08.09.1913
Efri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 979 í B-deild Alþingistíðinda. (2253)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Júlíus Havsteen:

Jeg hef leyft mjer að bera fram hjer eina brtill. Hún er á þgskj. 755 og er við 15. gr., liðina 17., 18. og 20. Jeg vildi, að jeg gæti mælt eins vel með þessari brtill., eins og hún á skilið. Jeg álít, að þingið eigi að hlynna að fögrum listum, eins og það hefur gert. Skáldskapurinn er fegurstur listanna. Höggmyndir og málaramyndir eru forgengilegar, en skáldskapurinn lifir ekki eingöngu meðan tungan er töluð, sem ritað er á, heldur margar aldir, eftir að hún er dáin. H. deild hefur nú bætt kjör skáldanna, sem talin eru í 17., 18. og 20. lið 15. gr. Það er engin þörf á að nefna nöfn þeirra. Hún hefur bætt kjör þeirra þannig, að styrkur sá, er þeim var ætlaður á fjárlögunum, eins og þau komu frá Nd., er látinn ganga á bæði árin, en ekki“ fyrra árið að öllu leyti, eins og h. Nd, ætlaðist til, og gaf hún því um leið í skyn, að hjer væri ekki um árlegan styrk eða laun að ræða, En það kalla jeg hart, að þessi skáld, sem jeg á við hjer, ekki megi halda þeirri upphæð, sem þau hafa haft að undanförnu. Styrkurinn er veittur þeim ekki eingöngu sem viðurkenning og til uppörfunar, heldur einnig til þess að gera hinar daglegu. áhyggjur, sem koma fyrir í lífinu, ljett bærari, og eru þessir menu efnalitlir, og hafa lítið sem ekkert upp úr skáldskap sínum, af því að þeir yrkja fyrir fámenna þjóð. Það er ekki ofmikið, þetta, sem þeir hafa haft. Það er að vísu hægt að benda á það, að útgjöldin til hinna fögru lista hafa mjög aukizt á seinni árum, er bæði málurum og myndhöggvurum hefur verið bætt í þá útgjaldagrein, sem hjer er spursmál um. En jeg vona svo góðs af hv. deild, að hún samþykki þessa tillögu mína.

Þá á jeg þá brtill. við 14. gr. B III a, að fyrir 9200 kr. komi: 9400, og að við athugasemdina í 1. linu fyrir 200 kr. komi: 400. Það sem hjer er farið fram á, er hækkun á launum cand. mag. Þorkels Þorkelssonar, 1. kennara við gagnfræðaskólann á Akureyri, svo að hann fái að njóta tiltölulega sömu kjara, og kennarar mentaskólans, og samskonar starfsmenn landsins, er búa við lítil laun. Jeg skal geta þess, að hann er maður vel lærður, og yfirgaf góða stöðu í Höfn, þegar honum var veitt þetta embætti, og ef hann hefði dvalið þar áfram, ætti hann við betri launakjör að búa en nú. 3. kennari mentaskólans fær eftir þessu fjárlagafrv. 2800 kr. og 5. kennari 2400 kr. Mjer finst, að sá kennarinn á Akureyri, sem gengur næst skólastjóra, verði að hafa eins mikið og 5. kennari mentaskólans. Jeg vildi því mæla hið bezta með brtill. minni við hv. deild, og vænti þess, að hún sjái, að sanngjarnt er, að samþykkja hana, og að kennara þessum verði gert jafnhátt undir höfði og 5. kennara mentaskólans.

Þá vildi jeg aðeins minnast á 16. brtill. nefndarinnar við 15. gr.. 29, um að færa styrkinn til Sigfúsar Einarssonar niður um 300 kr. Mjer sýnist það ósanngjarnt að minka þennan styrk, sem hann hefur haft. Hann hefur að vísu fengið stöðu við dóm kirkjuna, en hún tekur mikinn tíma, svo hann verður að minka við sig önnur störf, og tekjur hans af aukakenslu verða því minni en áður. Jeg kann yfir höfuð illa við, að lækka styrktarfje við menn, þegar þeir hafa notið þess mörg ár, og ekki gert sig ómaklega til þess að njóta styrktar framvegis, eða komizt í betri kjör en áður.