08.09.1913
Efri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í B-deild Alþingistíðinda. (2243)

110. mál, heimild til að veita einkarétt til þess að vinna salt úr sjó

Eiríkur Briem:

Jeg stend ekki upp til þess að gera neinar sjerstakar athugasemdir við frv. Jeg býst við, að það verði vafalaust samþykt nú, eins og við 2. umr. En jeg vil geta þess, að hjer er um stórmikið nýmæli að ræða, sem sje að styðja að nýjum atvinnurekstri með því, að veita einkarjett til rekstursins. Þegar þannig stendur á, er kannske ekki vanalegt að veita svona Iöguð einkaleyfi, heldur er venja, að nota þau þegar um einhverja nýja uppgötvun er að ræða, og þá sem verðlaun fyrir uppgötvunina, en hjer er einkarjetturinn veittur til stuðnings því, að. atvinnureksturinn geti komizt á. Að styrkja ný fyrirtæki á þennan hátt, er ekki vanalegt, heldur er það oft gert á annan hátt, t. d. með verðlaunum, eins og gert hefur verið með útflutt smjör. En þessi aðferð hefur mikið verið notuð í Japan, og það er vist mikið þess vegna, hve fljótt þeim hefur gengið að leiða inn nýjan atvinnurekstur, að þeir höfðu þann sið, að veita einkaleyfi til rekstursins. En svo var annað, sem gaf mjer tilefni til þess, að standa upp, og það er, hvað einkarjettartíminn á að vera langur, og lít jeg svo á, að það ætti ekki að vera fordæmi yfirleitt, en hjer hygg jeg, að það geti ekki orðið háskalegt vegna þess, að það sem unnið er úr sjó, að undanteknu salti, er svo litið að vöxtum, að flutningskostnaður frá útlöndum getur ekki hækkað vöruna verulega í verði, en væri um slíkt að tala, væri svo langur tími óhæfilegur. Jeg vildi geta þessa til þess, að það sæist seinna í framtíðinni, að þótt þetta einkaleyfi hefði verið veitt hjer, þá hefði þó ekki verið tilætlunin, að innleiða þá venju, að veita einkarjett um svo langan tíma eins og hjer er um að ræða.