08.09.1913
Efri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í B-deild Alþingistíðinda. (2258)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Guðjón Guðlaugsson:

Það eru 2 brtill., sem jeg á, og vildi jeg minnast á þær með nokkrum orðum. 2. brtill. er á þgskj, 772, um að hækka aftur að nokkru leyti styrkinn til Hannesar Þorsteinssonar, sem lækkaður var hjer við 2. umr. Eins og jeg tók þá fram, áleit jeg alveg rangt að lækka þann styrk, og af þeirri ástæðu hugsaði jeg mjer að miðla málum, og hef jeg því farið fram á, að hækka hann aftur um 300 kr. Jeg hef ekki getað sannfærzt af þeim rökum, sem færð voru fyrir því, að lækka þennan styrk. Það hefur enginn mótmælt því, að þessi maður er mesti starfs- og eljumaðar, og síðan við 2. umr. hef jeg fengið fulla vissu fyrir því, að það verk, sem hann hefur leyst af hendi, er afarmikið, og jeg er sannfærður um, að það verk, sem hann hefur með höndum, er mjög mikils virði fyrir sagnfræði vora. Aðalmótbáran á móti því, að láta þennan mann halda þeim styrk, sem hann hefur haft, er sú, að síðan hann var veittur, hafi hann fengið aðstoðarskjalavarðarstöðu við landsskjalasafnið, sem hann fái rúmar 900 kr. fyrir, og því sje nóg að veita honum 2000 kr. Þetta getur vel verið rjett, af því að þessi maður er enginn fátæklingur, en mjer finst þetta ekki skifta verulegu máli, því ef hann vinnur fyrir háu kaupi, þá á hann að fá það, hvort sem hann þarf þess eða ekki. Og þegar maður er farinn að vinna eitthvert verk, og það kemur í ljós, að hann vinnur verkið vel, þá finst mjer einkennilegt að lækka við hann þau laun, sem honum voru upphaflega veitt. Mjer finst það ekki samkvæmni, þegar maður ber það saman við annað hjá deildinni, að vilja nurla þetta svo mjög. Nú, 3200 kr. eru að vísu góð og heiðarleg upphæð, en mönnum hefur ekki ávalt þótt það tiltakanlega mikið. Það er ekki langt síðan maður, sem hafði 3500 kr. fyrir litið verk, var hækkaður upp í 4100 kr., og jafnvel var gengið á snið við miklu betur „kvalifíseraðan“ mann til þess starfa. Því er það ósamkvæmni, að geta ekki unt Hannesi Þorsteinssyni þessa 2500 kr., sem hann hefur haft, vegna þess að hann hefur fengið 900 kr. starfa. Það var líka fært fram sem ástæða fyrir lækkuninni, að vegna þess að hann væri orðinn skjalavörður, þá ætti hann hægra með verkið, en jeg sje ekki, að það eigi að draga hann niður; eftirtekjan verður fyrir það miklu meiri, og það á ekki að hafa þau áhrif, að nurlað sje ef laununum (S. St.: Hver var maðurinn, sem hækkaður var úr 3500 í 4100 kr.?) Það var maður, sem varð gæzlustjóri Landsbankans.

Þá er brtill. á þgskj. 773 um að lækka styrkinn til bifreiðaferða úr 5000 kr. niður í 2000 kr. Jeg álít, að 2000 kr. sje góður styrkur eða það mundi mjer þykja, ef jeg ætlaði að ráðast í slíkt fyrirtæki, og get jeg ekki skilið, að hann sje ekki fullnægjandi. En ástæðan til þess, að jeg vil lækka styrkinn, er samt fyrst og fremst sú, að jeg álít, að hann sje heimskulegur, og því vildi jeg fella hann við 2. umr., en af því að það tókst ekki, vil jeg nú lækka hann niður í 2000 kr. Það er sjáanlegt, eftir því, sem h. þm. Ísaf. sagði, að verðlag á flutningum með þessari bifreið er svo hátt, að það verður ómögulegt að nota hana. Ef borið er saman, hvað kostar að flytja 100 tonn með strandferðaskipunum og með bifreiðum, þá verður munurinn nokkuð mikill, og jeg er viss um, að ætti að borga til strandferða eftir sama hlutfalli, þá yrðu það mörg hundruð þús. kr. á ári. Tillaga mín um að fella þennan styrk niður, er hjer nú endurfædd í þeirri mynd, að lækka hann niður í 2000 kr. og skárri en ekki er tillaga nefndarinnar um að lækka hann niður í 3500 kr., og ætla jeg ekki að fara fleiri orðum um þá tillögu að sinni. Hef jeg svo ekki fleira að segja að svo stöddu.