08.09.1913
Efri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 992 í B-deild Alþingistíðinda. (2260)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Jósef Björnsson:

Jeg hafði ekki ætlað mjer að taka til máls við þessa umr. fjárlaganna fremur en við 2. umr. En jeg get ekki á mjer setið sökum þeirra orða, sem formaður fjárlaganefndarinnar ljet falla, þegar hann var að tala um skáldin. Jeg lít svo á, að ummæli hans um eitt af skáldunum, skáldið Þorstein Erlingsson, hafi verið óverðug, og jeg get ekki skrifað undir, að það, sem h. þm. sagði, um hann sem skáld, hafi verið á rökum bygt. Það er satt, að það liggur ekki mikið eftir hann að vöxtum, en það er ekki satt, að þau kvæði, sem birzt hafa í nýjasta riti hans, sjeu öll gömul, því að flest þeirra eru ný. Jeg skal játa, að það væri æskilegt, að lægi meira eftir þetta góðskáld okkar, því að jeg get ekki verið þeirrar skoðunar, að það þurfi að fela kvæði hans fyrir æskulýðnum. Ef það þyrfti að fela kvæðin fyrir æskulýðnum, þá væri það af því, að þau spiltu honum, en það get jeg með engu móti viðurkent að hætt sje við að kvæði Þorsteins geri. Því þótt það sje að vísu ekki mikil kirkjutrú í öllum kvæðum hans, þá er þar þó önnur trú, sem jeg álít að hver maður hafi gott af, en það er trú mannkærleikans og miskunseminnar, og jeg get ekki sjeð, að það sje ilt fyrir æskulýðinn, þótt hann taki þátt í kjörum þeirra, sem bágt eiga. Á þá strengi hefur Þorsteinn Erlingsson slegið mest allra manna, og orð hans munu lifa lengi eftir að við, jeg og hv. þm. Ísaf., erum komnir undir græna torfu.

Úr því að jeg stóð upp á annað borð, ætla jeg að leyfa mjer að minnast á brtill. á þgskj. 781, um að veittar verði 4000 kr. til þess að gefa út á þýzku bók Einars Arnórssonar, er nefnist „Rjettarstaða Íslands„ Jeg tek undir það, sem sagt var hjer í deildinni, að það er ástæða til þess, að við látum eitthvað frá okkur heyra gegn því, sem sagt hefur verið miður vingjarnlega um okkur í eyru annara þjóða. Þar sem þetta rit, sem hjer er um að ræða, er dæmt ágætisrit af þremur sögumönnum vorum í fyrstu röð, og hefur hlotið verðlaun af sjóði Jóns Sigurðssonar, þá er það vafalaust ágætt vísindarit. Álit jeg því sóma fyrir okkur, að það komi fyrir augu annara þjóða, og jeg verð að álíta, að það sje nauðsynlegt til þess, að mæta öllu því rjettarstöðu góðgæti, sem sá góði maður, Knútur Berlin, hefur um okkur sagt.

Jeg skal þá minnast lítið eitt á brtill. sama h. þm. á þgskj. 779 um styrk til 8igurðar regluboða Eiríkssonar. Það er rjett, að hann er lítt fær til vinnu, ekki svo mjög sökum elli, heldur sökum þess að hann er orðinn heilsuveill, og hvernig sem litið er á starf það, sem hann hefur haft með höndum, og jeg get hugsað, að sumir meti það mikils, en aðrir lítils, en þeir hygg jeg að sjeu þó fáir, sem lítilsvirða það, en einmæli er, að bindindisstarfsemi sú, sem fram hefur farið hjer á landi, hafi borið blessunarríka ávexti fyrir land og lýð, og því er það vist, að frá þeirri hlið skoðað er hann styrks verður. Eitt er líka áreiðanlegt, en það er, að hjer í deildinni hafa verið samþ. styrkveitingar til manna, sem engu fremur eiga styrk skilið en sá maður, sem hjer á hlut að máli.

Þá vil jeg minnast með nokkrum orðum á styrkinn til bifreiðarinnar. Jeg skal taka það fram, að jeg tel það sjálfsagt, að þessi tilraun sje gerð, og með því að hlutaðeigandi maður, sem hefur af sjálfsdáðum byrjað a tilrauninni, vill ekki halda henni áfram, nema hann hafi þann styrk fullan, sem hann hefur farið fram á að fá, þá álit jeg sjálfsagt að hann verði ekki lækkaður, og mun jeg því greiða atkvæði á móti brtill. þeim, sem ganga í þá átt að lækka þennan styrk.