08.09.1913
Efri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 977 í B-deild Alþingistíðinda. (2252)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Þórarinn Jónsson:

Jeg á eina brtll. á þgskj. 767 og þótti mjer vænt um, að heyra þau rök, sem hv. framsögum. færði fyrir því, að fjárlaganefndin vildi ekki taka hana til greina, sem voru þau. að vegurinn væri hreppsvegur. Þegar þessum rökum var hreyft, vissi jeg, að ekki mundi gnægð annara, því áhugamál mun að fella tillöguna. En jeg var einmitt búinn að sýna og sanna, að það væri sýsluvegur. sanna það með staðfestu eftirriti frá stjórnarráðinu um sýsluvegi í hreppnum. Mjer þykir vænt um þetta af því, að jeg veit, að háttv. framsm. mun nú hugsa sig vel um, áður en hann greiðir atkv. á móti till. Jeg fer hægt í sakirnar við meðnefndarmenn mína og ætlaðist til, að sannfæring þeirra vaknaði um nauðsynina á þessu fyrirtæki. En í nefndinni vildi jeg aldrei láta bera till. undir atkvæði, en kom heldur með hana til hv. deildar. — Það eru tvær ástæður til þess, að það ber að veita þetta fje. Fyrst og fremst knýjandi nauðsyn, og í öðru lagi er upphæðin lítil. En það er vanalega haft að aðalmótbáru gegn fjárveitingum, að þær sjeu stórar. Landssjóður ætti og helzt að hlaupa undir bagga þar, sem bæta má úr mikilli þörf með litlu fje. Jeg skal geta þess, að þetta hefur komið fyrir þing áður (1911), en var þá felt með eins atkvæðis mun. Jeg vil nú gera ofurlitla grein fyrir staðháttum. Þessi sveit mun vera einna verst stödd af flestum eða öllum sveitum, að því er vegi snertir, og verst sett. Sýsluvegir í hreppnum eru beggja megin Svínavatns, en þeir mega ófærir heita haust og vor, þótt varið hafi verið miklu fje til að gera við þá, bæði af sýslunni og hreppnum. En það hefur ekki verið nægilegt. Vegur þessi, sem hjer er farið fram á að fá fje til, og jeg sannaði, að væri sýsluvegur, liggur suður með Svínavatni vestanverðu, yfir svonefnda Vatnsvík og Grundarnes. Fram úr þessari vatnsvík liggja ger ófærar flóaflesjur, sem eru illfærar eða jafnvel ófærar gangandi mönnum. Til þess nú að þurfa ekki að sullast yfir víkina ófæra eða illfæra, er þegar byrjað á akfærum vegi á þessu svæði, sem nákvæmlega var mælt fyrir og ákveðinn af Páli Jónssyni vegastjóra. Jeg get fullvissað hv. deild um það, að jeg þekki hvergi betri nje meiri áhuga og samvinnu en þarna, og hefur svo verið um langt áraskeið, að til fyrirmyndar hefur verið; hreppsbúar hafa varið miklu meira fje en sýslan til vegagerðar yfir þetta forað, og til þess að geta haldið áfram þessu dýra og erfiða verki, biðja hreppsbúar um 1000 kr. hvort árið. En jeg hef aðeins farið fram á að þessi upphæð verði veitt fyrra árið gegn tvöföldu tillagi annarstaðar að, vil jeg með því sýna alla þá sanngirni og miðlun, sem málinu geti orðið til stuðnings. Þegar þetta er borið saman við sumar till, hv. fjárl. nefndar, þá fer hún að standa illa að vígi. Mætti í því sambandi nefna Svarfaðardalsbrautina, sem er hreppsvegur og hefur verið styrktur árum saman, ennfremur Kláffossbrúarveg og svo loks Vogastapaveginn, sem landssjóður hefur lagt í mikið yfir 60 þús, kr. og það gegn aðeins hálfu tillagi annarstaðar frá, og er þó þar líka sjáfarleiðin góður ljettir fyrir samgöngurnar. Þegar nú háttv. deild athugar þetta, þá mun hún sjá, að hún getur ekki annað en greitt þessu atkvæði, því hjer er ekki farið fram á neina stórupphæð. Jeg skal ennfremur geta þess, til að sannfæra hv. þingdeild enn betur, að þegar sveitarbúar þurfa í kaupstaðinn og vilja stytta sjer leið og fara hvorugan sýsluveginn, sem annar liggur næstum vestur að Húnavatni, en hinn austur við Blöndu, eða með milli 10–20 km. millibili, sem er mjög tilfinnanlegur krókur, þá er að sækja yfir mýrar og vegleysur, hinar svonefndu Kolkumýrar, sem að fornu voru svo nefndar, en nú eru almennt kallaðar Ásar. Þar er vegur svo, að enginn mun þar um fara án stórtafar og erfiðleika, auk þess sem ekkert má útaf bera, að leið þessi sje alófær, svo sem eins og ef rigningar ganga.

Að síðustu vil jeg geta þess, að verði þessum vegi ekki haldið áfram, þá er illkleyft að koma fje úr skilarjettinni Auðkúlurjett úr Sveinsstaða- og Torfalækjarhreppum, nema með því að fara stórmikinn krók, sem einnig er líka líttfær, því ilt er, hvar sem farið er. — Bezti vegurinn, sem til er í þessari sveit, er vestanvert við Svínavatn, undir vatnsbökkunum, en þó er hann ekki betri en það, að ríða verður oft fram í vatninu á stórgrýttum botni, eða smeigja sjer milli bakkanna og ófærra urða eða stórbjarga. En við nefið á manni er fram á bakkabrúnir fúakeldur, gerófærar, alt frá fjallarótum. Ábótavant tel jeg sanngirni hv. deildarmanna, ef þeir samþykkja ekki brtill.