið, að meðferð þingsins spilli ekki í neinu góðri samvinnu við stjórnmálamenn Dana og konunginn í sambandsmálinu, en til þess er dagskrárleiðin að þessu sinni öllu líklegri en frumvarpsleiðin. Jeg mun því greiða atkvæði með dagskránni, en jeg tek það skýrt fram, að jeg geri það með þeim formála, að h. ráðherra standi við þá yfirlýsing sína, að hann geri alt, sem í hans valdi stendur til þess, að geta lagt fram betra frv. á næsta þingi. Vænti jeg, að hann láti hvorki á skorta einurð nje þrautsegju, til þess að hrinda málinu. í það horf, að allir megi vel við una.

3. kgk. (Stgr. J.) bar fram svohljóðandi rökstudda dagskrá:

„Í trausti til þess, að ráðherra skýri Hans Hátign konunginum frá vilja alþingis í þessu máli og beri það uppfyrir honum, og stjórnin síðan leggi fyrir næsta reglulegt alþingi frv. tilllaga um íslenzkan fána — tekur deildin. fyrir næsta mál á dagskrá“.